Mikil bílaeign Hver Íslendingur losar um 3 tonn af koldíoxíði á ári.
Mikil bílaeign Hver Íslendingur losar um 3 tonn af koldíoxíði á ári. — Morgunblaðið/Ómar
Eftir Ómar Friðriksson omfr@mbl.is MEIRIHLUTI Íslendinga virðist ekki vera reiðubúinn að draga úr eigin losun koldíoxíðs með notkun samgöngutækja. Þetta kemur fram í könnun Andreu Eiðsdóttur og Höllu Bjarkar Jósefsdóttur sem þær unnu fyrir B.

Eftir Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

MEIRIHLUTI Íslendinga virðist ekki vera reiðubúinn að draga úr eigin losun koldíoxíðs með notkun samgöngutækja. Þetta kemur fram í könnun Andreu Eiðsdóttur og Höllu Bjarkar Jósefsdóttur sem þær unnu fyrir B.Sc lokaritgerð þeirra í viðskiptafræði úr Háskólanum í Reykjavík á fyrri hluta þessa árs. Niðurstöðurnar benda þó til þess að Íslendingar hafi engu að síður áhyggjur af loftslagsbreytingum og þegar þátttakendur voru spurðir hvort þeir væru sammála því að almenningur, fyrirtæki og stóriðjufyrirtæki ættu að greiða fyrir eigin losun gróðurhúsalofttegunda, sögðust flestir vera sammála því.

Í rannsókn þeirra var leitast við að athuga hvort Íslendingar séu tilbúnir að draga úr eigin losun koldíoxíðs þegar kemur að samgöngum.

Takmarkaður áhugi á almenningssamgöngum í stað bíls

Alls svaraði 321 þátttakandi spurningalista sem lagður var fyrir þá.

Þær benda á að hver Íslendingur losi um 3 tonn af koldíoxíði á ári, er meginástæðan sé mikil bílaeign landsmanna.

Flestir svarendur töldu ólíklegt að bifreiðafjöldi þeirra muni minnka á næstunni og því bendi fátt til þess að bifreiðaeign þjóðarinnar muni dragast saman næstu tvö árin. Af þessu draga þær þá ályktun að landsmenn séu ekki tilbúnir til að draga úr losun koldíoxíðs þegar kemur að notkun fólksbifreiða. Aðeins fimmtungur þátttakenda sagðist vera tilbúinn að nota eingöngu almenningssamgöngur í stað þess að eiga bifreið. Segja þær niðurstöður rannsókna í öðrum löndum sýna að fólk sé viljugt til að notast meira við almenningssamgöngur til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda „en hér á landi virðist vera minni vilji fyrir því“.

Tæp 10% segja líklegt að þeir fái sér umhverfisvænni bíl

Aðeins lítill hluti Íslendinga hefur einhvern hug á að fá sér umhverfisvænni ökutæki á næstunni samkvæmt niðurstöðum rannsóknar Andreu Eiðsdóttur og og Höllu Bjarkar Jósefsdóttur. Í könnun þeirra kom í ljós að um 9,5% svarenda sögðu mjög líklegt eða frekar líklegt að þeir mundu skipta yfir í umhverfisvænna ökutæki á næstu 24 mánuðum.

Flestir eða 44% töldu það aftur á móti mjög ólíklegt að þeir mundu skipta en 17% tóku ekki afstöðu til þessarar spurningar. Ef eingöngu er litið á þá sem sögðu líklegt að þeir mundu skipta yfir í umhverfisvænni ökutæki sögðu 27,6% ástæðuna þá að þeir vildu fá sér umhverfisvænni bifreið. Rúm 51% sögðust vilja fá sér eyðsluminni bíl.