Æfingar Gerðar eru miklar kröfur til nemenda Fimleikaakademíunnar.
Æfingar Gerðar eru miklar kröfur til nemenda Fimleikaakademíunnar. — Morgunblaðið/Eggert
Fjölbrautaskóli Suðurlands (FSu) var stofnaður 1981 og eru eigendur hans ríki og sveitarfélög á Suðurlandi.

Fjölbrautaskóli Suðurlands (FSu) var stofnaður 1981 og eru eigendur hans ríki og sveitarfélög á Suðurlandi. Fyrst í stað var skólinn starfræktur í húsnæði víða á Selfossi en árið 1987 var starfsemin flutt í núverandi húsnæði við Tryggvagötu og er í dag kennt í þremur húsum á lóð skólans.

Íþróttaakademíur

Með tilkomu nýs íþróttahúss við skólann haustið 2004 tók það við starfsemi á sviði íþrótta við skólann en allt frá stofnun hans hefur verið starfandi íþróttabraut við skólann. Af þeirri braut hafa tugir nemenda haldið áfram námi og lokið prófum sem íþróttakennarar og íþróttafræðingar. Innan skólans eru starfræktar ýmiss konar íþróttaakademíur en ein þeirra er fimleikaakademía en að henni standa Ungmennafélag Selfoss og FSu. Fimleikaakdemían er afreksíþróttaáfangi þar sem nemendur þurfa að hafa sýnt hæfileika og getu á þessu sviði en lögð er áhersla á getu einstaklingsins og framfarir í fimleikum. Með miklum og vel skipulögðum æfingum í fimleikum sem og í þjálfun þrekþátta og tækni er stefnt að því að byggja upp einstaklinga sem áhuga hafa á að ná langt í sinni íþrótt. Með mælingum og mati í upphafi áfangans verða persónuleg markmið sett fyrir hvern og einn. Einnig þurfa nemendur að læra að vera hluti af liðsheild þar sem einstaklingurinn þarf að gera upp við sig og forgangsraða hlutum í sínu lífi út frá þörfum heildarinnar. Gerðar eru miklar kröfur um stundvísi á æfingar, vinnusemi, aga og heilbrigðan lífsstíl.