[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skíðamaðurinn Björgvin Björgvinsson frá Dalvík var í öðru sæti eftir fyrri ferð í stórsvigi í Álfukeppninni á skíðum í Ástralíu í fyrrakvöld. Ekkert varð af síðari ferðinni vegna slæms veðurs.

Skíðamaðurinn Björgvin Björgvinsson frá Dalvík var í öðru sæti eftir fyrri ferð í stórsvigi í Álfukeppninni á skíðum í Ástralíu í fyrrakvöld. Ekkert varð af síðari ferðinni vegna slæms veðurs. Keppendur flytja sig nú um set til Nýja Sjálands hvar Álfukeppninni verður fram haldið um helgina. Björgvin er í 5. sæti í stigakeppninni.

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir hefur gengið til liðs við handknattleikslið Vals . Hún hefur lengst af leikið með Gróttu en einnig gert stuttan stans m.a. hjá Stjörnunni og Esbjerg á síðustu leiktíð.

Þá hefur handknattleiksmarkvörðurinn Hlynur Morthens gert tveggja ára samning við bikarmeistara Vals. Hlynur lék á síðasta keppnistímabili með Gróttu sem vann sér þá sæti í N1-deildinni. Valsmenn misstu báða markverði sína í sumar. Ólafur Haukur Gíslason flutti til Noregs og leikur þar með Haugaland og Pálmar Pétursson gekk til liðs við FH .

Fremsta handknattleikskona Noregs síðustu ár, Gro Hammerseng , segist ekki ætla að gefa kost á sér í norska landsliðið sem tekur þátt í HM í Kína í desember. Hammerseng var heldur ekki með norska landsliðinu þegar það varð Evrópumeistari í lok síðasta árs. Hún lék hins vegar stórt hlutverk þegar norska landsliðið vann gull á Ólympíuleikunum í Peking fyrir ári. Hammerseng segist ekki vera ung lengur og að stórmótin taki drjúgan toll af líkamlegu atgervi hennar.

Franski handknattleiksmaðurinn Daniel Narcisse hefur lýst yfir áhuga á að ganga til liðs við þýska meistaraliðið Kiel sem Alfreð Gíslason þjálfar. Narcisse leikur nú með Chambery í heimalandi sínu en þekkir vel til Alfreðs eftir að hafa leikið undir hans stjórn um eins árs skeið hjá Gummersbach leiktíðina 2006 til 2007.

Alfreð er nú sagður leita að reyndum handknattleiksmanni sem getur komið að einhverju leyti í stað Svíans Stefans Lövgrens sem hætti í vor. Narcisse þykir fullkominn í hlutverkið. Chamberry krefst hinsvegar 1,5 millj. evra fyrir Narcisse og er það talið geta komið í veg fyrir að af félagsskiptunum verði.

Knattspyrnumaðurinn Emil Hallfreðsson leikur að öllum líkindum sinn fyrsta leik með enska 1. deildarliðinu Barnsley í dag þegar það sækir Leicester heim. Emil, sem kemur að láni frá Reggina á Ítalíu , fékk loksins leikheimild með Barnsley í gær en heilir átta dagar voru þá liðnir síðan hann skrifaði undir lánssamninginn.

Enska 1. deildarfélagið Newcastle vill fá Sölva Geir Ottesen frá SönderjyskE til að fylla skarð Frakkans Sebastians Bassong sem farinn er til Tottenham að því er fram kom á fréttavef Sky í gær.