Stórhuga Edda Heiðrún Backman.
Stórhuga Edda Heiðrún Backman.
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is „MINNIR þetta ekki á frumöskrið?“segir Orri Huginn Ágústsson leikari, skipuleggjandi listahátíðar Eddu Heiðrúnar Backman á Óðinstorgi á Menningarnótt í dag.

Eftir Bergþóru Jónsdóttur

begga@mbl.is

„MINNIR þetta ekki á frumöskrið?“segir Orri Huginn Ágústsson leikari, skipuleggjandi listahátíðar Eddu Heiðrúnar Backman á Óðinstorgi á Menningarnótt í dag. Nafnið á hátíðinni, sem Orri vísar í hér að ofan, er sérstaklega líflegt og gáskafullt: Gleðiorg við Óðinstorg. „Gleðiorg“ minnir vissulega á frumöskrið, það má alltént fullyrða að það verði organdi gleði á Óðinstorgi þegar hátíðin verður sett kl. 14.

Glasamottur og vatnsflöskur

„Við höldum hátíðina í nafni söfnunar Eddu Heiðrúnar, Á rás fyrir Grensás, og allir sem þarna koma fram gefa sína vinnu til styrktar söfnuninni og gestir og gangandi geta lagt málefninu lið. Við verðum með söfnun í tjaldi, en seljum líka glasamottur og vatnsflöskur.“

Fleiri leggja gleðiorginu lið, því samtök blómabænda og nemendur Landbúnaðarháskólans ætla að kenna fólki að hnýta blómakransa. „Það geta allir lært að gera þetta og fólk getur í staðinn lagt smáaura í söfnunina,“ segir Orri.

Norræna félagið og Brauðbær sem bæði eiga heima við Óðinstorg eru samstarfsaðilar Gleðiorgsins og leggja fram vinnu. Í húsi Norræna félagsins verður föndurhorn fyrir krakka og Brauðbær verður með veitingatjald þar sem veitingar verða seldar við vægu verði.

Gleðiorgið ómar um Óðinstorgið allt til kl. 22 í kvöld og dagskráin viðamikil.

„Þetta eru frábærir listamenn úr ýmsum geirum. Hilmar Örn Hilmarsson setur dagskrána og spilar músík með Steindóri Andersen kvæðamanni og Páli á Húsafelli sem kemur með steinahörpuna sína. Rithöfundarnir Einar Kárason og Þórarinn Eldjárn lesa og Fúlar á móti skemmta.“ Tónlistarmenn úr röðum Sinfóníuhljómsveitar Íslands leika, sömuleiðis liðsmenn Félags harmónikkuunnenda og djasstríó Reynis Sigurðssonar, Ragnheiður Gröndal og Guðmundur Pétursson, Óskar Guðjónsson, KK, Mammút, Lay Low og fleiri. Trúðarnir Barbara og Úlfar koma líka í heimsókn.

„Það má líka nefna það að fyrr um daginn hleypur hópur fólks í maraþoninu og safnar með því áheitum fyrir söfnun Eddu, þar á meðal hópur starfsmanna á Grensásdeildinni.“

Á rás fyrir Grensás

Edda Heiðrún Backman setti af stað söfnunarátakið Á rás fyrir Grensás til að bæta aðstöðu Grensásdeildar Landspítalans. Að baki söfnuninni standa góðgerðarsamtökin Hollvinir Grensáss. Markmið átaksins er að safna 500 milljónum króna til að auka og bæta aðstöðu deildarinnar með endurbótum á húsnæði, tækjakosti og lóð.