— Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.is SAGNFRÆÐINGURINN geðþekki Guðjón Friðriksson vinnur nú hörðum höndum að bók um Kaupmannahöfn sem höfuðstað Íslendinga ásamt Jóni Þ. Þór.

Eftir Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

SAGNFRÆÐINGURINN geðþekki Guðjón Friðriksson vinnur nú hörðum höndum að bók um Kaupmannahöfn sem höfuðstað Íslendinga ásamt Jóni Þ. Þór. Guðjón er nú staddur í Kaupinhafn vegna þessa en á þriðjudaginn ákvað hann að sleppa skræðugrúski um stund og skella sér á tónleika – með sjálfri Madonnu. Guðjón fór af stað í hálfgerðu flippi, skellti sér á hjólhest sinn með stuttum fyrirvara og tryggði sér miða með seinni skipunum.

„Þetta var skyndiákvörðun,“ upplýsir Guðjón blaðamann um. „Ég skellti mér bara einn. Ég skemmti mér alveg stórkostlega, þetta var gríðarlegt „sjó“, vídeó, dansarar og fleira. Heilmikil upplifun.“

Guðjón segir að um 40.000 manns hafi verið þarna og hann hafi stuðst við risaskjái til að nema það sem fram fór á sviðinu.

„Ég var einfaldlega forvitinn um þetta, ætli það megi ekki kalla mig laumuaðdáanda. Ég hef löngum hrifist af söngkonunni, en ekki sem sagnfræðilegu viðfangsefni eða einhverju slíku. Ég sótti tónleikana sem afþreyingu. En ég geri mér vel grein fyrir því að fræðimenn hafa rýnt í feril hennar, enda má segja að hún sé orðin ákveðið fyrirbæri – það má segja að hún sé poppdrottningin með stóru P-i“

Guðjón segir að tónleikarnir hafi fengið slælega dóma í dönsku blöðunum, talað um umbúðir á kostnað innihalds.

„En ég var í öllu falli að fíla þetta vel.“