Rithöfundurinn „Kosturinn við rithöfundarstarfið er sá að það er ekki hægt að verða atvinnulaus.“
Rithöfundurinn „Kosturinn við rithöfundarstarfið er sá að það er ekki hægt að verða atvinnulaus.“ — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur kolbrun@mbl.is Þórarinn Eldjárn rithöfundur er sextugur í dag. Nýtt smásagnasafn hans, Alltaf sama sagan , kemur út um leið og geymir ellefu sögur.
Eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur kolbrun@mbl.is

Þórarinn Eldjárn rithöfundur er sextugur í dag. Nýtt smásagnasafn hans, Alltaf sama sagan , kemur út um leið og geymir ellefu sögur. Um titilinn segir Þórarinn: „Úlfur sonur minn sendi mér þetta nafn í sms. Hann var með handritið til yfirlestrar og ég hélt fyrst að þetta væri svona beinskeytt krítík og brá nokkuð við. En ég hafði sem sé líka beðið hann að huga að titli og þetta reyndist vera hans tillaga sem mér leist strax mjög vel á. Titillinn gefur í skyn annað hvort mjög einhæfa bók eða einhæfan höfund, nema hvort tveggja sé. Ég áræddi að nota hann af því að ég held að sögurnar í bókinni séu nokkuð fjölbreytilegar.

Alltaf sama sagan er sjötta smásagnakverið mitt. Þessar sögur eru eins og ég nefndi nokkuð margvíslegar en sverja sig þó um margt í ætt við ýmislegt sem ég hef áður látið frá mér fara. Þetta er líka sami höfundur. Smásagnaformið er mjög heillandi og að ég tel heppilegt til brúks í dagsins önn.“

Eins og ættarmót

Fyndni er yfirleitt áberandi í verkum þínum en það er oft heilmikil alvara í henni. Hvað er það sem heillar þig við þetta sambland af gamansemi og alvöru?

„Það er svo sem ekkert sérstakt sem heillar mig. Þetta er bara svona. Þarna á þessum mörkum er mitt kjörlendi. Þarna finn ég maðka og lirfur og efni í hreiður og næ að verpa ef ég er látinn í friði og ekki fældur upp.“

Ein sagan er um skáldmæltan hund. Hvernig kom hugmyndin að henni til þín?

„Hana fékk ég beint frá Pöddu, tíkinni hans Stefáns heitins Jónssonar, fréttamanns, alþingismanns og rithöfundar. Hún tók upp á þessu á tímabili að yrkja í sífellu gegnum hann. Þaðan er hugmyndin þó sagan stefni síðan beint á aðrar slóðir.“

Ljóðin þín hafa notið mikilla vinsælda og ekki er langt síðan kvæðasafn þitt kom út í mikilli bók. Stundum er sagt að þjóðin sé mikið til hætt að lesa ljóð en það á ekki við um ljóðin þín.

„Já, hann kom út í fyrrasumar þessi mikli múrsteinn, allar ljóðabækur mínar, átta talsins, spyrtar saman og aukið við úrvali úr fimm barnaljóðabókum. Á sjötta hundrað blaðsíður og meira en fjögur hundruð ljóð. Þetta var eins og ættarmót þar sem saman koma ýmsir ættliðir úr sömu fjölskyldu og byrja að ræða málin sín á milli og rifja upp gömul kynni og jafna gamlar sakir. Það gladdi mitt gamla hjarta hvað þessu var vel tekið af almennum lesendum. Útbreiðslan hleypur á þúsundum, enda hafði bókin útlitið með sér.“

Erfitt að skrifa

Þú virðist skrifa af miklu áreynsluleysi, kemur þessi léttleikandi stíl auðveldlega til þín?

„Ef svo virðist verð ég að segja að ekki er allt sem sýnist, því miður. Mér finnst erfitt að skrifa. Mér finnst það ekki létt. Ef það lítur út fyrir að hafa verið auðvelt þá hefur mér tekist að beita einhverri blekkingu. Það er auðvitað árangur út af fyrir sig. Þetta held ég að sé reynsla mjög margra höfunda.“

Hefurðu einhvern tímann spurt þig af hverju þú sért ekki að gera eitthvað annað en að skrifa?

