Hvenær skapast réttur til ellilífeyris á Íslandi? Rétt til ellilífeyris öðlast þeir sem hafa búið á Íslandi í a.m.k. 3 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs en réttur til ellilífeyris miðast við 67 ára aldur.
Hvenær skapast réttur til ellilífeyris á Íslandi?

Rétt til ellilífeyris öðlast þeir sem hafa búið á Íslandi í a.m.k. 3 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs en réttur til ellilífeyris miðast við 67 ára aldur. Fullur réttur miðast við 40 ára búsetu á aldrinum 16-67 ára. Réttur þeirra sem hafa búið hér skemur er reiknaður út hlutfallslega.

Hvenær getur skapast réttur til örorkulífeyris á Íslandi?

Þeir sem hafa verið metnir til a.m.k. 75% örorku, eru á aldrinum 16 til 67 ára og hafa búið á Íslandi í a.m.k. 3 síðustu ár fyrir umsókn hafa áunnið sér rétt til örorkulífeyris. Búsetu á Íslandi í 40 ár á aldursbilinu 16 til 67 ára þarf til að öðlast fullan rétt til örorkulífeyris. Réttur þeirra sem búa hér skemur á þessu aldursbili reiknast hlutfallslega.

Tryggingavernd almannatrygginga á Íslandi fellur niður við flutning frá landinu. Milliríkjasamningar, t.d. samningar innan EES, Norðurlanda, Vaduz samningurinn og samningar við Kanada og Bandaríkin geta kveðið á um ríkari réttindi þar sem þeim er ætlað að tryggja að fólk geti flutt milli samningslanda og starfað þar án þess að missa áunnin réttindi. Lífeyrisþegar geta því samtímis átt rétt til bótagreiðslna að hluta til frá fleiri en einu landi en ekki þó fyrir sama tímabil.

Hafa ber í huga að:

*Íslenskur ríkisborgararéttur einn og sér veitir ekki rétt til bóta skv. almannatryggingalögum þar sem horft er á búsetu hér á landi í stað ríkisborgararéttar.