LÖGREGLU hafa borist nokkrar vísbendingar vegna bruna Land Rover-jeppa við hús við Laufásveg í Reykjavík aðfaranótt sl. þriðjudags.

LÖGREGLU hafa borist nokkrar vísbendingar vegna bruna Land Rover-jeppa við hús við Laufásveg í Reykjavík aðfaranótt sl. þriðjudags. Talið er að kveikt hafi verið í bílnum, en upptökur úr eftirlitsmyndavélum sýna þrjá menn, sem eru sterklega grunaðir um verknaðinn.

Menn á stjákli

Myndskeið, sem sýnir menn á stjákli við bílinn og húsið, var sýnt á mbl.is og sjónvarpsstöðvunum í gær. Strax í kjölfar þess bárust lögreglu ábendingar. Aðalvarðstjóri treysti sér þó ekki til að leggja dóm á hve bitastæðar þær væru. Rannsóknardeild myndi vinna úr þeim eins og öðrum upplýsingum sem fyrir liggja.

Lögreglan telur að mennirnir þrír, sem grunaðir eru um verknaðinn, hafi verið á bláleitri Audi A6 eða VW Passat-bifreið. Samkvæmt myndskeiðum hafi bifreiðin komið akandi inn Laufásveg frá gatnamótum Barónsstígs og Laufásvegar en síðan snúið við og lagt við sömu gatnamót.

Þaðan hafi mennirnir komið gangandi í áttina að húsinu þar sem umræddri Range Rover-bifreið var lagt í innkeyrslu. Þaðan sáust þeir hlaupa í burtu. Síðar komu lögreglu- og slökkvibílar á vettvang en þá var Range Rover-inn orðinn alelda.

Bíllinn var í eigu Stefáns H. Hilmarssonar, fyrrverandi fjármálastjóra Baugs. Fjölmargir áhrifamenn í atvinnu- og fjármálalífi hafa orðið mjög fyrir barðinu á skemmdarvörgum að undanförnu. sbs@mbl.is

Meira á mbl.is

Kveikt var í Range Rovernum