Tveir mánuðir Merkið komið í steypireyðina á Skjálfandaflóa 23. júní, en síðan hefur hún synt yfir átta þúsund kílómetra og sent reglulega frá sér merki.
Tveir mánuðir Merkið komið í steypireyðina á Skjálfandaflóa 23. júní, en síðan hefur hún synt yfir átta þúsund kílómetra og sent reglulega frá sér merki. — Ljósmynd/Maria Iversen.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ágúst Inga Jónsson aij@mbl.is VÍSBENDINGAR úr talningu í sumar á hrefnu á landgrunninu benda eindregið til að hrefnum hafi aftur fjölgað verulega. Í talningu 2007 kom í ljós að hrefnu hafði fækkað stórlega á landgrunninu frá árinu 2001.

Eftir Ágúst Inga Jónsson

aij@mbl.is

VÍSBENDINGAR úr talningu í sumar á hrefnu á landgrunninu benda eindregið til að hrefnum hafi aftur fjölgað verulega. Í talningu 2007 kom í ljós að hrefnu hafði fækkað stórlega á landgrunninu frá árinu 2001.

Talningu á hrefnu er nýlokið og liggja niðurstöður ekki fyrir. Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingur á Hafrannsóknastofnun, segir að greinilega sé talsvert meira af hrefnu á landgrunninu en var árið 2007. Hins vegar sé það ekki jafnmikið og kom út úr mælingum árið 2001.

Samkvæmt talningunni 2001 voru hrefnur við landið taldar 43.600, en aðeins 10-15 þúsund árið 2007. Öryggisfrávik eru veruleg hvað þessar tölur varðar. Við könnun í Faxaflóa síðasta sumar, sem er eitt þéttsetnasta hrefnusvæðið, þótti ljóst að hrefnu var farið að fjölga aftur á landgrunninu.

„Samfara vísindaveiðum á hrefnu árin 2003 til 2007 voru gerðar miklar rannsóknir á stofninum,“ segir Gísli. „Fækkun hrefnu var mikil á landgrunnssvæðinu árið 2007 og hugsanlega árin á undan. Við vildum tengja þessa fækkun erfiðum fæðuskilyrðum á landgrunnninu, en á þessum tíma bárust fréttir um afkomubrest hjá sjófuglum. Sandsíli hafði brugðist árin á undan og á þessum tíma vorum við einmitt að fá niðurstöður úr fæðurannsóknum hrefnu, sem sýna hversu mikilvægt sandsílið er hrefnunni á þéttasta svæðinu sunnan- og vestanlands,“ segir Gísli. Hann segir að fæðuvalið sé mismunandi eftir landsvæðum og geti verið allt frá litlum sílum upp í boldungsþorsk.

Ekki liggi fyrir upplýsingar um hvar hrefnan hélt sig meðan fæðuskilyrðin voru erfið hér við land. Skilyrði hafi verið erfið til talningar úr skipum á sumum veigamiklum svæðum árið 2007, en reynt hafi verið að telja hrefnu allt að ströndum Grænlands og norður til Jan Mayen. Ýmsar breytingar hafi orið á lífríki sjávar á síðustu árum og ekki sé ólíklegt að hrefnan hafi fært sig norðar til að afla fæðu. Ekki sé talið líklegt að hrun hafi orðið í hrefnustofninum.

Hjá Hafrannsóknastofnun er verið að vinna úr rannsóknum sem gerðar voru á hrefnu 2003-2007. Niðurstöðurnar verða kynntar fyrir Alþjóðahvalveiðiráðinu innan tveggja ára.

Haldið áfram með gervihnattamerkingar

Steypireyðurin sem merkt var í Skjálfandaflóa 23. júní hefur síðustu daga tekið því rólega suður af Reykjanesi. Á þessum tæplega tveimur mánuðum hefur dýrið farið víða og vonast vísindamenn til að fá upplýsingar frá sendinum sem lengst og hugsanlega fram á vetur þegar hvalir halda suður í höf. Haldið verður áfram með gervihnattamerkingar á hvölum í haust, en þær eru bæði flóknar og kostnaðarsamar. Nokkrum sinnum hefur slíkum sendi verið komið í hnúfubaka en merkin hættu að senda eða duttu úr dýrunum eftir skamman tíma.

Fleiri en Íslendingar hafa átt í erfiðleikum með að fá merki frá hnúfubak, því hvalasérfræðingar víða um heim hafa átt í svipuðum vanda. Hnúfubakur er kvikur í yfirborði, stekkur gjarnan upp úr og lætur sig falla með tilheyrandi bægslagangi, sem er ekki æskilegt fyrir viðkvæman tölvubúnað.

Taka sýni úr veiddum langreyðum

STARFSMAÐUR Hafrannsóknastofnunar hefur í sumar gert mælingar og tekið sýni úr þeim 85 hvölum sem komið hefur verið með að landi í Hvalfirði. Úrvinnsla úr gögnum hefst strax í haust að vertíð lokinni.

Gísli Víkingsson hvalasérfræðingur segir að miklar rannsóknir hafi verið gerðar á langreyði árin 1986-89 þegar vísindaveiðar voru stundaðar og einnig hafi rannsóknir verið gerðar áður. Mikilvægt hafi verið að taka upp þráðinn þegar veiðar hófust á langreyði síðastliðið vor því ýmislegt hafi breyst í sjónum á síðustu tveimur áratugum.

Kynþroski sveiflast

„Síðan vísindaveiðunum var hætt fyrir 20 árum hefur langreyðum fjölgað talsvert milli Íslands og Grænlands, en þar er aðalveiðisvæðið,“ segir Gísli. „Við töldum því mikilvægt að taka sýni núna til að rannsaka aldur og kynþroska og einnig fæðu og orkubúskap. Við viljum vita hvort eitthvað er farið að sverfa að með auknum fjölda og hugsanlega aukinni samkeppni um fæðuna. Við könnum líka hvernig kynþroska er háttað, en hann hafði sveiflast talsvert og gat orðið á bilinu frá 8-12 ára. Við töldum á sínum tíma að þetta væri tengt fæðuframboði og vexti og viljum halda þessum rannsóknum áfram,“ segir Gísli.

Elsta langreyður sem greind hefur verið hér við land var 94 ára. Fullvaxin langreyður er 18 til 22 metrar á lengd og vegur 40 til 70 tonn. Aðalfæða hér við land eru svifkrabbadýr, einkum ljósátan náttlampi, en einnig uppsjávarfiskur, loðna og síli. Langreyður dvelur á Íslandsmiðum frá maí og fram í október.