Þjórsárver Fram kemur á vef Umhverfisstofnunar að Þjórsárver séu víðáttumesta gróðurvin á miðhálendinu, sem stingi í stúf við harðneskjulegt umhverfið. Þar séu jafnframt mestu varpstöðvar heiðargæsarinnar í heimi.
Þjórsárver Fram kemur á vef Umhverfisstofnunar að Þjórsárver séu víðáttumesta gróðurvin á miðhálendinu, sem stingi í stúf við harðneskjulegt umhverfið. Þar séu jafnframt mestu varpstöðvar heiðargæsarinnar í heimi. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Jón Pétur Jónsson jonpetur@mbl.is Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra um að undirbúningur að stækkun friðlandsins í Þjórsárverum hefjist nú þegar.

Eftir Jón Pétur Jónsson

jonpetur@mbl.is

Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra um að undirbúningur að stækkun friðlandsins í Þjórsárverum hefjist nú þegar. Svandís vill ljúka stækkun friðlandsins eigi síðar en snemma árs 2010.

Hún segir að þetta sé ekki aðeins mikilvæg ákvörðun táknrænt séð heldur sé þetta „gríðarlega mikilvæg og brýn viðbót við okkar náttúruverndarsvæði.“

Umtalsverð stækkun

Stækkunin er umtalsverð en friðlandið mun þekja um 1.150 ferkílómetra svæði. Nú nær það yfir 375 ferkílómetra. Friðlandið verður því þrefalt stærra miðað við það sem nú er.

„Þetta stækkar umtalsvert í norður og nær yfir allt votlendið,“ segir Svandís. Hún segir að svokölluð rústamýrarsvæði, sem séu utan friðlandsins, muni bætast við. Um er að ræða ákveðna tegund af vistgerð á hálendinu, þ.e. vel gróið votlendi sem er samsett úr mörgum ólíkum gróðursamfélögum.

Þá segir Svandís að friðlýsingarskilmálarnir á þeim svæðum sem hafi verið friðlýst verði styrktir og bann lagt við röskun innan þessara svæða.

Hún segir að stækkun friðlandsins sé búin að vera baráttumál náttúruverndarsamtaka um árabil og því sé þetta mikill gleðidagur fyrir þá sem hafa barist fyrir þessu. Þetta sé mjög mikilvægt framlag stjórnvalda og sýni fram á breytta forgangsröðun og breyttar áherslur.

Mikilvæg breyting

„Þetta er stórkostlega mikilvægt fyrir náttúruverndarfólk, fyrir náttúruna á Íslandi og fyrir þessa baráttu, sem fjöldi fólks hefur verið að heyja undanfarin ár og áratugi. Og ég vona að þetta sé til marks um þann viðsnúning sem verður og hefur orðið með nýrri ríkisstjórn, í þágu náttúrunnar á Íslandi.“

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að friðlandið í Þjórsárverum verði stækkað og friðun þess lokið hið fyrsta. Stækkunin verður unnin í samræmi við ákvæði náttúruverndarlaga og undirbúningurinn verði í höndum Umhverfisstofnunar í samráði við landeigendur, viðkomandi sveitarfélög og aðra þá sem hagsmuna eiga að gæta.