Björg Svavarsdóttir fæddist á Höfn 12. ágúst 1951. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut laugardaginn 15. ágúst síðastliðinn. Foreldrar hennar eru Guðrún Hálfdanardóttir, húsfreyja, f. 30. janúar 1928 og Svavar Vigfússon, sjómaður, f. 20. júlí 1918, d. 14. apríl 1984. Systkini Bjargar eru Guðný Hafdís, f. 24. mars 1949, Vigfús, f. 2. október 1955 og Snæfríður Hlín, f. 26. júlí 1966.

Björg giftist á sjómannadag, 3. júní 1973, Hauki Helga Þorvaldssyni, f. 30. september 1943. Börn þeirra: 1) Birnir Smári, f. 5. september 1971, sambýliskona Jana Nielsen, f. 5. mars 1973. Synir þeirra eru Haukur Jákup, f. 20. ágúst 1996 og David Thor, f. 18. október 2003. 2) Þorvaldur Borgar, f. 7. júní 1974, giftur Fanneyju Sjöfn, f. 17. júní 1976. Börn þeirra eru Andrea Rún, f. 30. janúar 2000 og Haukur Helgi, f. 22. september 2006. 3) Kristján Rúnar, f. 28. febrúar 1980.

Björg starfaði við fiskvinnslu- og afgreiðslustörf hjá Kaupfélagi Austur-Skaftfellinga eins og margt ungt fólk á þeim tíma. Hún tók þátt í uppbyggingu útgerðarfélagsins Stemmu og starfaði þar við síldarsöltun og fleira. Björg lauk sjúkraliðanámi frá Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu 1993. Hún starfaði á Skjólgarði, hjúkrunarheimilinu á Höfn, síðar Heilbrigðisstofnun Suðausturlands, við umönnun og handavinnukennslu. Auk þess starfaði hún síðustu ár við textíl- og handavinnukennslu við Grunnskóla Hornafjarðar. Björg átti sæti í félagsmálaráði Hornafjarðar og sat eitt kjörtímabil sem varabæjarfulltrúi. Hún var einnig í stjórn menningarnefndar Austur-Skaftafellsýslu.

Björg var mikil hannyrðakona og prjónaði og saumaði mikið og nutu margir góðs af hagleik hennar. Vann hún til viðurkenninga á því sviði. Björg unni umhverfi sínu og hafði mikið dálæti á blóma- og trjárækt. Hún lét sér mjög annt um heimili sitt, fjölskyldu og var vinatraust.

Björg verður jarðsungin frá Hafnarkirkju í dag, laugardaginn 22. ágúst, og hefst athöfnin kl. 14.

Þýtur í stráum þeyrinn hljótt,

þagnar kliður dagsins.

Guð er að bjóða góða nótt

í geislum sólarlagsins.

(Trausti Á. Reykdal.)

Það er komið að kveðjustund. Í dag kveðjum við elsku Björgu okkar. Við stöndum eftir með sáran söknuð og hryggð í hjarta. Þá er gott að finna hlýjuna og samúðina frá góða fólkinu sem sýndi hjálp og elskusemi með nærveru sinni á erfiðri stund. Líka öllum þeim sem fjarri voru og sendu bænir og góðan hug.

Guð blessi eiginmann, syni, tengdadætur, litlu ömmubörnin og systkinin þrjú og þeirra fjölskyldur.

Elsku Björg. Þökk fyrir góðu stundirnar sem við áttum með þér.

Guð geymi þig,

Mamma.

Við söknum þess að fá ekki heimabökuðu kökurnar þínar.

Við söknum þess að fá ekki símtal frá þér á sunnudögum.

Við söknum þess að fá ekki að sjá þig brosa að vitleysunni í okkur.

Við söknum þess að fá ekki að hringja í þig og spyrja þig ráða.

Við söknum þess að fá ekki pakka frá þér með einhverju prjónuðu.

Við söknum þess að fá ekki sms frá þér á miðvikudögum.

Við söknum þess að fá ekki alla veisluréttina frá þér.

Við söknum þess að fá ekki að heyra þig hlæja.

