Nýstárleg og forvitnilegt námskeið Kennarar Þekkingarmiðlunar leiða saman hesta sína á námskeiði fyrir stjórnendur.
Nýstárleg og forvitnilegt námskeið Kennarar Þekkingarmiðlunar leiða saman hesta sína á námskeiði fyrir stjórnendur. — Morgunblaðið/Eggert
Nýstárlegt námskeið þar sem hestar verða notaðir við samskipta- og leiðtogaþjálfun mun hefjast í haust en uppruna námskeiðsins má að nokkru leyti rekja til aðferðar sem kennd hefur verið við bandaríska hestahvíslara.

Eftir Maríu Ólafsdóttur

maria@mbl.is

Hestar eru afar góðir aðstoðarþjálfarar þegar þjálfa þarf hvers konar samskiptafærni. Það kemur til af því að þeir eru hjarðdýr sem þýðir annars vegar að þeir hafa sterka félagsþörf og vilja tilheyra hópi og hins vegar að þeirra viðbragð við öllu sem virðist vera ógn er flótti þannig að það er alla jafna engin árásargirni í hestum. Þetta er unnið með í námskeiðinu en af því að hestar reiða sig á hópinn til að komast af eru þeir afar næmir á líkamstjáningu og veita fólki tafarlausa endurgjöf á það sem það gerir,“ segir Þórhildur Þórhallsdóttir, þjálfari og ráðgjafi hjá Þekkingarmiðlun. Hún hefur verið hestakona allt sitt líf en að auki er hún með bakgrunn úr félags- og kennslufræði og hefur séð um stjórnendaþjálfun síðastliðin tvö ár. Þau Ingrid Kuhlman, Eyþór Eðvarðsson og Þórhildur leiða saman hesta sína á námskeiðinu og sameina þar reynslu sína.

Líkamstjáning mikilvægur þáttur

Þórhildur segir rétt að taka fram að námskeiðið eigi ekkert skylt við reiðþjálfun heldur sé unnið á gólfi með hestana og þannig gerðar einfaldar æfingar. Unnið er með næmi og félagsþörf hestanna til að þjálfa liðsheild og góð samskipti en til að hestur leiti í ákveðinn hóp þarf að vera í honum góð og örugg stjórnun, þægilegt spennustig og skýr samskipti sem hestarnir skilja. Að loknum æfingum er yfirfarið hvernig hópvinnan gekk en í æfingunum er tungumálið gjarnan tekið út og eingöngu unnið með líkamstjáningu og vitund fólks aukin á því hvað hún er mikilvægur þáttur. „Við reiðum okkur oft á orðin en samskiptarannsóknir hafa sýnt að líkamstjáning hefur mun meiri áhrif á hvernig við túlkum hvert annað. Á námskeiðinu eru þjálfaðir þættir eins og að gefa skýr skilaboð, hafa ákveðna stefnu, vera samkvæmur sjálfum sér og skapa traust. Þetta er auðvelt að gera í hestaþjálfun og auðvelt fyrir þátttakendur að yfirfæra þjálfunina á sínar raunaðstæður því hestar þarfnast í samskiptum svipaðra þátta og fólk, sanngirni, endurgjafar og skýrra marka svo eitthvað sé nefnt. Skapaðar eru nýstárlegar aðstæður þar sem hið hefðbundna vinnuumhverfi er ekki að trufla heldur er lögð áhersla á hvernig fólk kemur fyrir og vinnur saman,“ segir Þórhildur.

Friðsamar skepnur

Hvert námskeið er sérsniðið fyrir hvern hóp eða vinnustað og sett upp eftir því hvaða þætti fólk vill þjálfa og hvort það er vant hestum. Þó er reynt að hafa hópana litla og markið sett við að í mesta lagi séu 12 manns í hverjum hópi. Þórhildur segir fólk ekki þurfa að þekkja inn á hesta til að taka þátt og hún sé meðvituð um að sumir séu hræddir við hesta og hún leggi sig þá fram um að útskýra eðli þeirra en fólk getur einnig verið í aðstoðarhlutverki á námskeiðinu og þarf þá ekki að vera í beinni snertingu við hestana.