„Þótt þetta sé ekki auðvelt starf þá er sköpunin sjálf mjög gefandi og henni fylgja alls konar áhugaverðar pælingar og skringilegur undirbúningur. Rithöfundar eiga aldrei frí. Það er alltaf eitthvað mallandi í huganum og maður getur rekist á hugmyndir hvar sem er. En auðvitað lít ég stundum um öxl eins og ég býst við að allir geri sem varið hafa lunganum úr ævinni í tilteknu starfi, og spyr sjálfan mig: Af hverju fór ég í þetta starf og hvað ef ég hefði nú fengist við eitthvað allt annað? Það er náttúrlega tilgangslaust að velta því fyrir sér, en jafnvel tilgangsleysið hefur tilgang þegar ritstörf eru annars vegar.“

Af hverju fórstu í þetta starf?

„Ég fylgdi draumi og leitaði lags. Ég var lengi framan af alls ekki viss um að ég hefði neitt í þetta en fann svo að það var lag. Eftir það varð ekki aftur snúið. Og mér hefur vegnað vel.“

Vönduð manneskja

Bókin er tileinkuð móður þinni, Halldóru Eldjárn, sem lést í fyrra. Hvernig kona var hún?

„Móðir mín var afskaplega vönduð manneskja og vel gefin eins og allir vissu sem þekktu hana. Hún var lítið fyrir að trana sér fram eða hafa sig í frammi. Hún fór ekki með látum og fyrirgangi. Kannski er best að lýsa henni með því að segja: Hún var einstaklega prúð í allri sinni framgöngu og til orðs og æðis, umhyggjusöm og trygg. Það er sú birtingarmynd sem er efst í huga afkomendanna.“

Heldurðu að það hafi verið erfitt fyrir konu eins og hana að vera á sínum tíma í sviðsljósinu sem forsetafrú?

„Ég held að það hafi ekki verið neitt sem hún sóttist eftir eða gekkst upp í og þótti merkilegt eða frábært en hún kvaldist heldur ekkert yfir því. Hún leit á þetta sem hvert annað starf sem henni hafði verið falið. Hún leysti það af trúmennsku eins og allt sem hún tók að sér.“

Hvernig var fyrir ykkur systkinin að vera forsetabörn, manni finnst næstum því eins og þið hafið ekki vitað af því?

„Þjóðfélagið hefur breyst mikið á síðustu áratugum með því að til hefur orðið séð og heyrt kúltúr. Af miklum vanefnum hefur verið reynt að berja saman íslensku þotuliði og þekktu fólki, „kändisum“ eins og það er kallað á sænsku. Slíkt var ekki til frekar en alvöru glæpamenn þarna á sjöunda og áttunda áratugnum. Þetta var bara ekkert merkilegt. Einhver varð að taka að sér þetta forsetastarf og alveg ástæðulaust að það ætti að breyta einhverjum ósköpum fyrir börnin. Hvað þá að það breyti einhverju núna fyrir sextug börn.“

Hatur er öllum óhollt

Allnokkrir íslenskir rithöfundar hafa látið til sín taka í kjölfar bankahruns með greinaskrifum, bókum um hrunið og þátttöku í mótmælum. Þú hefur ekki verið áberandi á þessum vettvangi. Af hverju ekki?

„Það hefur aldrei látið mér vel að stíga fram og básúna út sýn minni á hin ýmsu þjóðfélagsmál. Það þýðir alls ekki að ég hafi ekki áhuga á þeim eða þau komi mér ekki við. Ég er einfaldlega sú gerð af höfundi sem þetta hentar ekki sérstaklega vel. Margir af kollegum mínum hafa staðið sig afskaplega vel á þessum vettvangi. Ég held að þær gríðarlegu umbyltingar sem hér hafa orðið muni fyrr eða síðar skila sér í verkum allra rithöfunda sem á annað borð fjalla um eitthvað sem snertir raunveruleikann. Allt í einu erum við að lifa einn af stærstu atburðum Íslandssögunnar. Og allt leitar út um síðir“

Hvernig horfir við þér, hvað gerðist og hverjum er um að kenna?

