Þorbjörn Guðjónsson
Þorbjörn Guðjónsson
Eftir Þorbjörn Guðjónsson: "Í hugum flestra landsmanna stendur líkast til ekki til að Íslendingar ætli að víkja sér undan því að standa við skuldbindingar sínar í þessu máli , en það er ekki klárt hverjar þær eru ."

MARGT hefur verið sagt um Icesave og það kann að vera álitaefni að bæta einhverju við umræðuna. Mér finnst þó þrátt fyrir allt verjandi að hnykkja aðeins á tveimur atriðum . Með lögum nr. 98/1999 var tilskipun 94/19/EB um innistæðutryggingar tekin upp í íslensk lög. Samkv. lögunum er lágmarks innistæðutrygging sparifjáreigenda 20.877 evrur eða 3.780.547 ísl. krónur miðað við gengið 1evra=181 þann 13.08.09. Það er þessi upphæð sem íslensk stjórnvöld kunna óbeint (þ.e. með ríkisábyrgð sem er nú fyrir Alþingi) eða beint ( lög um tryggingasjóð) að ábyrgjast. Hollendingar ábyrgjast allt að 100.000 evrum um fram þær 20.887 evrur sem íslenski tryggingasjóðurinn/ ríkið ábyrgist, hjá Englendingum eru allar innistæður um fram 20.877 evrur tryggðar. Í hugum flestra landsmanna stendur líkast til ekki til að Íslendingar ætli að víkja sér undan því að standa við skuldbindingar sínar í þessu máli , en það er ekki klárt hverjar þær eru . Nú halda menn fram einni eða annarri lagaskýringu á ábyrgð Íslands annars vegar og kröfuröð ábyrgðar Íslands í bú gamla Landsbankans hins vegar sem ýmist eykur eða minnkar þá upphæð sem líklegt er að Íslendingar komi til með að axla þegar upp er staðið. Ef við göngumst við því að Ísland beri að greiða hverjum og einum innistæðueiganda allt að 20.887 evrum þá lítur skuldbindingardreifingin miðað við gengið 13/8/2009 svona út (talnaefni frá island.is), Íslendingar ábyrgjast/greiða kr. 684.921.863.949, Englendingar ábyrgjast/greiða kr. 481.337.882.396 og Hollendingar ábyrgjast/greiða kr. 89.354.953.375. Samtals eru þetta 1.255.614.699.720 sem innistæðueigendur fá greitt. Innistæðueigendum hefur verið greitt og löndin þrjú eiga kröfu í bú gamla Landsbankans.

Oft er giskað á að 75% af innistæðuupphæðinni verði dekkuð af eignasafni gamla Landsbankans, þ.e kr. 941.711.024.790 fáist upp í ábyrgðarkröfurnar og kr. 313.903.674.930 lendi á þjóðunum þremur en þó með misjöfnum hætti eftir því hvernig kröfurnar raðast. Sé kröfuröðunin „lagskipt“ þá lendir ekkert á Íslandi, séu kröfurnar jafnsettar þá lenda kr. 171.230.465.987 á Íslandi.

Undirrituðum er ekki kunnugt um að framkvæmda-/löggjafarvaldið hafi með óyggjandi lagatúlkun sýnt fram á að Íslandi beri að ábyrgjast umræddar innistæður umfram getu tryggingarsjóðsins sjálfs. Í annan stað verður að gera þær kröfur til framkvæmda-/löggjafarvaldsins að það með óyggjandi hætti kveði upp úr um það hvort ofangreindar ábyrgðir/kröfur landanna þriggja séu lagskiptar, þ.e. fyrst endurgreiðist 20.877 evra ábyrgðin á hvern reikning og svo það sem umfram kann að vera, svo langt sem eignir bús gamla Landsbankans duga til, eða hvort kröfurnar eru jafnsettar, þ.e. allar gerðar upp í sama hlutfalli.

Verði niðurstaðan sú að okkur beri að greiða höfuðstólsupphæðina kr. 684.921.863.949, að endurkrafa okkar í bú gamla Landsbankans gamla sé jafnsett kröfum Breta og Hollendinga og að eignir gamla Landsbankans dugi til þess að greiða 75% af kröfum þjóðanna þriggja, þá ættum við að fara fram á að lán Breta og Hollendinga til Íslendinga til að gera upp íslenska hlutann beri sömu vexti og innlánasafn gamla Landsbankana, þ.e. 3,5% í stað 5,5%. Það er sanngirnismál að Íslandi sé ekki gert að greiða hærri vexti en þá sem fást af eignum gamla Landsbankans, þ.e af þeim lánum sem gamli Landsbankinn hefur lánað viðskiptavinum sínum. Væri gengið að þeirri kröfu stæði skuld Íslands að 7 árum liðnum þegar hefja þarf greiðslur af láninu í kr. 154.234.007.891 í stað 270.048.691.347. Árleg endurgreiðsla yrði þá kr 22.438173.635 í stað kr. 43,630,969,803 og endurgreiðsluhlutfallið yrði 1.33% af vergri landsframleiðslu fyrsta árið og færi svo lækkandi niður í 1,14% , sé reiknað með 2% árlegum hagvexti næstu árin og að verg landsframleiðsla árið 2008 var 1.465.065.000.000. Ef hins vegar hagvöxtur yrði enginn þá yrði endurgreiðsluhlutfallið 1,53%.

Á meðan vafi leikur á um hvað sé rétt hvað viðkemur öðru hvoru eða báðum nefndra atriða, þ.e. ábyrgðarskyldu og kröfuröð, er ógjörningur fyrir Alþingi að afgreiða ríkisábyrgð tengda Icesave-málinu með vitrænum hætti. Skýr og óumdeilanlegur skilningur á nefndum tveimur atriðum er frumforsenda sem verður að vera uppfyllt eigi málíð í heild sinni að vera tækt til umræðu og afgreiðslu. Ríkisvaldinu ber að svara þessum álitamálum vafningalaust. Rösum ekki um ráð fram.

Höfundur er húskarl.