Við söknum þess að fá ekki að kyssa þig bless.

Við söknum þess að fá ekki að snerta þig.

Við söknum þín.

Þú varst, þú ert og verður alltaf hetjan okkar.

Þorvaldur Borgar, Birnir Smári og Kristján Rúnar.

Kæra Björg. Það er okkur sem áttum þig að vini og félaga erfið raun að sætta okkur við að þú skulir í blóma lífsins hrifin brott úr jarðlífi, sárt að sjá þig lúta í lægra haldi fyrir illskeyttum andstæðingi þrátt fyrir einstaka og hetjulega baráttu, erfitt að sætta okkur við að hugrekki þitt og áræði fékk ekki frekara brautargengi í lífinu og óréttlátt að þú skyldir ekki fá að deila áfram þínum mikla mannauði með þeim er þér unna og voru þér svo kærir.

Kæra Björg, við viljum reyna að takast á við sorgina og söknuðinn með því að minnast yndislegrar samferðar okkar, góðra samverustunda og samhugar í gleði og sorg. Efst í huga er þakklæti til þín og forsjónarinnar fyrir að hafa leitt leiðir okkar saman. Hjá þér kynntumst við mörgu af því dýrmætasta og besta sem í einni manneskju býr. Einlægni þín, fölskvalaus gleði og umhyggja fyrir öðrum var einstök. Hógværð og hjálpsemi voru dyggðir sem þú deildir í ríkum mæli. Gestrisni og góðlátlegt viðmót var þér eðlislægt og öllum veitt.

Kjarkur og þor var þér í blóð borinn og marga erfiða hólmgönguna háðir þú með hugrekki, bjartsýni og trúfestu að vopni. Við dáðumst af dirfsku þinni og dug og samglöddust þér í mörgum unnum sigrum. Hæst reis hugrekki þitt og lífsvilji í lokaorrustunni. Með hugarró og æðruleysi tókst þú á við örlög þín sem veittu þér í lokin friðsama og sáttfúsa lausn frá sárri raun.

Kæra vinkona. Við munum sakna þín um ókomin ár. Þú verður okkur hvatning til að þakka og meta að verðleikum það sem okkur er gefið í þessu lífi. Hvatning til að takast á við erfiðleika með yfirvegun og festu. Hvatning til að miðla öðrum af andlegum og veraldlegum efnum. Hvatning til að sannfærast um að maður er manns gaman og þýðingarmikið er að deila með öðrum sorg og gleði. Hvatning til að veita þeim sem okkur eru kærastir umhyggju og ástúð. Kæra Björg. Þú varst lifandi hvatning þess að allir rækti vel garðinn sinn og skili honum af sér í þeim blóma sem sómi er af. Þú greindir hið fagra frá hinu fánýta og lifðir í fullvissu um vöxt alls þess sem nýtur einlægrar aðhlynningar.

Þar einn leit naktar auðnir,

sér annar blómaskrúð.

Það verður, sem þú væntir.

Það vex, sem að er hlúð.

...

(Kristján frá Djúpalæk.)

Fjölskylda þín var þér ákaflega dýrmæt. Hún naut væntumþykju þinnar í ríkum mæli. Þér var mjög umhugað um að hún fyndi hinn rétta lífstón og skynjaði mikilvægi samstöðu og vináttu. Þú verndaðir þína nánustu í orðsins fyllstu merkingu. Besta dæmið um það er hversu vel þú barst þig í erfiðum veikindum og reyndir að afstýra því að aðrir bæru þær byrðar sem þá voru á þig lagðar. Elsku Björg. Við kveðjum og þökkum. Það var okkur gæfa að eiga þig sem sannan og traustan vin.

Brosið þitt ljúfa og blik í auga lifir í minningunni. Hugrekki, yfirvegun og æðruleysi einkenndi þig. Ást og umhyggja í garð þinna nánustu og annarra var óþrjótandi lind sem þú veittir úr á lífsferli þínum.Megi náðarfaðmur Guðs umvefja þig um alla eilífð.

Hauki syni mínum og bróður okkar, sonum hans og fjölskyldum vottum við okkar dýpstu samúð.

