Undirbúningur Auður Edda Jökulsdóttir í utanríkisráðuneytinu fylgdist með þegar verið var að hengja upp sýninguna sem opnuð verður kl. 14.30.
Undirbúningur Auður Edda Jökulsdóttir í utanríkisráðuneytinu fylgdist með þegar verið var að hengja upp sýninguna sem opnuð verður kl. 14.30. — Morgunblaðið/Jakob Fannar
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is UTANRÍKISRÁÐUNEYTIÐ opnar hús sín á Menningarnótt á milli kl. 14 og 18 í dag og býður gestum og gangandi að kynna sér starfsemina.

Eftir Bergþóru Jónsdóttur

begga@mbl.is

UTANRÍKISRÁÐUNEYTIÐ opnar hús sín á Menningarnótt á milli kl. 14 og 18 í dag og býður gestum og gangandi að kynna sér starfsemina.

Áhersla verður lögð á menningar- og Evrópukynningu, boðið upp á beint samband við starfsfólk sendiráðs Íslands í Brussel, og sérstök kynning verður á samstarfi ráðuneytisins við íslenskt menningarlíf í hönnun, myndlist og tónlist. Auður Edda Jökulsdóttir sendifulltrúi hefur umsjón með dagskránni.

„Eins og á Menningarnótt í fyrra verðum við með góða blöndu af fræðslu og menningu.“

Sýning sem lifir út árið

Sýning á samtímamyndlist er einn af stóru viðburðunum í utanríkisráðuneytinu, hún er unnin í samstarfi við Listasafn Íslands og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar og stendur í ár. Hún verður opnuð kl. 14.30. „Þema sýningarinnar í ár er bókin „Icelandic Arts Today“, sem kom út nýlega. Við kynnum á þriðja tug listamanna úr bókinni, á íslensku og ensku. Við fengum fagmenn til að velja bæði þemað og verkin, og það er ný aðferðafræði og skemmtileg nýbreytni fyrir okkur í ráðurneytinu. Verkin eru fjölbreytt, vekja okkur til umhugsunar og eru sum mjög krefjandi. Það koma margir erlendir sendierindrekar í húsið á ári hverju og sjá þá að hér hefur verið byggt upp hátæknivætt menningarsamfélag.“

Utanríkisþjónustan og sendiráðin styðja markvisst við bakið á kynningu íslenskrar menningar erlendis, í samstarfi við Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Útflutningsskrifstofu tónlistarinnar, ÚTÓN, og Hönnunarmiðstöð Íslands. „Hönnunarmiðstöðin verður með klukkutíma kynningu þar sem nokkrir hönnuðir kynna þau verk sín sem þeir flytja út. Hönnunarteymið Borðið kemur með leirpottinn sinn, Hörður Lárusson með fánabókina, hönnuðir Kronkron koma með skó og Guðbjörg í Aurum með skart.“

Elísabet V. Ingvarsdóttir hönnunarsagnfræðingur kynnir íslenska hönnun í ráðuneytinu, en hún var sýningarstjóri sýningarinnar Íslensk hönnun 2009 á Kjarvalsstöðum í sumar, með íslenskri hönnun og arkitektúr. „Sú sýning er unnin í samstarfi við okkur og mun ferðast um heiminn á næstu árum. Sendiráðin taka þátt í samstarfinu við Hönnunarmiðstöðina og þeirra útrás. Við viljum koma sýningunni að í hönnunarsöfnum og -galleríum og vinna með fagfólki á hverjum stað.“

Lay Low spilar í ráðuneytinu

Anna Hildur Hildibrandsdóttir í ÚTÓN verður líka í utanríkisráðuneytinu í dag og kynnir samstarfsverkni tónlistarinnar við ráðuneytið. „Við styðjum t.d. verkefnið Norðrið sem hófst í Þýskalandi í fyrra, en með því viljum við koma því unga listafólki á framfæri, sem er komið með tána inn á Þýskalandsmarkað. Lay Low, sem hóf verkefnið í fyrra, kemur og spilar hér kl. 17 í dag.“

Beina línan til Brussel

Utanríkisráðuneytið býður gestum Menningarnætur að taka þátt í fjarfundi með fastanefnd Íslands gagnvart ESB í Brussel í Sveinsstofu utanríkisráðuneytisins.

Þar er komið tækifærið til að spyrja fastanefndina spjörunum úr um allt sem viðkemur ESB og samskiptunum við Ísland, til dæmis um viðhorfið til Íslands í Brussel þessa dagana.

„Brussel verður í beinum tengslum við okkur og samræðum á stórum skjá og verður vonandi mjög fjörugt samtal í gangi og líflegar umræður. Við teflum líka fram okkar fólki hér heima sem hefur starfað í Brussel til þess að taka við spurningum.“