Guð blessi Ísland Björgvin G. og Geir Haarde í vikunni örlagaríku.
Guð blessi Ísland Björgvin G. og Geir Haarde í vikunni örlagaríku. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Eftir Þorbjörn Þórðarson thorbjorn@mbl.

Eftir Þorbjörn Þórðarson

thorbjorn@mbl.is

ÞRJÁTÍU og níu erlendir bankar sem eru kröfuhafar íslensku bankanna hafa lagt formlega inn kvörtun til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) þar sem þeir telja að setning neyðarlaganna í október hafi brotið gegn EES-samningnum.

Þýskir og japanskir bankar

Á meðal bankanna eru stórir lánveitendur íslensku bankanna sem verða hluthafar í þeim, gangi áætlun stjórnvalda um endurfjármögnun þeirra eftir. Meðal þeirra eru þýsku bankarnir Bayerische Landesbank, Deutsche Bank, DekaBank, HSH Nordbank, breski bankinn Royal Bank of Scotland og japanski bankinn Sumitomo Mitsui.

Breska lögmannsstofan Norton Rose gætir hagsmuna bankanna. Grundvöllur kvörtunarinnar er að íslensk stjórnvöld hafi mismunað erlendum kröfuhöfum með setningu neyðarlaganna, en það feli í sér brot gegn 4. og 40. gr. EES-samningsins. Færsla eigna og skulda yfir í nýja banka brjóti gegn ákvæðum um ríkisaðstoð. Jafnframt hafi íslensk stjórnvöld brotið gegn tilskipun um endurskipulagningu og slit lánastofnana, en hún felur í sér að meðhöndla skuli kröfur erlendra kröfuhafa á sama hátt og innlendra, þ.e koma skuli eins fram við kröfuhafa óháð þjóðerni. Jafnframt telja bankarnir að aðgerðir íslenska ríkisins hafi brotið gegn eignarétti þeirra sem sé verndaður af 1. gr. 1. samningsviðauka Mannréttindasáttmála Evrópu og að brotið hafi verið gegn réttmætum væntingum kröfuhafanna sem séu varðar af meginreglum laga.

Myndi auðvelda skaðabótamál

ESA mun taka afstöðu til kvörtunar bankanna og í kjölfarið taka ákvörðun. ESA getur efnt til dómsmála ef henni sýnist svo og hefur EFTA-dómstóllinn lögsögu í slíku dómsmáli. Stefán Már Stefánsson lagaprófessor segir að ef niðurstaða fæli sér að íslenska ríkið hefði brotið gegn EES-samningnum þyrfti löggjafinn að bregðast við. „Það þýðir að við yrðum skuldbundin til að endurskoða þessar ákvarðanir. [...] Ef dómstóllinn kemst að því að [setning neyðarlaganna] hafi verið ólögmæt yrðum við að bæta úr með einhverjum hætti, það er alveg ljóst,“ segir Stefán. Aðspurður segir hann að slík niðurstaða myndi einnig auðvelda erlendu bönkunum að höfða skaðabótamál gegn íslenska ríkinu vegna setningar neyðarlaganna. Slíkt mál yrði að höfða fyrir íslenskum dómstólum.

Í hnotskurn
» Eftirlit með því að EFTA-löndin framfylgi ákvæðum EES-samningsins á hverjum tíma er í höndum ESA.
» ESA getur efnt til dómsmála ef henni sýnist svo. EFTA-dómstóllinn hefur lögsögu í deilumálum milli EFTA-ríkjanna og í málum er varða ákvarðanir ESA.
» Ef niðurstaða EFTA-dómstólsins yrði erlendu bönkunum hagstæð væru þeir betur í stakk búnir að höfða skaðabótamál gegn íslenska ríkinu.