Kristín Pétursdóttir, börn

og fjölskyldur þeirra.

Gekk ég út í ljóðalönd,

lesa skyldi blóm í vönd,

fann þar aðeins flög og bera steina.

Sendi ég þér nú sölnað blað,

systir, fyrirgefðu það.

Ég vona samt þú vitir hvað ég meina.

(Örn Arnarson.)

Það er ekki auðvelt að ætla sér að skrifa minningarorð um hana Björgu systur. Hún var næstelst af okkur systkinunum og var haldreipið okkar og algjör hetja. Hún barðist við krabbamein í mörg ár, hafði stundum betur, en varð svo því miður undan að láta.

Af mörgu er að taka úr minningakössunum. Við eldri systurnar slógum skjaldborg um þá yngstu sem fæddist þegar við vorum orðnar „hálf-fullorðnar“ og saumuðum við, prjónuðum og keyptum föt á hana. Þá var Björg í essinu sínu. Svo fór hún til Danmerkur og var þar í heilt ár. Mikið var hennar saknað þá. Hún var óskaplega forfrömuð þegar hún kom heim, talaði næstum með dönskum hreim, en bara stutta stund. Til lengri tíma litið breyttust matarvenjurnar á heimilinu okkar.

Það er eftirminnilegt þegar þau Haukur rugluðu saman reytum sínum eftir að hafa leikið saman í „Gullna hliðinu.“ Hún lék Maríu mey og hann Kölska. Undarlegt par en æðislegt þó. Allar götur síðan hafa þau búið hamingjusamlega saman við Vogabrautina. Þær eru ófáar gleðistundirnar sem stórfjölskyldan hefur eytt þar saman í góðu yfirlæti hvort sem það var í jólaboði eða öðru boði. Þá var alltaf skylda að spila eftir matinn og jafnvel taka lagið.

Ferðirnar út í Hellisholt eru orðnar fjölmargar. Þar þurfti að byggja sumarbústað, setja niður kartöflur og taka upp, fara í berja- og sveppamó og sækja jólatré, oftast með fulla bíla af börnum. Ekki má heldur gleyma nestinu sem var alltaf borðað undir berum himni í bland við hlátrasköll, glens og gamanyrði. Í fyrravor fórum við systkinin með mömmu okkar í afmælisferð. Bara við fimm. Ferðinni var heitið til Edinborgar. Við höfðum nýlega uppgötvað það að við höfðum aldrei ferðast saman og úr þessu varð að bæta. Ferðin var frábær og ómetanlegt fyrir okkur öll að fá þetta tækifæri til að vera saman.

Við kveðjum systur okkar sem var umfram allt yndisleg systir, dóttir, eiginkona, móðir, tengdamóðir og amma. Megi Guð vera með ykkur öllum og styrkja í sorg ykkar.

Hinsta kveðja frá systrum þínum sem nú eru Bjargarlausar.

Guðný og Snæfríður.

Elsku systir.

Það er þyngra en orð fá lýst að kveðja þig svona snemma. Við lifðum í voninni um að þér myndi batna eins þú hafðir svo oft gert frá því að þú greindist fyrst með krabbamein fyrir 15 árum.

Ég man þegar við vorum lítil hvað þú varst dugleg að leika þér í dúkkuhúsinu þínu og skipuleggja það í smáatriðum. Þú hafðir í nógu að snúast við að útbúa húsgögn úr pappakössum og eldspýtustokkum, sauma og prjóna föt á dúkkurnar. Þegar litla systir okkar fæddist fórstu að búa til föt á hana og síðan strákaföt á syni þína og börn systkina þinna. Mikið varstu glöð þegar loks fæddust sex stelpur í systkinahópnum eftir að átta strákar höfðu litið dagsins ljós. Þá gastu farið að búa til stelpuföt og seinna voru það föt á barnabörnin. Fötin sem þú saumaðir og prjónaðir voru hreinustu listaverk. Þau vöktu ekki bara gleði barnanna sjálfra heldur allra sem þau sáu.

