Ragnheiður Egilsdóttir fæddist í Reykjavík 20. júlí 1946. Hún lést á heimili sínu 12. ágúst síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Dómkirkjunni 21. ágúst.

Ragnheiður Egilsdóttir er öll. Í lok síðustu viku barst okkur, fyrrum starfsfélögum hennar, sú þungbæra frétt, að hún hefði andast á heimili sínu að kveldi þess 13. ágúst sl. eftir stutta en erfiða sjúkralegu.

Ragnheiður réðst til Krabbameinslækningadeildar Landspítalans, sem móttökustjóri í september 1985 og sinnti hún því vandasama verkefni að taka á móti sjúklingum deildarinnar og aðstandendum þeirra af alúð, en frá maí 1986 til október 1994 starfaði hún sem læknaritari á Krabbameinslækningadeild.

Á þessum árum urðu miklar breytingar á starfsháttum og öllu umfangi krabbameinslækninga á Landspítalanum, er leiddi til þess að deildin varð á fáum árum ein af stærri starfseiningum sjúkrahússins með umfangsmikilli göngudeildarþjónustu, þar sem sinnt var geisla- og lyfjameðferð krabbameinssjúkra ásamt eftirliti þeirra, sem meðferð höfðu fengið, stutt af legudeild fyrir þá sem veikastir voru. Kröfðust breytingarnar stöðugt aukins rýmis, er leiddi m.a. til byggingar K-byggingar Landspítalans, sem tekin var í notkun að hluta til 1989.

Á slíkum uppbyggingar- og umbrotatímum var þörf fyrir kröftugan, áhugasaman og samhentan hóp starfsmanna, er tryggt gat, þrátt fyrir stöðugar breytingar á verklagi, að ekkert færi úrskeiðis, er sneri að velferð og öryggi sjúklinganna. Reyndi þá mikið á allt starfsfólk deildarinnar og þá ekki síst læknaritarana, er héldu utan um og flokkuðu allar þær upplýsingar, sem sneru að deildarstarfinu og sjúklingum deildarinnar.

Sinntu þær frábæru starfi, oft við erfiðar aðstæður, m.a. vegna vaxandi verkefna og mannfæðar. Var Ragnheiður þar í fylkingarbrjósti. Var hún afburðastarfskraftur, gekk til allra verka af dugnaði og man ég aldrei til þess að kvartað hafi verið þrátt fyrir að vinnudagur hafi verið langur og álag mikið. Átti hún létt með að aðlagast nýjum verkþáttum er fylgdu auknum verkefnum, enda ein þeirra sem unnu af áhuga að þróun þeirra.

Var hér í reynd um frumkvöðlastörf að ræða, sem seint verða þökkuð.

Ragnheiður var félagslynd, gladdist með glöðum og leið okkur öllum vel í návist hennar.

Haustið 1994 fluttist hún með fjölskyldu sinni austur á Breiðdalsvík á vit auðnu og ævintýra, fékk þá ársleyfi frá störfum, en ekki varð af endurkomu á deildina þótt hugur hennar hefði á tímabili staðið til þess.

Góðs starfsfélaga er sárt saknað.

Lárusi, eiginmanni hennar, sonum þeirra, Erni bróður hennar og fjölskyldum þeirra sendum við samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning hennar.

Fyrir hönd fyrrverandi starfsfélaga,

Þórarinn E. Sveinsson,

yfirlæknir geislameðferðar krabbameina.

Það vita fáir, vinur minn,

hve vel þú afbarst sjúkdóm þinn.

Þú lést sem allt þér líki í hag,

þú lifðir sérhvern glaðan dag.

Þann elskar Guð, sem ungur deyr,

og andar Drottins mildi þeyr.

Sem vanga hans og vermir hlýtt,

uns vaknar aftur lífið nýtt.

Það huggun er og harmabót,

að hvert sem liggja vegamót,

við sjáumst aftur seinna þar,

í sæluríki unaðar.

(Aðalst. Aðalst.)

Guðlaug Dolla

Pétursdóttir og börn.