Söngvararnir Steinunn Soffía Skjenstad, Dóra Steinunn Ármannsdóttir, Benedikt Kristjánsson og Andri Björn Róbertsson, ásamt Matthildi Önnu Gísladóttur píanóleikara, fluttu tónlist eftir ýmis tónskáld.
Tónlistarhátíð unga fólksins lauk með svokölluðu Aríukvöldi í Salnum í Kópavogi á sunnudagskvöldið. Fjórir söngvarar komu þar fram ásamt einum píanóleikara og fluttu nokkur þekkt íslensk sönglög og óperuatriði.

Eins og nafn hátíðarinnar ber með sér er tónlistarfólkið ungt að árum og það heyrðist. Sumar raddirnar eru enn býsna ómótaðar, þótt allir söngvararnir búi yfir ótvíræðum tónlistarhæfileikum.

Steinunn Soffía Skjenstad hefur fína sópranrödd sem hún hefur enn ekki fyllilega á valdi sínu; hún á þó eftir að ná því er fram líða stundir.

Dóra Steinunn Ármannsdóttir hefur sömuleiðis hljómmikla mezzósópranrödd sem varð alltaf stærri og fegurri eftir því sem á leið.

Benedikt Kristjánsson tenór er einnig mjög músíkalskur og Andri Björn Róbertsson er auðheyrilega efnilegur einsöngvari sem hefur kraftmikla, breiða rödd og útgeislun, en hún skiptir ekki litlu máli.

Ég hef ekki mikið um einstök lög að segja. Alla söngvarana skortir reynslu í að koma fram á tónleikum, en það er auðvitað eitthvað sem lærist með árunum. Margt á efnisskránni var samt vel áheyrilegt og kannski var það áhrifamesta Hver á sér fegra föðurland í kvartettútfærslu sem var vönduð og vel sungin. Einnig mætti nefna Blómadúettinn úr Lakmé eftir Delibes og Ég sé þig eftir Áskel Jónsson, hvorttveggja dúettar sem voru tilfinningaríkir og fallega fluttir.

Matthildur Anna Gísladóttir lék á píanóið og gerði það af natni og næmi fyrir ólíkum blæbrigðum tónlistarinnar.

Óneitanlega voru þetta vel heppnaðir tónleikar.

Jónas Sen

Höf.: Jónas Sen