Þú varst alltaf drifkrafturinn í stórfjölskyldunni að gera eitthvað saman. Þú gafst ekkert eftir þó að það færi að halla undan fæti hjá þér. Þú skipulagðir meira að segja humarveislu fyrir alla þá sem voru á staðnum þegar þú komst heim á Höfn og áttir bara fjórar vikur eftir ólifaðar. Þú skipulagðir einnig hver ættu að vera næstu skref í íbúð móður okkar þegar núverandi framkvæmdir væru um garð gengnar. Þér var alltaf annt um það að öllum í stórfjölskyldunni liði vel, meira að segja þegar þú sjálf varst orðin sárþjáð.

Elsku Haukur, Binni, Valdi, Stjáni, tengdadætur og barnabörn. Ég sendi ykkur mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Björg mín, hjartans þakkir fyrir samfylgdina.

Þinn bróðir,

Vigfús.

Elsku mágkona.

Þótt ég hafi verið þess aðnjótandi að fylgja þér þín síðustu spor hér í þessu jarðlífi og fá að kveðja þig í faðmi fjölskyldunnar undir verndarvæng frábærs starfsfólks á deild 11 E á Landspítalanum, á ég samt erfitt með að trúa því að ég eigi aldrei aftur eftir að sjá þig. Þú varst svo einstaklega hlý og góð, svo heilsteypt og aðlaðandi, kona sem maður vill alls ekki að hverfi á brott. Vegir lífsins geta verið illskiljanlegir. En minningarnar um þig eiga svo sannarlega eftir að hlýja mér um hjartarætur. Þær eru ótal margar og allar á einn veg, yndislegar.

Ég man t.d. hvað ég kynntist þér á sérstakan hátt í upphafi. Þú, Haukur og fleiri ættingjar frá Höfn komuð til að sýna leikrit í Ósló og þið heimsóttuð okkur Fúsa á sama tíma. Leikritið fékk afar góðar undirtektir, það tók því tíma að kynnast ykkur í eigin persónu að leikritinu loknu.

Þér og stórfjölskyldunni var svo sannarlega margt til lista lagt. Ég gleymi því ekki þegar þið kíktuð inn til mömmu þinnar á Höfn þar sem við dvöldum í fríum okkar. Þá sunguð þið gjarnan og lékuð saman á hljóðfæri, sem var einstök og mögnuð upplifun. Í einni heimsókninni vildir þú alls ekki að ég færi í jólaköttinn. Þú sagðir mér að velja mér snið og kaupa efni. Nokkrum klukkutímum seinna, á sjálfri Þorláksmessu, eignaðist ég ofurfallegan jólakjól. – Svona varst þú.

Það vakti athygli mína hvað þið Haukur voruð með eindæmum barngóð hjón. Þið rædduð og nostruðuð á ótal vegu við öll systkinabörnin, sem ekki voru fá. Þú prjónaðir og saumaðir á þau ófá fötin og til að kóróna saumaskapinn settir þú járnbrautarlest, hús og önnur listaverk á þau. Ég gleymi aldrei kápunum á stelpurnar sem voru hver með sínu sniði, allar fóðraðar með hettu. Þetta var meistarasmíð.

Þótt að það væri Haukur, strákarnir þínir og þeirra fjölskyldur sem áttu fyrst og fremst hug þinn og hjarta, léstu alltaf stórfjölskylduna þig miklu varða. Ég man t.d. þegar móðir þín varð veik og þurfti að leggjast inn á spítlala, hvað þú hugsaðir vel um aldraða ættingja hennar á meðan, en mörg hver þeirra þurftu mikla umönnun. Enginn hefði getað hoppað í hennar mikilvæga hlutverk og leyst það eins vel af hendi og þú, alveg hnökralaust.

Það var alltaf svo notalegt að heimsækja ykkur Hauk. Það var eins og áhyggjur og stress stórborgarinnar gufuðu upp um leið og gengið var inn um dyrnar. Maður fann strax hvað maður var innilega velkominn. Í umræðunum um lífsins gagn og nauðsynjar var alltaf stutt í léttleikann og glaðværðina. Ekki sökuðu afburða matar- og baksturshæfileikar þínir. Umhyggjan gagnvart allt og öllu var umvefjandi, virðing fyrir fólki, umhverfinu, fyrir samfélaginu öllu. Hlýja, gleði og traust einkenndi samband ykkar Hauks.

