Sá guli Þorskurinn er sú fisktegund sem allt snýst um. Ekki eru allir á eitt sáttir um það hvort frjálsar handfæraveiðar hafi verið tilraunarinnar virði.
Sá guli Þorskurinn er sú fisktegund sem allt snýst um. Ekki eru allir á eitt sáttir um það hvort frjálsar handfæraveiðar hafi verið tilraunarinnar virði. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Strandveiðum, frjálsum handfæraveiðum, lýkur eftir nokkra daga. Skiptar skoðanir eru um það hvernig til hefur tekist með þessa nýjung í fiskveiðum hér við land í sumar.

Eftir Sigtrygg Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Mér finnst hafa tekist vel til og ég held að menn séu almennt ánægðir með að boðið var upp á strandveiðar,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda. Óhætt er að segja að strandveiðarnar hafi hleypt lífi í samtökin því félagsmönnum hefur fjölgað vel á annað hundraðið í sumar.

Örn segist telja að menn hafi almennt haldið sig innan þeirra reglna sem settar voru t.d. hvað varðar lengd veiðiferða og hámarksafla. Hann segist ekki í nokkrum vafa um að vegna tilkomu strandveiðanna sé almenningur jákvæðari í garð sjávarútvegsins en áður. Örn segir að gæftir hafi verið með miklum ágætum lengi sumars en verið lakari í ágústmánuði. Það hafi sýnt sig að þótt veður hafi verið gott hafi menn ekki getað gengið að 800 kílóunum vísum innan þeirra tímamarka sem sett voru í hverri veiðiferð. Hann viti þess dæmi að menn hafi rétt náð 100 kg í einstaka veiðiferðum.

Örn segir að þátttakan í strandveiðunum hafi verið langt umfram það sem hann hafi búist við. Þegar verið var að undirbúa veiðarnar hafi hann reiknað með 150-200 bátum, en vel á sjötta hundrað bátar séu komnir með leyfi. „Þetta eru menn úr öllum áttum,“ segir Örn, spurður um það hverjir hafi stundað veiðarnar.

Margir bátar, sem voru með veiðileyfi, hafi stundað veiðarnar. Þeir séu innilokaðir í strandveiðikerfinu til 1. september en fari þá aftur á atvinnuveiðar. Einnig hafi skemmtibátar og kvótalausir bátar stundað veiðarnar. Örn telur að hjá þeim útgerðarmönnum, sem ekki hafi þurft að leggja út í mikinn kostnað, hafi afkoman verið viðunandi.

Hann segir að strandveiðarnar hafi fært gríðarlegt líf í hafnir á landsbyggðinni. Bátar sem áður voru aðgerðarlausir hafi farið á sjó og oft hafi myndast löndunarbið. „Það er gaman að sjá hvernig strandveiðarnar hafa lyft þessu öllu,“ segir Örn.

Hann telur að lítið sem ekkert hafi verið reynt að svindla á kerfinu. Mönnum sem reynt hafi slíkt hafi verið bent á það kurteislega að þetta væri sameiginlegur pottur. Eins að þetta væri tilraunaverkefni og ef menn væru staðnir að svindli í stórum stíl myndi það geta leitt til þess að þessari tilraum yrði ekki haldið áfram.

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, er á þveröfugri skoðun. „Það er greinilega rík þjóð sem hefur efni á því að sólunda helstu náttúruauðlind sinni með þessum hætti,“ segir Friðrik. Til staðar sé atvinnugrein sem hafi næga afkastagetu og nægan fjölda af atvinnusjómönnum og fiskverkafólki til að veiða þennan afla og gott betur. „Til hvers að bæta við stórum flota báta til að gera út í nokkra daga á ári? Hvaða skynsemi er í slíku?“ spyr Friðrik.

Hann segir að margir þeirra sem stunduðu strandveiðarnar hafi áður selt frá sér veiðiheimildir og haldið eftir bátunum. „Það er væntanlega kærkomið fyrir þá að hirða fiskinn frá þeim sem þeir seldu heimildirnar til. Þetta er flott!“ segir Friðrik.

NOKKUR BROTAMÁL

„ALMENNT hefur framkvæmdin gengið nokkuð vel að okkar mati,“ segir Eyþór Björnsson, forstöðumaður veiðieftirlitssviðs Fiskistofu, um strandveiðarnar.

Upp hafa komið nokkur mál að hans sögn þar sem menn hafa farið það mikið umfram yfir 800 kg hámarkið að þau hafa farið til meðferðar hjá lögfræðisviði stofnunarinnar. Hinir brotlegu þurfa að borga gjald sem jafngildir verðmæti þess afla, sem þeir veiddu umfram það sem heimilt var.

Eftirlitið hefur ekki kallað á aukinn mannafla hjá Fiskistofu en hefur þýtt aukið álag á starfsmenn stofnunarinnar.

Eyþór segir að þegar strandveiðunum ljúki verði lagt mat á það hvernig til hafi tekist í sumar. Hann reiknar með því að sjávarútvegsráðuneytið hafi forgöngu um þá vinnu.