Góðir vinir Systurnar Sigríður Emma, Una Marín og Alexía Rut með fjölskylduhundinn og æðarungann sem fylgir þeim hvert sem þær fara.
Góðir vinir Systurnar Sigríður Emma, Una Marín og Alexía Rut með fjölskylduhundinn og æðarungann sem fylgir þeim hvert sem þær fara. — Morgunblaðið/Kristinn
Eftir Ingibjörgu B. Sveinsdóttur ingibjorg@mbl.

Eftir Ingibjörgu B. Sveinsdóttur

ingibjorg@mbl.is

„ÞAÐ er dálítið átak að venja unga, sem komið hefur verið með til okkar, frá mannfólkinu og koma þeim út í sitt í rétta umhverfi,“ segir Hilmar Össurarson, dýrahirðir í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.

Æðarungi sem starfsmenn garðsins höfðu reynt að koma út í náttúruna á Seltjarnarnesi á dögunum elti á röndum fjölskyldu sem rakst á hann og hún hýsir nú ungann í bílskúrnum sínum.

Unginn fer nú með fjölskyldunni í gönguferðir á kvöldin þegar hún fer út að viðra hundinn.

Ungar allra andartegunda

Að sögn Hilmars er talsvert um að komið sé með unga af öllum þekktum andartegundum á suðvesturhorni landsins í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn auk unga fjölda annarra fuglategunda. Erfitt geti þó verið að koma þeim á legg.

„Reyni fólk að halda lífi í ungum heima hjá sér þarf að huga að því úr hvaða umhverfi þeir koma. Ef um er að ræða æðarfugl er ágætt að skera niður fiskflök í ræmur, helst ferskan fisk. Þá eiga ungarnir góða möguleika. Stokkandarungar eru vandmeðfarnir þegar þeir eru nýskriðnir úr eggjunum og venjulegt fuglakorn úr gæludýrabúðum gagnast þeim lítið. En ef þeir komast í flugnager er björninn unninn. Það er einnig gott að gefa andarungum brauðmylsnu. Það ætti hins vegar síður að gefa æðarungum brauð,“ segir Hilmar en bendir um leið á að leyfi þurfi til þess að halda villt dýr.

Jón Einar Jónsson, forstöðumaður Háskólaseturs Snæfellsness, segir að finni menn lítinn andarunga sé best að reyna að finna næstu kollu með unga og koma honum þar fyrir. „Þær taka alveg við aukaungum ef svo ber undir. Flestallar endurnar hafa ekkert á móti því ef einn eða tveir ungar til viðbótar eru í slagtogi, sérstaklega kafendur eins og æðarfugl.“

Sé æðarunginn stálpaður, eins og unginn sem hýstur er í bílskúr fjölskyldunnar í Kópavogi, er langbest að finna næsta hóp af æðarfuglum, að sögn Jóns Einars sem fæst við rannsóknir á æðarfugli.

„Þeir finnast víða við Reykjavík á öllum árstímum. Þeir eru hópsálir en ef unginn er búinn að vera lengi í haldi rofna böndin við menn kannski ekki nema hann hitti þeim mun fleiri af eigin tegund,“ segir Jón.

Hann kveðst ekki mæla með að æðarungum sé sleppt á ferskvatni, nema kannski á Tjörnina í Reykjavík þar sem aðrir sömu tegundar eru nærri.

  • Æðarfuglinn er algengasta andategundin í íslenskri náttúru
  • Gefa á ungunum ferskan fisk
  • Ekki á að sleppa þeim á ferskvatni