Elsku Björg, allir sem kynntust þér unnu þér heitt og ekki að ástæðulausu. Ég kveð þig með miklum söknuði en missir Hauks, strákanna ykkar, barnabarnanna, móður þinnar, systkina og stórfjölskyldunnar, er þó mestur. Megi minningin um einstaka manneskju gefa þeim öllum styrk til að takast á við framtíðina.

Sigurlaug Hauksdóttir

Við frænkurnar viljum minnast þess þegar Björgu datt í hug að halda frænkupartí fyrir okkur þegar við vorum litlar. Þá var okkur, systkinadætrum hennar, boðið í miklar búninga- og smáréttaveislur á sumrin heim til hennar. Þegar fyrsta frænkupartíið var haldið vorum við 4-7 ára gamlar og varð það reglulegur viðburður sem við biðum spenntar eftir.

Frænkupartíin voru ekkert lítið ævintýraleg og eftirminnileg. Það var alltaf frábært veður og Björg lét okkur ávallt líða eins og sönnum hefðarfrúm. Þegar við mættum var Björg búin að finna til fín föt, skó, hatta og hárkollur af ýmsu tagi úr fataskápnum fyrir okkur að máta. Við prófuðum ýmsar samsetningar og Björg hrósaði okkur alltaf fyrir lokaniðurstöðurnar. Þá var komið að andlitsmálningunni, en hún gat tekið dágóða stund, þar sem við vönduðum okkur mjög með misgóðri útkomu. Veislukosturinn sem Björg hafði útbúið með miklum metnaði vakti alltaf mikla lukku. Þar voru m.a. kleinuhringir með heitu súkkulaði helltu yfir, grillaðar kokteilpylsur, ávextir, ostar og glös skreytt ávaxtasneiðum og slaufum. Við spjölluðum saman uppdubbaðar á háleitum nótum, hlógum og nörtuðum mátulega smekklega í veigarnar. Björg fylgdist með okkur úr fjarlægð, brosandi út í annað yfir leikaraskapnum í okkur.

Í einu partíinu minnumst við þess að hafa trítlað á háu hælunum út í búð með Björgu að kaupa ís. Á leiðinni til baka tók blaðaljósmyndari Eystrahorns mynd af okkur sem birtist í næsta blaði. Af því vorum við afar stoltar enda vel tilhafður hópur.

Frænkupartíin eru síður en svo minningin ein í dag. Enn í dag hittumst við og gerum okkur glaðan frænkudag og höldum góðu sambandi þrátt fyrir fjarlægðirnar á milli okkar.

Við teljum okkur heppnar að hafa kynnst Björgu, hún var alltaf hlýleg, gestrisin, kát og svo uppátækjasöm að sameina okkur stelpurnar á þennan eftirminnilega og frumlega máta. Hún hefur gefið okkur svo margt í gegnum tíðina og látið gott af sér leiða, sannkölluð fyrirmyndarfrænka og hetja. Takk fyrir allar frábæru minningarnar. Við munum sakna þín og halda frænkupartíunum áfram þér til heiðurs og okkur til ánægju.

Frænkuklúbburinn:

Alexandra, Embla, Hrefna Rún, Ingibjörg, Röskva og Sædís Harpa.

Í dag kveðjum við kæran vin og samstarfskonu sem fallin er frá langt fyrir aldur fram. Björg Svavarsdóttir var mikill skörungur og tókst á við sjúkdóm sinn af miklu æðruleysi og kjarki. Hlýja og nærgætni einkenndu hana í lífi og starfi. Björg starfaði við heilbrigðisþjónustu á Hornafirði frá 1985 er hún hóf störf á Skjólgarði. Árið 1993 útskrifaðist hún sem sjúkraliði og starfaði á hjúkrunar- og sjúkradeild HSSA við fag sitt um árabil. Eftir að starfsþrek til aðhlynningar og vaktavinnu þvarr skipti Björg um gír og nutum við starfskrafta hennar þá í umsjón með lager stofnunarinnar sem hún sinnti af sömu alúð og dugnaði. Það er okkur mikill heiður að hafa unnið með Björgu og fengið að vera henni samferða öll þessi ár. Æðruleysið og baráttuþrekið er okkur hvatning og fyrirmynd. Björg var glæsileg kona gædd reisn sem hún hélt allt til síðasta dags.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(Vald. Briem.)

