Eftir Magnús Halldórsson magnush@mbl.is ÞRÁTT fyrir erfiðleika vegna hruns bankanna og kreppunnar sem það hefur framkallað, eru Íslendingar ennþá hamingjusöm þjóð.

Eftir Magnús Halldórsson

magnush@mbl.is

ÞRÁTT fyrir erfiðleika vegna hruns bankanna og kreppunnar sem það hefur framkallað, eru Íslendingar ennþá hamingjusöm þjóð. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar sem Lýðheilsustöð gerði og var til umfjöllunar á ráðstefnu á vegum Lýðheilsustöðvar, heilbrigðis-, félags-, menntamálaráðuneytisins, Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Velferðarsjóðs barna, um velferð íslenskra barna.

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar eru þeir sem spurðir voru sammála um mikilvægi þess að málefni barnafjölskyldna, barna og ungmenna, verði höfð í forgangi.

Í könnuninni kemur fram að ungt fólk á aldrinum 18 til 24 ára telur sig oftar verða reitt nú en skömmu eftir hrun. Um mánaðamótin október/nóvember í fyrra sögðust 21,3 prósent finna fyrir því að verða oftar reið en um 30 prósent sögðust finna oftar fyrir reiði um mánaðamótin maí/júní. Mengi þeirra sem sögðust sjaldnar finna fyrir reiði stækkaði þó einnig á fyrrnefndu tímabili. Um mánaðamótin október/nóvember sögðust 14,7 prósent sjaldnar finna til reiði, en um mánaðamótin maí/júní var sú tala komin upp í 25 prósent.

Hamingjan mælist átta að meðaltali, á skalanum 0-10, samkvæmt könnuninni. Það er svipað og mælst hefur undanfarin tvö ár.

Sé horft til síðustu þrjátíu ára hefur hamingjan hjá Íslendingum mælst mest árið 2003, þegar hún var tæplega 9 á fyrrnefndum skala.

Þá heldur traust ungs fólks á aldrinum 18 til 24 ára á Þjóðkirkjuna áfram að dvína. Það mældist um 35 prósent um mánaðamótin október/nóvember en um mánaðamótin maí/júní mældist traustið um 20 prósent. Traustið á bankakerfinu í landinu hjá sama hópi hefur einnig minnkað mikið eða úr um 5 prósentum í haust niður í ekkert nú.

  • Traust á dómskerfinu meira nú en í haust
  • 20 prósent ungs fólks ber traust til Alþingis
  • Hamingjan mælist um 8 á skalanum 0-10
  • Enginn ber traust til bankakerfisins