Gunnar Helgi Kristinsson
Gunnar Helgi Kristinsson
Gunnar Helgi Kristinsson stjórnsýslufræðingur og prófessor við Háskóla Íslands sagði í Speglinum á fimmtudag að íbúalýðræði gæti verið svarið í deilumáli um það hvort Reykjanesbær ætti að selja meirihluta í Hitaveitu Suðurnesja til kanadísks...

Gunnar Helgi Kristinsson stjórnsýslufræðingur og prófessor við Háskóla Íslands sagði í Speglinum á fimmtudag að íbúalýðræði gæti verið svarið í deilumáli um það hvort Reykjanesbær ætti að selja meirihluta í Hitaveitu Suðurnesja til kanadísks orkufyrirtækis.

Ekki aðeins eru skoðanir skiptar um það innan sveitarstjórnarinnar, þar sem meirihlutinn er því fylgjandi og minnihlutinn andsnúinn. Klofningurinn virðist einnig ná inn á borð til ríkisstjórnarinnar, því Össur Skarphéðinsson fylgdi því eftir í síðustu ríkisstjórn að Landsvirkjun seldi hlutinn. Nú virðist Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra kominn á fremsta hlunn með að kaupa hlutinn aftur, sem samráðherra hans stóð að sölu á.

Og Gunnar Helgi vill útkljá málið með beinu lýðræði, en hann gagnrýndi þá leið í Morgunblaðinu árið 1997 og sagði þá meðal annars: „Almenningur hefur oftast lítinn áhuga á stjórnmálum og mjög litla þekkingu á þeim, þetta hefur oft verið kannað með spurningum. Hann hefur yfirleitt lítinn tíma til að sinna stjórnmálum, sem betur fer hefur fólk oftast eitthvað skemmtilegra að gera.“

Nú kveður við annan tón. „Einn af lærdómum sem við eigum að draga af atburðum síðasta vetrar er að við höfum kannski ekki efni á því að framselja vald okkar á fjögurra ára fresti til valdamanna og treysta því svo að þeir taki ákvarðanir fyrir okkur.“

Batnandi mönnum er best að lifa! En kannski er fullbratt hjá Gunnari Helga að klykkja út með: „Maður spyr sig eiginlega af hverju hefur ekki meira gerst í þessu?“