Kæri Haukur, þér, sonum ykkar Bjargar, Rúnu og öðrum aðstandendum vottum við okkar dýpstu samúð.

Fyrir hönd samstarfsfólks og HSSA,

Ásgerður, Ester og Guðrún.

„Bognar aldrei – brotnar í

bylnum stóra seinast.“ Þessi fleygu orð skáldsins verða mér hugstæð þegar vaskleg barátta Bjargar Svavarsdóttur er á enda. Það húmar vissulega að í hugarranni þegar hún Björg hefur sofnað inn í hásumarið. Það fylgdi sumarylur öllum samfundum, vermandi gjöfult viðmót, veitult hugarþel, hlýja hjartans. Þetta voru hennar aðalsmerki. Hugur leitar til horfinna stunda á heimili þeirra Hauks frænda míns þar sem ferðalangi var alltaf tekið opnum örmum á flakki hans um hið víðfeðma kjördæmi. Þar var hinn vísi gististaður, þar var reisn og rausn í ranni, en fyrst og síðast þessi ljúfa elskusemi sem brá lit sínum og ljóma á allt. Þetta allt skal þakkað á klökkri kveðjustund. Hjá henni Björgu áttu gleðin og alvaran sína skíru og skæru tóna, glaður hlátur, geislandi bros, mikil og góð málafylgja, um skýrar skoðanir hennar velktist enginn í vafa, traust var hún í hvívetna og trúmennska einkenndi öll verk hennar. Hún átti einkar góða og gefandi eiginleika og ættarfylgjur góðar sem reyndust henni ágætavel á lífsins leið. Mikla og góða þökk á hún í hjarta mínu fyrir það hve vel hún reyndist mér í alúðarhlýjum viðtökum sínum alltaf og ævinlega, ef mig bar að hennar garði, en vissulega sækir að söknuður yfir að hafa ekki rækt vináttuna betur í áranna rás. Hversu erfið var barátta hennar um árin mörg en vondjörf gekk hún þar á mót og hafði vissulega marga verðskuldaða sigra og nú eiga vel við orð skáldsins, sem vitnað var til í upphafi. Sár harmur er nú kveðinn að Hauk, mínum ágæta frænda og sonum hans, móður hennar og öðrum aðstandendum. Þeim öllum sem áttu hana Björgu að sendum við Hanna einlægustu samúðarkveðjur.

Við leiðarlok gjörir maður sér bezt grein fyrir því hversu ofurdýrmæt manni eru kynni af slíkri öndvegiskonu sem hún Björg var. Hugumhlýju þakklæti mínu vafin er hennar munabjarta minning.

Helgi Seljan.

Kæra góða vinkona.

Þín er ljúft að mega minnast

mikið gott var þér að kynnast

og gaman var að fá að finnast

og festa vináttunnar bönd

er við tókumst hönd í hönd.

(G.J.)

Nú skiljast leiðir. Ég minnist þín með ljúfri þökk í hjarta og um leið sárum söknuði. Við Ellert áttum margar skemmtilegar og gefandi stundir með ykkur Hauki og þær geymast í minni og veita huggun á erfiðri stundu. Þú gafst þeim sem umgengust þig svo mikið. Þú varst ávallt jákvæð og glöð, meira að segja á þessum erfiðu og oft á tíðum kvalafullu stundum undir lokin. Þú kvartaðir aldrei en sást alltaf birtu og gleði í öllu.

Elsku Björg. Ég þakka þér fyrir kynnin og samveruna og glettna brosið þitt mun alltaf lifa í minningunni.

Þegar komstu þá var hlýtt,

þau voru okkar kynni,

allt var göfugt, gott og blítt

er gafst í návist þinni,

ef að jarðlífs mæddu mein

mest var kærleiksdáðin,

skorinorð og hjartahrein

hollust gafstu ráðin.

