„ÉG ætla byrja afmælisdaginn á því að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu,“ segir Júlíus Jónasson, þjálfari landsliðs kvenna í handbolta, en hann verður 45 ára í dag.

„ÉG ætla byrja afmælisdaginn á því að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu,“ segir Júlíus Jónasson, þjálfari landsliðs kvenna í handbolta, en hann verður 45 ára í dag. Júlíus ætlar að hlaupa hálft maraþon en að baki er mikið hlaupasumar sem mun enda með maraþonhlaupi í New York í haust. „Ég hef verið að hlaupa mikið í ár, hljóp meðal annars heilt maraþon í vor og núna um daginn Laugavegsmaraþon,“ segir Júlíus. Hann segir hlaupin hafa gengið vel. Júlíus hefur lengi verið duglegur að hreyfa sig en ákvað um síðustu áramót að taka hlaupin fastari tökum.

Að loknu Reykjavíkurmaraþoni í dag ætlar Júlíus að fagna afmælisdeginum í rólegheitum með fjölskyldu og vinum.

Júlíus segir mjög spennandi tímabil framundan í kvennahandboltanum enda hvorki meira né minna en Evrópukeppni á næsta leiti. Hann segir fyrirkomulag mótsins óvenjulegt en spilað verði „að heiman og heima“. Stelpurnar spila í sterkum riðli, m.a. á móti Frökkum og Finnum, en fyrstu leikirnir eru í október. „Það verður gaman að taka þátt í mótinu og vonandi kemur þetta í kjölfarið á góðum árangri fótboltastelpnanna í Finnlandi.“ sunna@mbl.is