Herðubreið Veður á NA-hálendinu var rysjótt og fólk lenti í hrakningum, en allir komust þó í áfangastað.
Herðubreið Veður á NA-hálendinu var rysjótt og fólk lenti í hrakningum, en allir komust þó í áfangastað. — Morgunblaðið / RAX
Björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar komu ferðafólki til aðstoðar í slæmu norðanveðri á svæðinu norðan Vatnajökuls í gærdag.

Björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar komu ferðafólki til aðstoðar í slæmu norðanveðri á svæðinu norðan Vatnajökuls í gærdag. Göngumaður var í vandræðum nærri Gæsavötnum, óttast var um hjólreiðamann í Dyngjufjalladal og fólk sat fast í bíl við Kistufell. Björgunarsveitir í Þingeyjarsýslu voru kallaðar út, en sneru við þegar borist hafði aðstoð frá fólki á svæðinu.

Tindarnir eru hvítir

„Hér hefur gengið á með éljum í dag en inn á milli er besta veður. Hæstu fjallatindar eru hvítir og hitastig í dag hefur verið um og yfir frostmark,“ sagði Óskar Ingólfsson landvörður í Kverkfjöllum í samtali við Morgunblaðið. Í Kverkfjöllum voru rúmlega 25 manns í fyrrinótt.

Að sögn Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings eru norðanskot eins og það sem gekk yfir í fyrrinótt og gærdag ekki óalgeng. Á hálendinu geti snjóað á öllum tímum árs, ekki síst á úthallandi sumri. Hann segir engin veðrabrigði þó í kortunum, um helgina hlýni með lægð úr suðri en svo snúist aftur í NA-átt með mildu lofti.

Í gærkvöld fóru björgunarsveitarmenn úr Biskupstungum og Hreppum og sóttu slasaðan mann í fjallaskálann við Þverbrekknamúla á Kili. Sá var talinn hafa farið úr axlarlið en var að öðru leyti ekki alvarlega meiddur. Maðurinn var fluttur undir læknishendur. sbs@mbl.is