(G.J.)

Elsku Haukur, Binni, Valdi, Stjáni og aðrir aðstandendur. Megi Guð styrkja ykkur.

Erna.

Fallin er frá fyrir aldur fram hjartkær æskuvinkona okkar og fermingarsystir, Björg Svavarsdóttir. „Sá sem kveður vin sinn finnur fyrir endanleika lífsins“ (Vigdís Grímsdóttir, Grandavegur 7). Þessi tilvitnun sem blasti við okkur í Fréttablaðinu 15. ágúst öðlaðist svo sannarlega meiningu þennan dag. Dagurinn var hlýr, mildur og hljóður og á einhvern hátt umvefjandi eins og Björg var sjálf í lífi sínu og starfi og áralangri vináttu sinni við okkur sem aldrei bar skugga á. Við þrjár bundumst vináttuböndum í Barnaskólanum á Höfn og þessi vináttubönd rofnuðu aldrei. Þegar við hittumst gátum við alltaf tekið upp þráðinn á ný og fundið þessar sömu tilfinningarnar í brjóstum okkar sem mynduðust í æsku.

Tregi og hryggð gagntaka huga okkar á þessari stund þó að þessi málalok komi vissulega ekki á óvart eftir að hafa fylgst með áralangri þrautseigju Bjargar í átökum við illvígan sjúkdóm. Þar sýndi hún dæmafáa stillingu og hugprýði. Lífsleikni heitir ein af nýlegri námsgreinum grunnskólanna, sem meðal annars felst í því að lifa til fulls á hverri líðandi stund og temja sér jákvæðni og hugarró. Segja má að Björg okkar hafi haft þessa gáfu innbyggða frá fyrstu tíð.

Minningarnar hrannast upp, bernskuheimili Bjargar var fyrst í Odda á Höfn, auk foreldra og systkina bjuggu þar afi, amma, ömmusystir og móðurbræður. Þar var vissulega um að ræða sannkallað „lífsleikniheimili“ í mjög jákvæðri merkingu þess orðs. Alltaf var tími og rúm fyrir mannlegu þættina og skapandi hugsun og handverk var í hávegum haft. Fram í hugann koma orð eins og sköpunargáfa, hógværð, rósemi, umburðarlyndi og síðast en ekki síst fordómaleysi. Líðandi stund var nýtt til fulls og gestum og gangandi gefin hlutdeild í því.

Án efa var þetta veganesti Bjargar úr foreldrahúsum mikilvægur hornsteinn þess æðruleysis sem hún sýndi gagnvart sjúkdómi sínum. Björg hafði þann einstaka hæfileika að geta endalaust gefið öðrum af sér bæði í gleði og sorg. Ævifélaginn Haukur Helgi Þorvaldsson stóð sem klettur við hlið hennar í blíðu og stríðu. Drengirnir þeirra Binni, Valdi og Stjáni og síðar tengdadæturnar og barnabörnin voru augasteinar Bjargar. Það var yndislegt að heyra hana tala um þau og sjá hve samböndin voru ræktuð af mikilli hlýju og hjartagæsku.

Björg sinnti öllum störfum sínum af alúð jafnt heima og að heiman. Hún starfaði með öldruðum og sjúkum, við kennslu og við afgreiðslustörf, svo fátt eitt sé nefnt. Það var sama hvað hún fékkst við, allt lék í höndunum á henni. Björg naut þess að skapa og var alltaf með eitthvað nýtt á prjónunum, hún prjónaði, saumaði, heklaði og föndraði af mikilli list og fengu vinir og vandamenn að njóta þess í ríkum mæli.

Björg var yndisleg manneskja og auðgaði líf samferðamanna sinna. Við viljum þakka henni samfylgdina að leiðarlokum, biðja góðan Guð að leiða hana á land ljóssins og biðja um blessun og hjálp fyrir syrgjandi ástvini. Megi allar góðar minningar verða styrkur.

Margrét Sigurðardóttir

og Guðrún Eiríksdóttir.

