TÍU skilti með fræðslu um bann við akstri utan vega verða sett upp á leiðum inn á hálendið og áróðri dreift með bæklingum og stýrisspjöldum í bílaleigubílum samkvæmt samningi sem Vegagerðin, tryggingafélög og bílaleigur undirrituðu í gær.

TÍU skilti með fræðslu um bann við akstri utan vega verða sett upp á leiðum inn á hálendið og áróðri dreift með bæklingum og stýrisspjöldum í bílaleigubílum samkvæmt samningi sem Vegagerðin, tryggingafélög og bílaleigur undirrituðu í gær. Samstarf þetta er árangur af vinnu samráðshóps um fræðslu gegn akstri utan vega sem umhverfisráðherra skipaði í upphafi árs.

Fyrr í sumar gáfu Umhverfisstofnun og umhverfisráðuneytið út bækling á fjórum tungumálum sem var dreift m.a. á bílaleigum og algengum ferðamannastöðum. Hálendiseftirlit, samstarf Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, lögreglu, Umhverfisstofnunar og Landhelgisgæslunnar fór af stað í sumar. Þá hefur Umhverfisstofnun búið til sérstök eyðublöð og leiðbeiningar fyrir t.d. landverði til að skrá og tilkynna akstur utan vega til lögreglu og Umhverfisstofnunar. Einnig hefur boðskap gegn akstri utan vega verið komið á framfæri með fræðsluefni sem fylgir flestum bílaleigubílum. Loks hefur upplýsingum um akstur utan vega verið komið á framfæri á vefsvæði Umhverfisstofnunar: umhverfisstofnun.is.

Hægt er að skoða myndir af skemmdum í náttúru Íslands af völdum aksturs utan vega á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

Í hnotskurn
» Umhverfisráðuneytið vinnur einnig að því í samvinnu við Vegagerðina, Landmælingar, Umhverfisstofnun og viðkomandi sveitarfélög að skilgreina vegi á hálendi Íslands.
» Markmiðið með þeirri vinnu er að eyða óvissu um hvaða slóða megi aka og hvaða slóðar hafi verið myndaðir í óleyfi.