Bertel Haarder
Bertel Haarder
BERTEL Haarder, menntamálaráðherra Danmerkur, segir að hindra verði unglinga á skólaskyldualdri í að skrópa í skóla, t.d. megi senda þeim smáskilaboð á morgnana.

BERTEL Haarder, menntamálaráðherra Danmerkur, segir að hindra verði unglinga á skólaskyldualdri í að skrópa í skóla, t.d. megi senda þeim smáskilaboð á morgnana. Dugi það ekki verði sveitarfélögin að senda fólk til að draga unglingana úr rúminu, segir hann í viðtali við nettímaritið Altinget.dk .

„Til eru fyrirtæki sem taka að sér slíka þjónustu gegn greiðslu,“ segir Haarder. „Ég vil eindregið hvetja sveitarfélög, ráðgjafa og menntastofnanir til að ýta hressilega við sinnulausum unglingum vegna þess að það kemur að gagni.“

Danska stjórnin vinnur nú að stefnumótun þar sem tekið verður á málefnum 16-17 ára unglinga með það í huga að draga úr hættunni á að þau lendi utangarðs í samfélaginu.

Haarder segir að koma verði í veg fyrir að unglingar haldi að hægt sé að sleppa við að leggja nokkuð á sig og lifa síðan á velferðarhjálp. Hættulegt sé að láta 16-17 ára unglinga afskiptalausa, þá geti þeir gleymst. Það kosti sveitarfélögin ekkert að gleyma þeim þar sem þau þurfi ekki að veita fjárhagslega aðstoð fyrr en börnin ná 18 ára aldri. kjon@mbl.is