Farida Tarana „Fögur var hún og fríð að sjá, fallega leist mér hana á.“
Farida Tarana „Fögur var hún og fríð að sjá, fallega leist mér hana á.“
FRAMBJÓÐENDUR í forsetakosningunum í Afganistan í fyrradag voru um 30 en í kosningunum til héraðsráðanna voru þeir 3.400. Þekktu fæstir kjósendur eitthvað til þeirra og því voru það oft ekki málefnin, sem réðu valinu, heldur ýmislegt annað, t.d.

FRAMBJÓÐENDUR í forsetakosningunum í Afganistan í fyrradag voru um 30 en í kosningunum til héraðsráðanna voru þeir 3.400. Þekktu fæstir kjósendur eitthvað til þeirra og því voru það oft ekki málefnin, sem réðu valinu, heldur ýmislegt annað, t.d. fríðleikinn. Bendir margt til, að konurnar hafi grætt á því.

„Ég man bara ekki hvern ég kaus,“ sagði Abdul Bashir, 21 árs gamall maður í Kabúl, en Ajmal, 18 ára, mundi vel hvað hann kaus. Hann blaðaði í gegnum frambjóðendalistann og virti hverja mynd fyrir sér. Loks staðnæmdist hann við mynd af ungri stúlku.

„Man ekki hvað hún heitir en hún er falleg“

„Ég kaus hana. Ég man ekki hvað hún heitir en hún er falleg,“ sagði Ajmal með hjólabrettið undir hendinni, í gallabuxum og litskrúðugum skyrtubol.

Annar ungur maður, sem ekki vildi láta nafns síns getið, kvaðst hafa skoðað listann vel og síðan kosið stúlku, sem honum fannst sú fallegasta.

Mohammad Edris, 22 ára, kaus líka stúlku en hann hafði áður séð hana í sjónvarpinu, í afgönskum stjörnuleitarþætti, sem sniðinn er eftir „American Idol“.

„Ég kaus Faridu Tarana. Mér líkar hún. Hún er falleg og syngur vel,“ sagði Edris.

Sumir kusu aðeins þá, sem þeir töldu vera af sama þjóðarbroti og þeir sjálfir, en svo var líka til í dæminu, að menn gæfust upp í kjörklefanum og skiluðu auðu. Það gerðu þeir Emal Wafa og Qais Azimi.

„Ég fann engan, sem mér líkaði, og til að vera ekki að kjósa einhvern þrjót eða glæpamann ákvað ég að skila auðu,“ sagði Azimi. svs@mbl.is