[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Elstu Íslandsmet í karlaflokki í frjálsíþróttum hafa staðið síðan á sjötta áratug síðustu síðustu aldar og eins og mál standa nú bendir fátt til þess að þau verði slegin á næstu árum.

Eftir Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

UM er að ræða Íslandsmet Hilmars Þorbjörnssonar í 100 m hlaupi, 10,3 sekúndur, frá 18. ágúst 1957 og þrístökksmet Vilhjálms Einarssonar, 16,70, sem sett var 7. ágúst 1960. Að vísu var met Hilmars jafnað árið 1977 af Vilmundi Vilhjálmssyni og aftur 20 árum síðar af tugþrautarkappanum, Jóni Arnari Magnússyni, 10,56 sekúndur. Síðan hefur ekki margt gerst í þeim efnum.

Ekkert bendir til annars en Vilhjálmur muni eiga Íslandsmetið í þrístökki næstu árin sé litið til árangurs sporgöngumanna Vilhjálms í íþróttinni hér á landi. Sá sem höggvið hefur næst meti Vilhjálms er Friðrik Þór Óskarsson. Hann stökk 15,29 metra fyrir 30 árum. Fjórði bestu árangurinn er frá 1971. Met Vilhjálms er að verða 50 ára gamalt og spurning hvort það muni standa í önnur 50 ár.

Þegar Íslandsmetin eru skoðuð í þeim 22 greinum frjálsíþrótta sem keppt er í á Ólympíuleikum hafa tvö þeirra staðið síðan á sjötta áratug síðustu aldar, eins og fyrr er getið. Eitt metið er frá áttunda áratugnum, þ.e. metjöfnun Vilmundar í 100 m hlaupi. Sjö met frá níunda áratugnum standa enn og sex frá tíunda áratug síðustu aldar. Fimm þeirra voru sett af Jóni Arnari. Þriðjungur Íslandsmeta í fyrrgreindum 22 íþróttagreinum hefur verið settur frá 2001.

Haukur og Hilmar enní fremstu röð

Þegar litið er yfir afrekaskrá Frjálsíþróttasambands Íslands má sjá að í mörgum greinum, einkum í karlaflokki, hafa afar hægar eða nánast engar framfarir átt sér stað áratugum saman. Má þar nefna m.a. 200 m hlaup karla. Jón Arnar bætti 19 ára gamalt met Vilmundar Vilhjálmssonar fyrir 13 árum. Þriðji maður á lista er Oddur Sigurðsson með árangur frá 1984 en á eftir honum koma Haukur Clausen með tíma frá 1950 og Hilmar Þorbjörnsson með árangur frá 1956. Svipað en þó ekki jafn slæmt er dæmið í 400 m hlaupi. Þar stendur Íslandsmet Odds frá 1984, 45,36 sekúndur, sem til skamms tíma var einnig Norðurlandamet, efst á lista. Næstur er Jón Arnar rúmri sekúndu á eftir og þriðji á lista er Bjarni Stefánsson með árangur frá Ólympíuleikunum í München 1972. Þess skal getið að Jón Arnar var fyrst og fremst tugþrautarmaður og einbeitti sér aldrei að keppni í einstökum greinum nema með tugþrautarkeppni í huga.

Þrátt fyrri vaxandi áhuga fyrir hlaupum á síðustu árum þá náðust sjö bestu tímar til þessa í maraþonhlaupi karla á árunum 1983 til 1993. Og ef Kári Steinn Karlsson hefði ekki komið fram á sjónarsviðið á síðustu árum þá stæðu Íslandsmet Sigfúsar Jónssonar í 5 og 10 km hlaupi vafalaust ennþá en voru orðin vel rúmlega 30 ára gömul þegar þau voru bætt af Kára Steini.

Metstökk Torfa ofarlega á blaði

Áður er getið um hversu menn eru langt frá Íslandsmeti Vilhjálms í þrístökki. Vilhjálmur á ennþá fjórða besta árangur Íslendings í langstökki, 7,46 metra frá 1957. Þá er sigurstökk Torfa Bryngeirssonar í langstökki á Evrópumeistaramótinu í Brussel, 7,32 metrar, tíundi besti árangur Íslendings í greininni enn, tæpum 60 árum síðar. Langstökk var aukabúgrein hjá Torfa sem megináherslu lagði á stangarstökk.

