Fiskinn Friðrik Þór Friðriksson með hrygnuna sem mældist 90 cm löng. Henni var sleppt aftur í ána.
Fiskinn Friðrik Þór Friðriksson með hrygnuna sem mældist 90 cm löng. Henni var sleppt aftur í ána. — Ljósmynd/Erling Ingvason
VEIÐISÖGUR eru því skemmtilegri sem þær eru ótrúlegri. Erling Ingvason, tannlæknir á Akureyri, varð vitni að ótrúlegri heppni Friðriks Þórs Friðrikssonar kvikmyndaleikstjóra síðastliðinn laugardag, 15. ágúst.

VEIÐISÖGUR eru því skemmtilegri sem þær eru ótrúlegri. Erling Ingvason, tannlæknir á Akureyri, varð vitni að ótrúlegri heppni Friðriks Þórs Friðrikssonar kvikmyndaleikstjóra síðastliðinn laugardag, 15. ágúst. Þá voru þeir að ljúka þriggja daga veiði á Nessvæðinu í Laxá í Aðaldal.

„Ég held því fram að hann sé heppnasti veiðimaður sem ég þekki – ég er með þeim bestu, ef ekki sá besti – en hann er sá heppnasti,“ sagði Erling í gamansömum tón. „Leikstjórinn hafði samt ekkert getað einbeitt sér að veiðinni þessa daga, því hann var alltaf í símanum að ræða við Kate Winslet.“

Erling var að kasta á Kirkjuhólmabrotið og Friðrik stóð nokkuð fyrir aftan hann á vegslóða við ána. Erling var með Night Hawk einkrækju #10 frá Pétri Steingrímssyni og var að klára yfirferðina. Hann fékk smá slý á fluguna og sló henni til, til að losna við slýið, en full harkalega svo flugan fór af.

„Þar sem yfirferðin var búin gekk ég til baka. Þegar Friðrik sá mig koma spurði hann: „Misstirðu fluguna?“ Ég svaraði því játandi,“ sagði Erling. „Friðrik leit í kringum sig, beygði sig, tók upp flugu og spurði: „Er það þessi?“ Hann rétti mér Blue Doctor einkrækju #6. Nei, þetta er ekki mín, sagði ég. Þá gekk Friðrik út í grasið og tók upp aðra flugu og spurði: „En er það þessi?“ Hann rétti mér Night Hawk fluguna mína góðu frá Pétri.“

Erling segir að leit að nál í heystakki hefði verið barnaleikur miðað við þessa fundvísi. „Þegar ég hafði náð að hífa hökuna aftur upp sagði ég: Nú ferð þú og kastar. Þú færð pottþétt stórlax eins og þú ert heitur núna.“

Friðrik fór upp í Kirkjuhólmakvíslina og innan stundar var hann búinn að setja í fallega hrygnu á Blue Doctor tvíkrækju #10 einnig hnýtta af meistarahöndum Péturs Steingrímssonar.

Erling segir að með þessum happafeng hafi Friðrik unnið veðmál við Bubba Morthens sem Bubbi manaði hann í kvöldið áður. Veðmálið gekk út á hvor þeirra myndi veiða stærri fisk þennan morgun.

„Ég legg áherslu á að það var gegn mínum vilja þar sem fluguveiði er ekki keppnisíþrótt og þar að auki vissi ég að Bubbi átti við heppnasta veiðimann landsins að etja. Þetta var fyrirfram tapað veðmál hjá Bubba,“ sagði Erling. „Nú hef ég farið fram á það við Friðrik að hann gangi á undan með góðu fordæmi og felli niður að minnsta kosti 20% skuldarinnar og taki ekki svona veðmálum í framtíðinni. Hann er að hugsa málið.“

Í hnotskurn
» Laxá í Aðaldal er næstmesta bergvatnsá Íslands. Hún rennur úr Mývatni 58 km leið og út í Skjálfandaflóa.
» Lífríki Laxár og Mývatns hefur sérstöðu meðal íslenskra vatnakerfa. Sérstök lög gilda um verndun Laxár og Mývatns.
» Laxá í Aðaldal hefur löngum verið þekkt fyrir stórlaxa. Laxi sem veiðist í ánni er sleppt og þar er veitt á flugu.