Hrollvekja Ganush, rammgöldrótt og níðfátæk sígaunakona biður um framlengingu á láni svo hún haldi húskofa sínum en er neitað. Hún leggur þá bölvun á bankamær sem hefur auðmýkt hana á ögurstund.
Hrollvekja Ganush, rammgöldrótt og níðfátæk sígaunakona biður um framlengingu á láni svo hún haldi húskofa sínum en er neitað. Hún leggur þá bölvun á bankamær sem hefur auðmýkt hana á ögurstund.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjóri: Sam Raimi. Aðalleikarar: Alison Lohman, Justin Long, Lorna Raver, Dileep Rao, David Paymer. 96 mín. Bandaríkin. 2009.

Mikið er ánægjulegt að sjá að Raimi er horfinn aftur á vit hrollvekjunnar, þó ekki sé nema um sinn. Drag Me to Hell er líkt og fyrstu verkin hans ( The Evil Dead, Darkman ) gerð í anda gömlu góðu hryllingsmyndanna þar sem spenna illsku og fordæðuháttar grípur áhorfandann heljartökum. Raimi er hátt yfir það hafinn að hræða bíógesti með þeim ódýru brellum og subbuskap sem oftar en ekki einkennir þessa ágætu kvikmyndagrein upp á síðkastið.

Sagan sjálf er ekki ýkja frumleg, minnir óneitanlega á Thinner , eftir Stephen King, en Raimi bætir og kætir ófögnuðinn með sínum görótta gálgahúmor svo skelfingin fær aukna útrás í móðursýkislegum hlátrasköllum.

Myndin ætti að vera skylduáhorf bankastarfsmönnum, ég mæli með að ríkisstjórnin sendi nokkra rútufarma í bíó til að sýna þjónustufulltrúum og þeim sem æðri þeim eru í goggunarröðinni að hæg er leið til Helvítis ef þeir neita bágstöddum um umbun. Því kynnist bankamærin Christine Brown (Lohman), hún er á höttunum eftir stöðuhækkun en húsbóndi hennar efast um harðfylgni hennar og ákveðni. Þegar Frú Ganush (Raver), níðfátæk sígaunakona, biður um vesæla framlengingu svo hún haldi húskofa sínum notar Christine tækifærið og neitar, aðallega til að viðra hörðu hliðina.

Hún veit ekki blessunin hvað hún er að kalla yfir sig því Ganush reynist rammgöldrótt og leggur bölvun á Christine eftir að bankamærin hefur auðmýkt hana á ögurstund. Nornin leggur á og mælir um að hún verði komin í greipar djöfulsins Lamiu innan þriggja sólarhringa.

Það sem tekur við er meinfyndinn ófögnuður þar sem hin pena og prúða Christine breytist í flagð undir fögru skinni til að flýja eldinn og brennisteininn. Hún er óbangin við að grípa til örþrifaráða, enda siðferðinu voðinn vís ef við blasir hraðferð til Heljar. Lohman er einkar trúverðug og afgreiðir umskipti bankameyjarinnar mjög svo trúverðuglega. Brellurnar eru fyrsta flokks, ekkert blóð sem heitið getur, frekar sér maður skuggum bregða fyrir af hornum og hala. Sjálf er frú Ganush eftirminnilega óféleg með sínar forljótu klær og fölsku tennur og er einkar sannfærandi í meðförum Raver. Myndin er hvalreki fyrir unnendur hryllingsmynda af gamla skólanum, ofbeldið og hrollurinn með kómísku ívafi og blessunarlega laus við kvalalosta. Fagmannleg í alla staði og ástæða til að geta sérstaklega ónotalegrar tónlistar Christophers Youngs.

Líbíski kvenskrattinn Lamia

Í grískri goðafræði er getið um kvendjöfullinn Lamiu, sem áður var íðilfögur drottning yfir Afríkuríkinu Líbíu. Lagði ófögnuður þessi sér gjarnan kornabörn til munns. Breska ljóðskáldið John Keats orti frægt kvæði um fyrirbrigðið á öndverðri 19. öld, og lýsir því sem fagurri konu með snáksvöxt frá mittisstað. Í seinni tíð hefur nafnið gjarnan verið tengt vampírum í hrollvekjum.

Sæbjörn Valdimarsson