Fjórir af fimm stofnendum Netvarpsins Björn Brynjúlfur Björnsson, Marinó Páll Valdimarsson, Sindri M. Stephensen og Hrólfur Andri Tómasson.
Fjórir af fimm stofnendum Netvarpsins Björn Brynjúlfur Björnsson, Marinó Páll Valdimarsson, Sindri M. Stephensen og Hrólfur Andri Tómasson. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is ATHYGLI vakti sl. miðvikudag þegar Victor I.

Eftir Silju Björk Huldudóttur

silja@mbl.is

ATHYGLI vakti sl. miðvikudag þegar Victor I. Tatarintsev, sendiherra Rússlands á Íslandi, sagði í viðtali við Netvarpið að íslensk stjórnvöld hefðu afþakkað 4 milljarða evra lán frá rússneskum stjórnvöldum í október sl. Viðtalið kallaði á sterk viðbrögð ráðherra síðustu ríkisstjórnar sem furðuðu sig á ummælum sendiherrans þar sem slíkt lán hefði aldrei verið afþakkað.

En hvað er Netvarpið og af hverju var rússneski sendiherrann í viðtali þar? Að sögn Björns Brynjúlfs Björnssonar, eins stofnanda Netvarpsins, er þetta nýr miðill fyrir myndefni á netinu sem stofnað var til í upphafi sumars í atvinnusköpun. Segir hann hópinn sem stendur að Netvarpinu vera nemendur í verkfræði, lögfræði og bókmenntafræði við HÍ, en þeir fá allan tækjabúnað og húsnæði lánað til þess að geta haldið Netvarpinu úti. „Við höfum allir mjög mikinn áhuga á fréttum og höfum fylgst grannt með fréttum síðan hrunið varð. Okkur fannst vanta jákvæðari og uppbyggilegri fréttir,“ segir Björn og tekur fram að viðtölin á síðunni skiptist í þrjá flokka: nýsköpun, stjórnmál og viðskipti. Spurður um fréttastefnu Netvarpsmanna segir Björn það sýn þeirra að gefa viðmælendum færi á að miðla sinni sýn án of mikillar truflunar. „Hugmyndin með síðunni er að viðmælandinn sé í eins konar drottningarviðtali og fái að miðla sinni sýn óáreittur.“

Spurður hvernig viðtalið við rússneska sendiherrann hafi verið til komið segir Björn einn starfsmanna Netvarpsins hafa mikinn áhuga á Rússlandi og því hafa óskað eftir viðtali við sendiherrann. „Hann samþykkti viðtal vegna þess að hann sá að Tryggvi Þór Herbertsson hafði verið í viðtali hjá okkur, en Tryggvi Þór er vinur hans,“ segir Björn. Tekur hann fram að eftir því sem viðmælendum Netvarpsins fjölgar því auðveldara sé að fá fólk í viðtal.

Eitt viðtal á dag

Frá því Netvarpið fór í loftið í júlíbyrjun hefur alla virka daga ratað eitt 5-10 mínútna viðtal inn á vefinn: netvarpid.is. Alls hafa birst því birst 25 viðtöl það sem af er sumri. Meðal viðmælenda Netvarpsins eru Aðalheiður Héðinsdóttir, stofnandi og eigandi Kaffitárs, Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra, Tryggvi Þór Herbertsson þingmaður, Gunnar Karl Nielsson, verkefnisstjóri hjá Hugmyndahúsi Háskólanna, Ragnheiður Magnúsdóttir sem fer fyrir örlánasíðunni www.uppspretta.is, Egill Helgason sjónvarpsmaður og Vilhjálmur Þorsteinsson, stjórnarformaður CCP.