Aukakennsla Bjarki Gunnarsson segir marga nemendur ekki vita hvert best sé að leita.
Aukakennsla Bjarki Gunnarsson segir marga nemendur ekki vita hvert best sé að leita. — Morgunblaðið/Eggert
Nemendur leita margir hverjir eftir stoðkennslu þar sem farið er ítarlega yfir ákveðin efnistök í litlum hóp eða einkakennslu. Fyrirtækið Menntamenn hefur sett á stofn vefsíðuna study.

Nemendur leita margir hverjir eftir stoðkennslu þar sem farið er ítarlega yfir ákveðin efnistök í litlum hóp eða einkakennslu. Fyrirtækið Menntamenn hefur sett á stofn vefsíðuna study.is þar sem nemendur geta á einum og sama staðnum leitað sér aðstoðar við flestar námsgreinar.

Góð tengsl við hópinn

„Það má segja að hugmyndin að framtakinu hafi kviknað í framhaldi af fríu sumarnámskeiði í stofnun fyrirtækja sem ég sótti í sumar. Ég hafði tekið að mér kennslu á meðan ég var í BS-námi í verkfræði sem ég lauk nú í vor en á námskeiðinu fékk ég aðstoð við að gera viðskiptaáætlun sem nýttist vel. Til að byrja með verður hægt að panta einkakennslu og skrá sig á lítil námskeið fyrir fjóra til sex manns. Það hefur reynst mér vel að kenna í svona litlum hópum þar sem maður nær góðum tengslum við hópinn og nemendurnir verða líka ófeimnari við að spyrja,“ segir Bjarki Gunnarsson, stofnandi Menntamanna, sem hefur mastersnám í verkfræði nú í haust.

Jöfn eftirspurn yfir árið

Þjónustan kemur til með að standa til boða fyrir grunn- og menntaskólanema en einnig munu nokkur námskeið verða kennd á háskólastigi en þá aðallega í raungreinum. Bjarki hefur fengið til liðs við sig kennara í hinum ýmsu námsgreinum til að sjá um námskeiðin sem hvert um sig tekur mánuð og eru átta kennslustundir innifaldar í því. „Það er mikið óskað eftir stoðkennslu í raungreinum og mér finnst gott og gaman að geta komið því sem ég kann til annarra og hjálpað þeim. Mest er sóst eftir aðstoð í kringum prófin en þó er eftirspurnin nokkuð jöfn yfir önnina,“ segir Bjarki.

Auðveldur aðgangur

Næsta sumar stefnir Bjarki á að setja á laggirnar stuðningssíðu sem mun standa nemendum til boða að nota endurgjaldslaust. Þar munu nemendur geta nálgast verkefni og kennsluforrit og leitað ráða hver hjá öðrum á þartilgerðu spjallsvæði. Í framtíðinni er einnig stefnt að því að í boði verði stærri námskeið á grunnskólastigi ásamt fullorðinsfræðslu. maria@mbl.is