Samstíga Ástvaldur Traustason og Gyða Dröfn reka saman rytmíska tónlistarskólann Tónheima.
Samstíga Ástvaldur Traustason og Gyða Dröfn reka saman rytmíska tónlistarskólann Tónheima. — Morgunblaðið/Jakob Fannar
Í Tónheimum er ekki farin hefðbundin leið í tónlistarkennslu. Þar er nemendum kennt að spila rytmíska tónlist svo sem popp og djass eftir eyranu en nemendur skólans eru á öllum aldri.

Eftir Maríu Ólafsdóttur

maria@mbl.is

Aldursforseti skólans er 85 ára en þar stunda nú um 250 nemendur nám og er stór hluti þeirra fullorðið fólk sem ætíð hefur dreymt um að spila á hljóðfæri eða vill taka upp þráðinn á ný svo og börn og unglingar. Fyrst í stað var einungis kennt á píanó en nú hafa fleiri hljóðfæri bæst við s.s. gítar, bassagítar og harmonika. Þá er stefnt að því að hefja kennslu í slagverki og trommuleik í haust en píanóið er þó langvinsælasta hljóðfærðið bæði hjá börnum og fullorðnum.

Nóturnar til trafala

„Ég byrjaði ungur að spila og eins og marga aðra dreymdi mig um að spila popp og rokk og síðar djass og blús en það nám var ekki í boði á þeim tíma. Ég tók snemma ákvörðun um að mig langaði að verða rytmískur píanóleikari og þær dyr opnuðust þegar tónlistarskóli F.Í.H. tók til starfa. Eftir að ég lauk háskólanámi frá Berkeley College of Music í Boston, þar sem ég lærði djasstónlist, fór ég að kenna rytmíska tónlist í hefðbundnum tónlistarskólum. Ég fann að ég hafði ekki síður áhuga á að kenna en að spila og tók þá ákvörðun að stofna Tónheima, þar sem mig langaði til að bjóða upp á tónlistarnám fyrir bæði börn og fullorðna með sérstakri áherslu á að spila eftir eyranu,“ segir Ástvaldur Traustason um aðdraganda þess að hann stofnaði tónlistarskólann ásamt eiginkonu sinni, Gyðu Dröfn Tryggvadóttur.

Gul, rauð og græn námskrá

Hjá Tónheimum getur hver og einn stundað námið á sínum hraða og forsendum. Margir sækjast eftir því að læra að spila sín uppáhaldslög án þess að taka próf en þeir sem vilja fara þá leið geta fylgt námskrá skólans og tekið próf samkvæmt henni. Nemendur eru fjórir saman í hóp og hefur það fyrirkomulag reynst mjög vel hjá bæði börnum og fullorðnum. Þá hefur Ástvaldur sett upp kennsluvef þar sem kennarinn getur sett inn á netið það sem hann spilar í tímum og nemendur síðan hlustað þegar heim er komið. Þetta margfaldar gildi hverrar kennslustundar því þar hafa nemendur aðgang að hljóðskrám með undirspili, kennsluefni og fleira.

Kennsla innan grunnskóla

Nýjasta hugðarefni Ástvalds er að bjóða upp á tónlistarkennslu í grunnskólum og hafa Tónheimar þegar hafiðsamstarf við nokkra skóla á höfuðborgarsvæðinu. Tónheimar setja upp aðstöðu innan skólanna og er kennslan og hugmyndafræðin alveg sú sama. „Með þessu sleppa foreldrar við hið alræmda skutl og börnin sem eru oftar en ekki á þeytingi út um borg og bý geta rölt í píanótíma á sokkaleistunum. Ég hef mikla trú á þessu og tel að þetta fyrirkomulag sé jákvæð viðbót við starf grunnskólanna og komi til með að auðga skólastarfið enn frekar,“ segir Ástvaldur.