Enn á ný erum við minnt á það með óþyrmilegum hætti að lífið er hverfult.

Með sorg og söknuð í hjarta kveðjum við vinkonu okkar Björgu er á brott var kölluð úr þessum heimi eftir mikla baráttu við erfiðan sjúkdóm.

Þá baráttu háði hún eins og hennar var von og vísa með æðruleysi og hetjuskap.

Elsku vinkona, við viljum þakka þér með þessum fátæklegu orðum fyrir alla góðu stundirnar sem við höfum átt saman, alla hjálpsemina, dugnaðinn og hugulsemina og munum við ylja okkur við þær minningar í framtíðinni.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífs þíns nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði nú sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Elsku Haukur, Guðrún, Binni, Valdi, Stjáni og fjölskyldur.

Megi guð og allar góðar vættir vera með ykkur og styrkja á þessum erfiðu tímum

Ólöf, Jóhann og fjölskylda.

Ég er afskaplega stoltur af því að hafa fengið að kynnast henni Björgu, svo góðri, sterkri, glaðbeittri, djúpri og örlátri manneskju sem barðist af hugrekki við illvígan sjúkdóm. Í mínum huga er hún fyrst og fremst hetja.

Björg er ekki lengur á meðal vor, og því verðum við víst að láta okkur nægja sögurnar hans Hauks. En hún sáði svo jákvæðum fræjum allt um kring að minningin um hana mun lifa og blómstra um tíð og tíma. Ég þekki fáa ríkari en þá sem fengu að kynnast henni.

Það er með samhryggð og sorg sem ég hugsa til ykkar sem elska hana. Það er með söknuði sem ég kveð hana. En það er með hamingju í hjarta sem ég hugsa til þess að hún muni aldrei nokkurn tímann gleymast.

Hvíl í friði, elsku Björg mín. Hvíl í friði.

Þinn,

Ýmir.

Elsku Björg mín. Nú ertu farin frá okkur alltof snemma eftir hetjulega baráttu.

Okkar kynni hófust fyrir 5 árum er við urðum herbergisfélagar á Sólheimum í orlofsviku í boði Bergmáls. Kolbrún formaður Bergmáls vissi hvað hún var að gera þegar hún valdi þig fyrir herbergisfélaga minn og var það mikil gæfa fyrir mig. Þú varst alltaf svo blíð og góð, róleg og yfirveguð og góður hlustandi og gat ég talað við þig um allt sem mér lá á hjarta. Hjá Bergmáli kynntumst við góðu fólki sem við höldum vinskap við enn þann dag í dag og er þar Bergmál sameiningartákn okkar. Svo þegar þið Haukur fóruð að koma við hjá okkur á leið austur eða suður og við Eggert að heimsækja ykkur á Hornafjörð þá styrktust vináttu- og fjölskylduböndin enn meira er við kynntumst strákunum ykkar og barnabörnunum sem þú varst svo stolt af. Mikið var gott að koma til ykkar á hlýlegt heimilið, spjalla um tónlist og önnur hugðarefni og þiggja veitingar og þar stendur uppúr humarsúpan góða. Þú varst mikil handavinnukona og dáðist ég að því sem þú prjónaðir á þig og barnabörnin og eins naut ég góðs af því.

Elsku Björg mín, þú hafðir svo mikið að lifa fyrir og mikið að gefa. Frábær manneskja og vinur sem er sárt saknað.

Elsku Haukur, Binni, Valdi, Stjáni og fjölskyldur, guð geymi ykkur og styrki í sorg ykkar.

Lilja Guðmundsdóttir.

Hinsta kveðja

Hinsta kveðja

Elsku amma B. Ég þakka þér fyrir að hjálpa mér og kenna mér ýmislegt, til dæmis að prjóna og að sauma. Þú kenndir mér líka allar bænirnar sem ég kann. Þú varst góð kona og varst alltaf að gefa mér fullt af fallegum hlutum. Þú gafst mér vettlinga og peysur, glös og styttur, lampa og margt, margt fleira. Þú varst besta amma í heimi og ég hugsa alltaf til þín.

Þín ömmu-stelpa,

Andrea Rún.