Nágrannar Utanríkisráðherrar fjögurra Norðurlanda og Eystrasaltsríkja sátu fyrir svörum að loknum fundi.
Nágrannar Utanríkisráðherrar fjögurra Norðurlanda og Eystrasaltsríkja sátu fyrir svörum að loknum fundi. — Morgunblaðið/Ómar
Eftir Guðna Einarsson gudni@mbl.is ÖSSUR Skarphéðinsson utanríkisráðherra átti tvíhliða fundi með öllum þátttakendum í utanríkisráðherrafundi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna sem haldinn var hér á landi í gær.

Eftir Guðna Einarsson

gudni@mbl.is

ÖSSUR Skarphéðinsson utanríkisráðherra átti tvíhliða fundi með öllum þátttakendum í utanríkisráðherrafundi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna sem haldinn var hér á landi í gær. Hann fór þar sérstaklega yfir stöðu Icesave-málsins. Össur kynnti ráðherrunum stöðu málsins á Alþingi og fór rækilega yfir þær breytingartillögur sem fjárlaganefnd hefur orðið sammála um. Össur greindi frá þessu við setningu blaðamannafundar í Eldborg við Svartsengi að loknum ráðherrafundinum í gær. Auk Össurar sátu blaðamannafundinn þeir Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, Urmas Paet, utanríkisráðherra Eistlands og Maris Riekstins, utanríkisráðherra Lettlands.

Össur sagði að það hafi e.t.v. borið hæst á ráðherrafundinum að Carl Bildt fór yfir áherslur Svía sem forysturíkis í Evrópusambandinu (ESB), einnig umsókn Íslands um aðildarumsókn Íslands að ESB, stöðu hennar og möguleika. Einnig voru efnahagsmál rædd, en víðar en á Íslandi kreppir að í þeim efnum, að sögn Össurar.

Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, minntist á aðildarumsókn Íslands að ESB og kvaðst vera þess fullviss að Evrópa yrði betri fyrir alla Evrópubúa með sterkari norrænni rödd. Hann kvaðst telja að Ísland myndi styrkja þá rödd og aðild þess að ESB myndi styrkja og dýpka norrænt samstarf. „Við höfum lýst yfir samstöðu okkar með Íslandi þegar það tekst við efnahagserfiðleikana sem það nú glímir við,“ sagði Bildt.

Aðspurður um norrænu lánin til Íslands sagði Össur að hann hafi rætt málið ítarlega við Carl Bildt. „Hann taldi að málið væri það vel á vegi statt að ekki væri ástæða til að óttast um afdrif þess,“ sagði Össur. Hann sagði að menn hafi verið bjartsýnir á niðurstöðuna, en allir bíði eftir niðurstöðu Alþingis.

Carl Bildt sagði að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) sé nú að aðstoða hóp landa í efnahagserfiðleikum og þeirra á meðal séu t.d. Ísland og Lettland. Hann benti á að það sé einungis á einu svæði í heiminum þar sem AGS er að aðstoða ríki í vanda að nágrannar komi einnig til liðs við áætlanir AGS og leggja fram aðstoð. Það sé á Norðurlöndum og Eystrasaltssvæðinu og sé til marks um samstöðu þjóða á þessu svæði.

Utanríkisráðherrar Eistlands og Lettlands, þeir Urmas Paet og Maris Riekstins, nefndu báðir að um þessar mundir eru liðin 18 ár frá því að lönd þeirra endurheimtu sjálfstæði sitt. Báðir nefndu sérstaklega þakklæti þjóða sinna til Íslands fyrir að hafa fyrst ríkja viðurkennt endurheimt sjálfstæði þessara ríkja.

Áhyggjur af Afganistan og Sri Lanka

Á fundinum var m.a. rætt um kosningarnar í Afganistan. Össur sagði að ráðherrarnir hafi ákveðið að koma á framfæri áhyggjum sínum af því að svo virðist sem núverandi forseti Afganistan hafi leitt í lög ákvæði sem í raun feli í sér ofbeldi gagnvart konum.

Utanríkisráðherrarnir samþykktu einnig yfirlýsingu þar sem þeir lýstu þungum áhyggjum sínum vegna hundruð þúsunda flóttamanna sem eru á vergangi á Sri Lanka. Þeir skora á stjórnvöld á Sri Lanka að bregðast við ástandi mannúðarmála „og að taka tafarlaust þátt, með ábyrgum hætti, í víðtækum samningaumleitunum vegna stjórnmálaástandsins“.