Á ÞESSU hausti eru nemendur í grunnskólum í Reykjavík rúmlega 14.000, þar af eru um 13.600 í skólum í rekstri Reykjavíkurborgar og um 400 í sjálfstætt starfandi grunnskólum. Rúmlega 1.300 börn eru að stíga sín fyrstu skref í skóla.

Á ÞESSU hausti eru nemendur í grunnskólum í Reykjavík rúmlega 14.000, þar af eru um 13.600 í skólum í rekstri Reykjavíkurborgar og um 400 í sjálfstætt starfandi grunnskólum. Rúmlega 1.300 börn eru að stíga sín fyrstu skref í skóla. Nemendur í skólum borgarinnar eru um 300 færri en haustið 2008. Heildarfjöldi starfsmanna í grunnskólum Reykjavíkurborgar er um 2.500 í um 2.100 stöðugildum eða svipaður og síðustu árin. Vel hefur gengið að manna stöður í skólunum en um þessar mundir er auglýst eftir fólki í nokkrar stöður skólaliða.

Árbæjarskóli fjölmennastur

Fjölmennasti grunnskóli Reykjavíkurborgar er Árbæjarskóli með 725 nemendur, en fámennastur er Ártúnsskóli með 152 nemendur. Sjö grunnskólar borgarinnar eru með fleiri en 500 nemendur og 13 skólar með 300 nemendur eða færri. Þrír grunnskólar eru í byggingu; Sæmundarskóli, en bygging hans er komin vel á veg og gert er ráð fyrir að kennsla hefjist í hluta nýbyggingarinnar nú í haust. Bygging Norðlingaskóla er komin styttra á veg. Þá er hafin bygging skólahúsnæðis í Úlfarsárdal sem upphaflega var ætlað eingöngu fyrir leikskóla, en til að byrja með verður byggingin nýtt fyrir starfsemi leikskóla, yngri bekki grunnskóla og frístundaheimili.

Fjöldi nemenda á stöðugildi hvers kennara er um 11 og hefur verið svipaður undanfarin ár. Meðalfjöldi nemenda í bekk er 20,8 og hefur hann verið svipaður í fjölda ára.