Fyrirætlanir Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra og annarra ráðherra Vinstri grænna um að koma í veg fyrir að kanadíska fyrirtækið Magma Energy eignist hlut í HS orku eru af ýmsum ástæðum fullkomlega misráðnar.

Fyrirætlanir Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra og annarra ráðherra Vinstri grænna um að koma í veg fyrir að kanadíska fyrirtækið Magma Energy eignist hlut í HS orku eru af ýmsum ástæðum fullkomlega misráðnar.

Í fyrsta lagi er allt talið um að nú séu orkuauðlindir landsmanna á leið í hendur vondra útlendinga úr lausu lofti gripið. HS orka er eingöngu í orkuvinnslu, þ.e. að reisa og reka virkjanir. Lög, sem sett voru í fyrra, tryggja opinbert eignarhald og forræði jafnt á orkuauðlindum sem og á dreifiveitunum, sem almenningur á viðskipti við. HS orka leigir auðlindirnar af eigendum þeirra og borgar auðlindagjald fyrir.

Í öðru lagi vinna ráðherrarnir beint gegn eigin markmiðum um að endurreisa traust umheimsins á íslenzku atvinnulífi og Íslandi sem fjárfestingarkosti. Fyrirhuguð fjárfesting Magma í HS orku er fyrsta stóra, alþjóðlega fjárfestingin hér á landi frá bankahruninu. Fyrirtækið hefur þegar keypt umtalsverðan hlut í HS orku. Hugmyndir um að nýta forkaupsrétt og snúa þeim gerningum við, svo og um að hindra frekari kaup og endurþjóðnýta fyrirtækið, eru eingöngu til þess fallnar að fæla erlenda fjárfesta burt frá landinu í stórum stíl. Málið hefði kannski litið öðruvísi út ef ráðherrunum hefði hugkvæmzt að grípa inn í fyrr í ferlinu.

Í þriðja lagi myndi endurþjóðnýting fyrirtækisins skaða möguleika HS orku til að fjármagna fyrirhugaðar framkvæmdir, sem meðal annars munu tryggja orku til frekari atvinnuuppbyggingar hér á landi. Það er rétt, sem Ásgeir Margeirsson, stjórnarformaður HS orku, segir í grein í Morgunblaðinu í gær, að fyrri eigendur félagsins gátu hvorki veitt það fjármagn sem þurfti né lagt fram ábyrgðir fyrir lánum. Lánstraust íslenzka ríkisins er heldur ekki mikið nú um stundir.

Í fjórða lagi væri verið að nota peninga skattgreiðenda í milljarðavís til að spilla fyrir erlendri fjárfestingu. Þeim peningum er betur varið í eitthvað annað.

Í fimmta lagi er sennilegt að ríki og borg, sem eigendur keppinauta HS orku, lendi í vandræðum vegna samkeppnislaga, reyni þau að eignast hluti í fyrirtækinu.

Í sjötta lagi var það samstarfsflokkur VG í ríkisstjórn, Samfylkingin, sem í fyrra beitti sér fyrir lagabreytingunni, sem samkvæmt greinargerð með frumvarpinu skapaði „grundvallarforsendur þess að unnt sé að halda áfram markaðsvæðingu raforkugeirans.“

Vantar stjórnarflokkana fleiri mál til að vera ósammála um? Eiga þeir ekki að beina orku sinni að öðru?