Sjóræningjaprinsessan er nýtt barnaleikrit með söngvum sem samið var og leikstýrt af Ármanni Guðmundssyni.

Sjóræningjaprinsessan er nýtt barnaleikrit með söngvum sem samið var og leikstýrt af Ármanni Guðmundssyni. Verkið var frumsýnt síðastliðinn vetur hjá Leikfélagi Selfoss en það fjallar um Soffíu sem býr ásamt fósturforeldrum sínum á krá í Suðurhöfum og lifir í þeirri trú að hún sé sjóræningjaprinsessa. Dag einn birtast skuggalegir menn og stela fjársjóðskorti af kránni og Soffía ákveður að elta þá ásamt fósturbræðrum sínum. Þau lenda svo í ýmsum ævintýrum í eftirför sinni á sjóræningjaslóðum sem m.a. varpar ljósi á uppruna Soffíu.

Leikendur í sýningunni voru 16, bæði börn og fullorðnir. Sýningin sló í gegn og var mjög vinsæl bæði hjá fullorðnum og börnum. Rakel Ýr Stefánsdóttir, 13 ára, lék Soffíu sjóræningjaprinsessu og Bjarki Þór Sævarsson, 11 ára, lék Matta uppeldisbróður hennar. Þau syngja lagið Í hlekkjum á Menningarnótt í Ráðhúsinu klukkan 15:30 en þau fluttu lagið m.a. í Stundinni okkar í vetur. Lagið fjallar um raunir þeirra eftir að þau hafa verið hneppt í hlekki um borð í skipi kapteins Gulltannar sem stal af þeim kortinu.

Sjóræningjarnir í áhöfn kapteins Gulltannar syngja svo lagið Sjóræningjaharmakvein en lagið er eftir Guðmund Svafarsson og textinn eftir Ármann Guðmundsson. Þar rekja þeir raunir sínar og syngja um illa og ósanngjarna meðferð kapteinsins á áhöfninni.

Ármann Guðmundsson hefur leikstýrt fjölda barnasýninga undanfarin ár en hann er kannski best þekktur fyrir að vera í hljómsveitinni Ljótu hálfvitunum.

Þannig að ef þið viljið fá smá innsýn inn í sjóræningjalíf á Menningarnótt getið þið skellt ykkur í Ráðhúsið og fylgst með hrikalegum en um leið lagvissum og skemmtilegum sjóræningjum. Sjipp og hoj.