Finnbogi Vikar Guðmundsson
Finnbogi Vikar Guðmundsson
Eftir Finnboga Vikar: "Vert er að hafa í huga að með auknum veiðum á makríl ætti samningsstaða Íslendinga að styrkjast gagnvart öðrum strandríkjum sem stunda veiðar úr sama makrílstofni."

ÉG VIL taka undir sjónarmið framkvæmdarstjóra LÍÚ og hvet sjárvarútvegsráðherra ríkisstjórnar Íslands, Jón Bjarnason, að auka við makrílkvótann þegar í stað. Núna ríður á að Íslendingar nýti auðlindir sínar til að standa undir þeim skuldbindingum sem leggjast á þjóðina vegna bankahrunsins.

Jón Bjarnason og VG verða að gera sér grein fyrir því að sjávarútvegur mun gegna lykilhlutverki í endurreisn Íslands og því mikilvægt að sjávarútveginum séu gefin tækifæri til að nýta auðlindirnar í efnahagslögsögu Íslands. Ég minni á að við Íslendingar ráðum yfir okkar hafsvæði og þeim auðlindum sem þar kunna að finnast.

Bæði sjómenn og Hafrannsóknastofnun hafa staðfest að gríðarlegt magn af makríl er núna í íslenskri lögsögu. Því ætti að vera fullkomlega óhætt að leyfa auknar veiðar á makríl þegar í stað og búa þannig til tekjur fyrir þjóðarbúið, sem sárvantar núna á þessum síðustu og verstu tímum í sögu þjóðarinnar.

Vert er að hafa í huga að með auknum veiðum á makríl ætti samningsstaða Íslendinga að styrkjast gagnvart öðrum strandríkjum sem stunda veiðar úr sama makrílstofni. Það gerist eingöngu með aukinni veiðireynslu og það ætti að vera sjávarútvegsráðherra ljóst. Nema Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra óttist viðbrögð þessara ríkja vegna veiða Íslendinga á makríl. Þá eru Íslendingar kúgaðri en ég hef haldið hingað til og þótt nóg um.

Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra ætti ekki að óttast viðbrögð annarra þjóða og leyfa auknar veiðar strax og gefa þannig útgerðum og sjómönnum tækifæri til aukinnar tekjuöflunar fyrir þjóðina. Íslendingar eru sjálfstæð þjóð í eigin landi, því ættum við að miða veiðar og nýtingu á makríl við okkar forsendur og sjálfbærni makrílstofnsins í huga.

Höfundur er laganemi við Háskólann á Bifröst og situr í starfshópi um endurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu.

Höf.: Finnboga Vikar