Flug Kristján Ari Halldórsson og félagar hans í ÍR voru á miklu flugi í Breiðholtinu í gær og unnu öruggan sigur.
Flug Kristján Ari Halldórsson og félagar hans í ÍR voru á miklu flugi í Breiðholtinu í gær og unnu öruggan sigur. — Morgunblaðið/Kristinn
„Lið sem leikur svona í jafnmikilvægum leik og þessum hefur ekkert í úrvalsdeild að gera,“ sagði Þórhallur Dan Jóhannsson, fyrirliði Hauka, ómyrkur í máli eftir 3:0 tap gegn ÍR í 18. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu í gær.

„Lið sem leikur svona í jafnmikilvægum leik og þessum hefur ekkert í úrvalsdeild að gera,“ sagði Þórhallur Dan Jóhannsson, fyrirliði Hauka, ómyrkur í máli eftir 3:0 tap gegn ÍR í 18. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu í gær. Á sama tíma vann Selfoss Leikni og Víkingur gerði markalaust jafntefli við Aftureldingu.

HAUKAR eru í harðri baráttu við HK og Fjarðabyggð, sem mætast einmitt í dag, um að fylgja Selfyssingum upp í úrvalsdeild og eru fyrir leikinn í dag í 2. sæti með tveggja stiga forskot á HK.

„Það er nóg af hæfileikum í þessu liði en ég sá þá ekki í dag og við vorum eins og byrjendur eftir að hafa leikið vel í síðustu leikjum. Menn þurfa að spyrja sig núna hvort þeir vilji fara í úrvalsdeild, eða hvort þeir vilji vera miðlungslið í 1. deild,“ sagði Þórhallur, en Haukar lentu 3:0 undir í fyrri hálfleiknum.

„Menn héldu bara að þetta kæmi af sjálfu sér hérna í kvöld og lögðu sig ekki fram. Það er náttúrlega sorglegt þegar lið er að berjast við að komast upp um deild. Við litum hræðilega illa út og það hefði hreinlega átt að rukka okkur inn því við vorum alveg skelfilegir,“ sagði fyrirliðinn.

Kristján Ari Halldórsson kom ÍR yfir í gær með algjöru draumamarki og Árni Freyr Guðnason bætti við sínu 14. og 15. marki á leiktíðinni og kom ÍR í 3:0 fyrir leikhlé en hann er nú jafn Sævari Þór Gíslasyni í baráttunni um markakóngstitilinn.

„Þetta hefur gengið ágætlega hjá mér en það er ekki eins og ég sé að sóla upp allan völlinn, liðsfélagarnir eru góðir,“ sagði Árni Freyr.

„Þetta var sérstaklega góður fyrri hálfleikur hjá okkur og við sýndum að við erum bara betri en þeir, enda búnir að vinna þá í báðum leikjunum í sumar. Við höfum hins vegar gefið allt of mörg mörk og þess vegna erum við í þessari stöðu, en það tókst að halda hreinu í kvöld,“ bætti hann við en ÍR sleit sig með sigrinum frá fallsvæðinu og upp fyrir Víking R.

Fjallað er um hina tvo leikina í opnu íþróttablaðsins. sindris@mbl.is