Skipulagður Landsliðsþjálfarinn Sigurður Ragnar Eyjólfsson hefur haft í mörg horn að líta að undanförnu.
Skipulagður Landsliðsþjálfarinn Sigurður Ragnar Eyjólfsson hefur haft í mörg horn að líta að undanförnu. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÍSLENSKA kvennalandsliðið í knattspyrnu hélt í gær til Finnlands þar sem það tekur þátt í úrslitakeppni Evrópukeppninnar.

ÍSLENSKA kvennalandsliðið í knattspyrnu hélt í gær til Finnlands þar sem það tekur þátt í úrslitakeppni Evrópukeppninnar. Fyrsti leikur liðsins er á mánudaginn kemur og verða mótherjarnir Frakkar, en með þeim í riðli eru einnig Norðmenn, sem liðið mætir á fimmtudaginn og Þjóðverjar, en leikið verður við þá á sunnudaginn.

Eftir Skúla Unnar Sveinsson

skuli@mbl.is

ÞAÐ hefur verið í mörg horn að líta hjá Sigurði Ragnari Eyjólfssyni, landsliðsþjálfara kvenna, síðustu vikurnar, en hann gaf sér þó tíma til að ræða við Morgunblaðið á fimmtudagskvöldið, lét það ekki trufla sig frá því að pakka niður. Sigurður Ragnar er mjög skipulagður í öllu sem hann gerir í kring um landsliðið og því lá beinast við að spyrja hvort það væri meðvituð ákvörðun að fara til Finnlands á föstudegi þegar fyrsti leikur væri á mánudegi.

Einum degi fyrr af stað

„Við förum einum degi fyrr en við erum vön. Leikurinn er á mánudaginn og við höfum undirbúið okkur vel hérna heima og töldum það heldur ekki gott að vera of lengi úti áður en að leiknum kæmi. Yfirleitt líður fólki best í sínu eigin umhverfi og okkur fannst þetta bara ágæt lausn, að fara degi fyrr en venjulega,“ sagði Sigurður Ragnar.

Hann sagði að nóg hefði verið að gera við að skipuleggja ferðina. „Það má eiginlega segja að hver einasta mínúta sér meira og minna skipulögð hjá okkur. Nú fer í hönd erfitt prógramm hjá okkur þar sem við spilum þrjá leiki á sjö dögum þannig að þetta er mjög þétt. Það er því mikilvægt fyrir stelpurnar að ná að hvíla sig vel á milli leikja,“ sagði landsliðsþjálfarinn.

– En þú átt nú væntanlega eftir að brjóta hið hefðbundna mynstur eitthvað upp er það ekki?

„Jú, jú, við reynum líka að gera eitthvað dálítið öðruvísi þannig að stelpurnar séu ekki bara á fótboltavellinum og inni á hótelherbergi. Við reynum að brjóta þetta upp og pössum uppá að það sé líka frjáls tími fyrir stelpurnar þannig að þær geti hitt ættingja og vini sem koma út til að fylgjast með liðinu. Það er alls ekki ætlunin að hafa þær í fangelsi. Fyrsta og fremst þarf þeim að líða vel og ná jafnframt að hvílast vel á milli leikja,“ sagði Sigurður Ragnar.

Sum landslið taka sinn eigin matreiðslumann með sér í ferðir til annarra landa – er einhver kokkur með í för?

Enginn kokkur með í för

„Nei við förum ekki með kokk með okkur. Það er ákveðinn matseðill sem UEFA er með og síðan erum við með ákveðnar séróskir sem búið er að verða við. Við spiluðum tvo leiki við Finna í Finnlandi í fyrra og þá var frábær matur og allur aðbúnaður mjög góður þannig að við vitum að það þarf engu að kvíða. Svo erum við með 14 manna fygldarlið með þessum 22 leikmönnum – og okkur finnst það bara ágætt og ekkert betra að hafa þá fleiri,“ sagði Sigurður Ragnar.

Leikurinn við Frakkland er í Tampere en á fimmtudaginn verður leikið við Norðmenn í Lahti og síðan aftur í Tampera á sunnudeginum við Þjóðverja. Íslenska liðið mun skipta um dvalarstað í tvígang á þessum tíma.

Sungið á leið á völlinn

„Það er rúmlega tveggja tíma akstur frá hótelinu sem við verðum á í Tampera á leikvanginn í Lahti og mér fannst það einfaldlega of löng keyrsla,“ sagði Sigurður Ragnar. Stelpurnar syngja jafnan íslensk dægurlög, meðal annars Ísland er land þitt, á leið frá hóteli á leikvöllinn. Sigurður Ragnar vildi ekki viðurkenna að það væri ástæðan fyrir því að skipta um hótel. „Stelpurnar syngja örugglega á völlinn og yrðu jafnvel orðnar hásar þegar á völlinn væri komið,“ sagði hann og hló.

Íslenska liðið er einstaklega samstillt og sagði Sigurður Ragnar að stelpurnar væru komnar með ákveðið prógramm. „Þær eru með sitt eigið prógramm til að hafa í ferðinni - svona smá spaug og það verður kannski kynnt síðar,“ sagði hann og ekkert fékkst meira upp úr honum varðandi það.

Hann sagði hins vegar að stelpurnar væru allar í fínu standi. „Stelpurnar eru í fínni æfingu og við teljum okkur hafa búið okkur eins vel og kostur er undir þetta ævintýri,“ sagði landsliðsþjálfarinn.

Í hnotskurn
» Fyrsti leikur Íslands er gegn Frökkum á mánudag. Á fimmtudaginn er leikið gegn Noregi og sunnudaginn 30. ágúst gegn Þjóðverjum.
» Tvö efstu liðin komast í 8 liða úrslit ásamt tveimur liðum sem lenda í þriðja sæti.