Forsætisráðherra 2010? Cameron, leiðtogi breska Íhaldsflokksins.
Forsætisráðherra 2010? Cameron, leiðtogi breska Íhaldsflokksins. — Reuters
DAVID Cameron, leiðtogi breska Íhaldsflokksins, hefur sakað stórfyrirtækin um að kynda undir óhollum lífsháttum og eiga með því sína sök á alls kyns kvillum, offitu, sykursýki, áfengissýki og mörgum öðrum lífsstílssjúkdómum.

DAVID Cameron, leiðtogi breska Íhaldsflokksins, hefur sakað stórfyrirtækin um að kynda undir óhollum lífsháttum og eiga með því sína sök á alls kyns kvillum, offitu, sykursýki, áfengissýki og mörgum öðrum lífsstílssjúkdómum. Segir hann, að sigri flokkur hans í kosningunum á næsta ári, sem flest bendir til, muni hann sem forsætisráðherra snúast gegn þessu af alefli í því skyni m.a. að draga úr sívaxandi álagi á heilbrigðiskerfið.

„Sannleikurinn er sá, að mörg fyrirtæki græða mikið á óhollustunni,“ sagði Cameron og bætti við, að hann ætlaði að beita sér fyrir „ábyrgum samningum“ við fyrirtækin til að vinna gegn offitu og óhófsdrykkju. Þá yrði reynt að koma í veg fyrir, að óhollri vöru væri haldið að börnum.

Cameron sagði það sína skoðun, að betra væri að ráðast gegn vandanum með þessum hætti, með því að auka ábyrgð fyrirtækja og einstaklinga, en með því sem hann kallaði fyrirskipanaaðferð núverandi stjórnar.

Í umræðum innan Íhaldsflokksins hefur verið rætt um að takmarka mjög notkun hertrar fitu, banna eða takmarka verulega „ofurskammta“ á veitinga- og skyndibitastöðum, takmarka mjög auglýsingar, sem beint er til barna, og skylda þá, sem selja vín eða skyndimat, til að greina frá hitaeiningafjölda. Þá er talað um að hækka skatta á áfengi.

Cameron hefur einnig tekið upp hanskann fyrir breska heilbrigðiskerfið en einn þingmanna flokksins lýsti því nýlega sem „mistökum í 60 ár“. Sagði Cameron, að Íhaldsflokkurinn myndi standa vörð um heilbrigðiskerfið. Ummæli þingmannsins fóru mjög fyrir brjóstið á mörgum Bretum. svs@mbl.is