„Ég er ekki reiðubúinn að segja hvað er nákvæmlega hverjum að kenna. Hvað þá hvað taka skal til bragðs. Við höfum nú horft upp á þrjár ríkisstjórnir í röð ekki vita sitt rjúkandi ráð um eitt eða neitt. Það væri því skrítið ef ég hefði þessi ráð. En auðvitað er ljóst að við höfum flest lifað í gríðarlegri blekkingu meðan stórabóla stóð yfir. Það varð öllum ljóst daginn eftir bankahrunið. En eins og segir einhversstaðar í nýju bókinni: Það var ekki fyrr en eftir hrunið sem allir sáu það fyrir.

Ég held að það muni að lokum koma í ljós og verða nokkuð víðtæk samstaða um það hver meinsemdin var. Það er nauðsynlegt að komast til botns í þessum málum og kveisunaglarnir þurfa allir að nást úr þeim kýlum sem verið er að rannsaka þó sársaukafullt verði. Annars er hætt við að ígerðin malli áfram og við sitjum þá í besta falli uppi með þjóðfélag sem verður afskaplega örótt, ef ekki örkumla.“

Á þjóðin að vera reið mjög lengi?

„Þjóðin hefur fullt leyfi til að vera reið. En reiðin ein og sér skilar afskaplega litlu, jafnvel þótt hún sé réttlát, því hún leiðir til hugarfars sem er ákaflega neikvætt og lamandi. Fólk þarf að beina huganum að uppbyggilegri tilfinningum. Ég er farinn að gera dálítið af því að yrkja heilræðavísur, til dæmis þessa nýlega:

Styðja á startara,

stara á það bjartara,

hafa séð það svartara,

sussa á kvartara.

Ég hef líka lagt til að „Maður hefur nú“ eftir Gunnar Reyni Sveinsson verði nýr þjóðsöngur Íslendinga.“

Þú hefur aldrei verið sérstaklega flokkspólitískur, er það ekki rétt?

„Ég hef aldrei verið í neinum stjórnmálaflokki.“

Þú hefur samt þó nokkrum sinnum fengið yfir þig gusur vegna vináttu við Davíð Oddsson.

„Jú, jú og það er allt í lagi, dálítill gusugangur er þó allténd skárri en eilíf lognmolla. Öll eigum við góða vini sem við kunnum vel að meta þó þeir séu umdeildir. En auðvitað eru í þjóðfélaginu hatursöfl á kreiki sem beinlínis vilja beina reiðinni á þennan eina stað. Mörgum hentar það vel og vönduð forvinna til staðar sem handhægt hefur reynst að grípa til. En ef þetta verður niðurstaðan er ég ansi hræddur um að batinn hjá okkur verði ekki mikill. Hatur er öllum óhollt, óhollast þeim sem hatar.“

Innrás enskrar tungu

Með reglulegu millibili heyrist sagt að íslenskan eigi undir högg að sækja, þjóðin sé að glata málvitund og enginn geti lengur skrifað góðan stíl. Hvað heldurðu að sé rétt í þessu?

„Í langan tíma hefur staðið yfir mikil innrás enskrar tungu og ef við höldum ekki vöku okkar þá getum við glatað tengslum við eigið mál og menningu og þá er illa farið. Í kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og tölvuheimum er enskan yfirgnæfandi. Vaxandi undanlátssemi er við þetta allt saman, jafnvel á stöðum þar sem ætti að standa fast á því að hlutir séu á íslensku. Æ algengara er til dæmis að heyra í fréttum og útvarpsþáttum óþýdd viðtöl við enskumælandi fólk. Þá er verið að segja við okkur: Ísland er tveggja mála land. Þetta er mjög skaðlegt. Við eigum að standa fast á því að íslenska sé opinbert mál á Íslandi. Alþingi samþykkti reyndar síðastliðið vor íslenska málstefnu þar sem í fyrsta sinn er kveðið skýrt á um þetta.

