Nauðsyn Margir Íslendingar hafa sótt námskeið í skyndihjálp.
Nauðsyn Margir Íslendingar hafa sótt námskeið í skyndihjálp. — Morgunblaðið/Sverrir
Rauði kross Íslands heldur ýmiss konar námskeið yfir árið sem bæði eru ætluð ungu fólki svo og foreldrum og starfsfólki skóla. Námskeiðin eru fjölbreytt og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Rauði kross Íslands heldur ýmiss konar námskeið yfir árið sem bæði eru ætluð ungu fólki svo og foreldrum og starfsfólki skóla. Námskeiðin eru fjölbreytt og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Lifa sem flóttamenn

Meðal námskeiðanna er námskeiðið Börn og umhverfi, sem ætlað er börnum 12 ára og eldri sem gæta yngri barna. Þar eru þjálfaðir ýmsir þættir er varða umgengni og framkomu við börn, aga, umönnun og hollar lífsvenjur, leiki og leikföng. Einnig er lögð áhersla á slysavarnir og algengar slysahættur í umhverfinu. Hlutverkaleikurinn Á flótta er ætlaður ungu fólki á aldrinum 13 til 18 ára, en leikurinn er upprunalega danskur og í honum fá ungmennin tækifæri til að upplifa hvernig það er að vera flóttamaður í einn sólarhring. Þau fá nýtt nafn, þjóðerni, vegabréf og jafnvel nýja fjölskyldu í upphafi leiksins og þarnæst hefst örlagarík atburðarás í þeim aðstæðum sem flóttamenn þurfa að búa við. Það er Ungmennahreyfing Rauða krossins í Reykjavík sem hefur haft veg og vanda að þessum námskeiðum. Hjá Akranesdeild Rauða krossins hefur verið í boði sjálfstyrkingarnámskeið fyrir unglinga en fjöldi annarra námskeiða eru einnig í boði.

Hefðbundin námskeið

Margir Íslendingar hafa sótt námskeið í skyndihjálp sem reynst hefur vel á ögurstundu en hjá Rauða krossinum eru margs konar slík námskeið í boði sem sniðin eru bæði að þörfum almennings og hópa, fagaðila og fyrirtækja, bæði hvað varðar lengd og efnistök. Þar er lögð áhersla á að kenna rétt viðbrögð í neyð og einfaldar aðferðir skyndihjálpar og sálræns stuðnings. Þá er einnig hægt að sækja námskeið í endurlífgun.