Framtíðin Bjarki Gíslason er efnilegur frjálsíþróttamaður að norðan.
Framtíðin Bjarki Gíslason er efnilegur frjálsíþróttamaður að norðan. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ein ástæðan er að börn og ungmenni hafa haft það mjög gott undanfarin ár og ekki þurft að hafa mikið fyrir hlutunum,“ segir Ragnheiður Ólafsdóttir, frjálsíþróttaþjálfari hjá FH, spurð um hvernig á því geti staðið að litlar framfarir hafi...

„Ein ástæðan er að börn og ungmenni hafa haft það mjög gott undanfarin ár og ekki þurft að hafa mikið fyrir hlutunum,“ segir Ragnheiður Ólafsdóttir, frjálsíþróttaþjálfari hjá FH, spurð um hvernig á því geti staðið að litlar framfarir hafi átt sér stað hér á landi í mörgum greinum árum og áratugum saman.

Eftir Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Þótt aðstaða til frjálsíþrótta hafi batnað hér á landi síðustu árin þá nægir það ekki eitt og sér. Metnaður til þess að ná árangri verður að vera fyrir hendi og um leið vilji til þess að leggja gríðarlega mikið á sig,“ segir Ragnheiður en Íslandsmet hennar í millivegahlaupum frá níunda áratugnum standa enn.

„Vegna þess hversu gott mörg ungmenni hafa það þá virðist það því miður vera staðreynd að færri eru tilbúin að leggja það á sig sem þarf til þess að ná árangri í íþróttum svo sem frjálsíþróttum. Auðvitað koma fram einhverjir sem eru tilbúnir að leggja á sig það sem þarf til þess að komast í fremstu röð en því miður eru þeir ekki nógu margir.

Einnig er það ljóst að það þarf sérstaka persónuleika til þess að fara út í sumar greinar frjálsíþrótta. Vinnan sem þarf að leggja af hendi er mikil og á stundum getur þetta verið einmanalegt,“ segir Ragnheiður og bætir við að þegar hún var yngri og var að æfa þá þótti henni það ekkert tiltökumál að fara með strætisvagni úr Hafnarfirði til Reykjavíkur til þess að geta æft á einu hlaupabrautinni sem var með tartanefni en hún var þá í Laugardal.

Sum met standa lengur

„Á síðustu árum hafa mörg met í yngri flokkunum verið að falla, ekki síst innanhúss eftir að frjálsíþróttahöllin í Laugardal var tekin í gagnið. Það er vel en það en það er alveg ljóst að viljum sjá fleiri met í fullorðinsflokki falla, þá jafnt innanhúss sem utan.

Hins vegar er það einnig alveg öruggt að met Odds Sigurðssonar í 400 metra hlaupi og Jóns Arnars í tugþraut munu standa lengi til viðbótar. Ástæðan er einfaldlega sú að þeir tveir voru alveg gríðarlega góðir. Menn eins og þeir spretta ekki fram á hverjum degi hjá jafn fámennri þjóð og við erum.

Hvað sem því líður þá er alveg ljóst að það er ærið verkefni fyrir frjálsíþróttafólk að ná öðru, þriðja og fjórða sæti á afrekslistunum áður en Íslandsmetin verða slegin og ryðja þar með úr vegi árangri sem var náð fyrir 30 eða 40 árum og er enn með því allra besta sem íslenskir frjálsíþróttamenn hafa náð,“ segir Ragnheiður og nefnir sem dæmi 800 m hlaup kvenna þar sem hún á Íslandsmetið, 2.04,90 mínútur. „Þegar ég var að keppa fyrir 20 til 25 árum þá þótti ekkert tiltökumál að við værum fjórar eða fimm að hlaupa 800 metrana á 2,10 mínútum eða þar um bil. Nú þykja það jafnvel stórtíðindi ef einhver stúlka hleypur 800 metrana á skemmri tíma en 2,20.

Endurskoða þarf styrkjakerfið

Ragnheiður segir einnig að það verði að endurskoða styrkjakerfið sem íþróttahreyfingin býr við, þannig að með einhverju móti verði hægt að styðja við bakið á þeim sem eru í millilaginu; eru upp úr því vaxnir að vera efnilegir en vantar hinsvegar herslumun og rúmlega það kannski til þess að teljast afburðagóðir. „Það eru litlir peningar til skiptanna. Í dag er stutt við bakið á þeim sem eru komnir í fremstu röð. Einnig hefur á síðustu árum verið farið út í að styrkja ungt og efnilegt íþróttafólk. Það er vel en segja má að millilagið gleymist. Þar er hópur íþróttamanna sem þarf einhvern fjárhagslegan stuðning til þess að þeir geti einbeitt sér betur að íþrótt sinni um einhvern tíma með það í huga að geta stigið upp úr millilaginu upp á toppinn. Að mínu mati þarf að leggja meiri peninga og vinnu í þennan hóp sem alveg á barmi þess að ná lágmarksárangri inn á stórmótin. Þessi hópur er líka líklegur til þess að sauma nærri mörgum metanna eða þá að hækka „standardinn“ í sínum greinum,“ segir Ragnheiður sem hefur árum saman þjálfað börn og ungmenni hjá frjálsíþróttadeild FH.