Ég held hins vegar ekki að íslenskur ritstíll sé á einhverjum sérstökum villigötum eða fari daglega hnignandi. Sennilega hefur aldrei verið skrifað jafn mikið á íslensku og einmitt núna. Margt af því er ekki fagurt en íslenskan er líka brúksmál og aðalatriðið er að hún haldi áfram að vera nothæf og til í allt. Auðvitað detta á hana einhverjir blettir og á hana koma hrukkur en hún verður bara að þola það.“

Erfið áföll

Í dag ertu sextugur. Er margt sem þú hefðir viljað hafa öðruvísi í þínu lífi?

„Það er ekki margt sem ég hefði endilega viljað hafa öðruvísi af því sem mér er sjálfrátt. Ég starfa ekki mikið í Hefðiáttfélaginu. Ég tel að í heildina litið sé ég hamingjumaður þótt fjölskyldan hafi orðið fyrir mjög erfiðum áföllum. Því hefði ég auðvitað viljað breyta en það er bara ekki í mínu valdi. Við misstum tvo elstu syni okkar, Kristján lést tæplega þrítugur vorið 2002 og Ólafur lést 1998 tuttugu og þriggja ára.“

Hvernig komstu í gegnum þá miklu sorg?

„Slíka sorg kemst maður ekki í gegnum heldur fer maður kringum hana aftur og aftur. Þegar maður uppgötvar svo að maður hefur þrátt fyrir allt einhvern veginn komist af og getur notið lífsins þá trúir maður því varla og segir við sjálfan sig: Gekk ég í gegnum slíka hluti? Gerðist þetta í raun og veru? Ég lýsti þessari tilfinningu einhverntíma í ljóði: Ferðin heldur áfram og hún getur verið ágæt en hún er allt önnur en til stóð. Maður leggur upp frá nýjum stað og þar getur landslagið verið fagurt og margt skemmtilegt borið við en það hefur samt orðið stefnubreyting. Maður neyddist til að taka annan kúrs en maður var á.“

Trúirðu á Guð?

„Að þýfga mig mikið um trúmál er álíka gáfulegt og að yfirheyra rafvirkja eða pípara um tæknileg smáatriði í múrverki eða úrsmíði. Ég er trúheftur, þarna er bara heilt svið sem vantar í mig. Þar með er ekki sagt að ég vilji meina að ekkert sé manninum æðra. Ég get alveg ímyndað mér einhvers konar óræðan alheimsanda sem er okkur æðri. En frá mínum bæjardyrum séð þarf slík afstaða ekki að eiga neitt skylt við trúarbrögð. Kannski er hún bara liður í því að geta hrifist, eins og maður hrífst af fagurri list og mikilfenglegu landslagi. Formleg guðstrú er ekki mín deild.“

Heimsmet á afmælisdaginn

Hvað er framundan hjá þér á ritvellinum?

„Ég er með einar tvær skáldsögur í smíðum, mislangt komnar og hef unnið í þeim með hléum en þó jafnt og þétt. Ég ætla ekki að segja um hvað þær eru eða sýna neinum inn á verkstæðið meðan þar er allt á rúi og stúi. Svo er ég með nokkur ljóðaprójekt í gangi og smásögur verða til jafnt og þétt auk þýðinga. Kosturinn við rithöfundarstarfið er sá að það er ekki hægt að verða atvinnulaus.“

Hvernig ætlarðu að halda upp á afmælisdaginn?

„Ég held upp á afmælið mitt með því að hlaupa hálfmaraþon. Ég er á sérsamningi við þá sem sjá um Reykjavíkurmaraþonið, þannig að ég hef einn manna fengið að skipta heilu maraþoni milli ára. Ég er þakklátur fyrir það en hef reyndar orðið að sæta því að árið sem líður á milli reiknast inn í tímann minn. Að þessu sinni er ég að ljúka við hlaup sem ég ætlaði að klára í fyrra en varð að hætta við vegna lasleika. Ég lýk því við hlaup núna sem hófst 2007. Tíminn í þessu heila maraþoni sem ég vonast til að klára í dag verður því væntanlega tvö ár og ríflega fjórir klukkutímar. Ég held að enginn hafi hlaupið maraþon á jafn löngum tíma, þannig að þetta verður heimsmet.“