Menningarelítan að störfum Elítan gefur formanni sínum (úr mynd) lófaklapp eftir að það var samþykkt á stjórnarfundi að Buffalóskór væru núna aftur svalir og að tími Sálarinnar í þjóðarnáðinni væri senn á enda.
Menningarelítan að störfum Elítan gefur formanni sínum (úr mynd) lófaklapp eftir að það var samþykkt á stjórnarfundi að Buffalóskór væru núna aftur svalir og að tími Sálarinnar í þjóðarnáðinni væri senn á enda. — Morgunblaðið/ÞÖK
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á ferðum mínum um landið síðaðasta árið eða svo hef ég ítrekað heyrt af hópi sem á víst að eiga sér aðsetur í miðborginni.

Á ferðum mínum um landið síðaðasta árið eða svo hef ég ítrekað heyrt af hópi sem á víst að eiga sér aðsetur í miðborginni. Þessi hópur virðist þó aðeins vera til í samtölum og af einhverjum ástæðum lifir hann betra lífi utan þeirra landamæra sem hann á að þrífast á, eða í 101 Reykjavík. Iðulega er þessi hópur nefndur 101-elítan, 101-menningarvitar eða því miður fallega nafni 101-rottur.

Eftir því sem mér skilst er þetta grafalvarlegt fólk sem tekur sig afskaplega hátíðlega. Því finnst fátt áhugavert sem gerist fyrir utan þröng landamæri 101 Reykjavík og kýs að eyða dögunum á kaffihúsum og kvöldunum í að „ráfa á milli öldurhúsa kófdrukknir að hlusta á innflutta fjöldaframleidda menningu af geisladiskum“ eins og maður er vinnur við stóriðju á Austurlandi orðaði það í tölvupósti til mín. Allir virðast þeir annaðhvort klæðast hvers kyns lopafatnaði eða litríkum fötum úr Nakta apanum. Skarinn drekkur grænt te, er með helgiskrín tileinkað Sigur Rós í kjallaranum heima og þess fullvisst að landi og þjóð yrði borgið ef Björk yrði forsætisráðherra. Allur hópurinn hoppar svo á skoðanir hennar hvað landvernd varðar – eins og hann gerir reyndar með allar skoðanir sem eru í tísku hverju sinni. Þessi hópur hefur auðvitað aldrei búið í sveit og því fáránlegt að hann sé yfirhöfuð að tjá sig um landsbyggðina eða náttúru landsins ef hann hefur bara komist í kynni við hana á göngu í gegnum Hljómskálagarðinn!

Það eitt að búa í 101 virðist vera nóg til þess að falla undir þessar lýsingar.

Ég bý á Vesturvallagötunni. Nágrannar mínir eru fjölskyldufólk með gæludýr. Um daginn björguðum við ketti niður úr tré. Í fyrrakvöld sátum við í garðinum og spiluðum öll saman. Stundum fer ég út í Vesturbæjarskóla og spila fótbolta við strákinn minn. Hann hefur líka gaman af því að kíkja á listasöfn, í bíó eða á bókasafnið. Skemmtilegast þykir honum þó að hoppa í rúminu okkar eða leika við litlu systur.

Þegar ég fer á lífið rekst ég á alls kyns fólk. Íþróttafólk, listafólk, kokka, bankastarfsmenn, háskóla- og menntaskólanema, stjórnmálamenn, afgreiðslufólk í verslunum og leikskólakennara. Hér og þar eru litríkar týpur sem kunna ekkert annað en að vera eins og þær eru. Ég kippi mér ekki upp við þær, leyfi þeim bara að vera eins og þær eru án þess að velta því fyrir mér hvað þær hugsi eða í hvaða póstfangi heimili þeirra sé.

Það er engin 101-elíta. Það er bara elsti hluti bæjarins og það svæði sem hýsir flesta staði til menningar- og ómenningarlegs athæfis í Reykjavík á ferkílómetra. Varla yrði mikil mæting á Menningarnótt ef hún færi fram í Grafarvogi?

biggi@mbl.is

Birgir Örn Steinarsson