Tveir yfir 60 m á 10 árum

Fleiri dæmi má nefna, t.d. úr kastgreinum þar sem Íslendingar áttu lengi vel afreksmenn á heimsmælikvarða í kúluvarpi, kringlu- og spjótkasti. Á síðustu árum hafa aðeins tveir Íslendingar kastað kringlunni yfir 60 metra. Hvorugur þeirra hefur náð að höggva nærri 20 ára gömlu Íslandsmeti Vésteins Hafsteinssonar, 67,64 metrar. Þá eru met Einars Vilhjálmssonar og Péturs Guðmundssonar í spjótkasti og kúluvarpi ekki í nokkurri hættu. Raunar er Pétur eini Íslendingurinn sem varpað hefur kúlunni lengra en „Strandamaðurinn sterki“, Hreinn Halldórsson, gerði 1977 þegar hann setti met sitt, 21,09 metra. Pétur bætti það 13 árum seinna og eftir að hann hætti keppni hefur enginn Íslendingur nálgast 20 metra í kúlvarpi af nokkurri alvöru.

Það eina jákvæða sem átt hefur sér stað í kastgreinum karla síðustu ár er að fram er kominn sleggjukastari sem hefur alla burði til að komast í fremstu röð í heiminum, Bergur Ingi Pétursson. Hann er fyrsti alþjóðlegi kastarinn sem Íslendingar eignast í þessari grein.

Metþraut á Melvelli 1951 enn á meðal þeirra bestu

Jón Arnar var einn fremsti tugþrautarmaður heims árum saman á árunum fyrir og eftir aldamótin síðustu. Næstur á eftir honum á afrekslistanum er Þráinn Hafsteinsson með árangur frá 1983 og þriðji er Stefán Hallgrímsson með árangur frá 1974. Athygli vekur að Örn Clausen er í fjórða sæti en tugþraut hans frá Melvellinum í frægu einvígi við Frakkann Ignace Heinrich í júlílok 1951 var hans besta á ferlinum og um leið sú síðasta.

Þetta eru aðeins örfá dæmi um hve litlar framfarir hafa orðið í frjálsíþróttum hér á landi síðustu áratugi þrátt fyrir að aðstaða til æfinga og keppni hafi batnað mikið. Í raun má segja að bytling hafi orðið í aðstöðu allri t.d. frá keppnis- og æfingaárum Clausen-bræðra fyrir meira en hálfri öld. Samt er árangur þeirra enn meðal þess besta. Því stendur eftir sú spurning hvort bætt aðstaða á síðustu árum og áratugum hafi í raun skilað framförum á keppnisvellinum.

Jafnbetri árangur hjá konunum

Í kvennaflokki er svipað upp á teningnum. Af 21 Íslandsmeti í ólympíugreinum eru fjögur frá níunda áratug síðustu aldar, tíu frá tíunda áratugnum og sjö þeirra hafa verið sett á yfirstandandi áratug, þar af var ekki byrjað að keppa í sleggjukasti kvenna fyrr en eftir aldamótin.

Elst er met Guðrúnar Ingólfsdóttur í kringlukasti, 53,86 metrar, sett í Reykjavík 7. maí 1982. Enginn hefur heldur nálgast með Ragnheiðar Ólafsdóttur í 800 og 1.500 m hlaupi né heldur önnur met hennar frá níunda áratugnum í öðrum hlaupagreinum sem ekki eru hér til umfjöllunar.

Flest metin í kvennaflokki sem nú standa voru sett á tíunda áratugnum þegar Guðrún Arnardóttir og Martha Ernstsdóttir setti sterkan svip frjálsíþróttalífið hér á landi með framúrskarandi árangri.

Þegar litið er yfir afrekalista kvenna þá er ljóst að meiri og örari framfarir hafa orðið á síðustu árum og áratugum hjá kvenfólkinu en karlmönnunum. Lítið er um mjög gömul afrek í allra fremstu röð, t.d. á topp fjórum sem er athyglisvert þótt ljóst sé að afrekskonurnar á áttunda og níunda áratugnum voru fleiri en nú er. E.t.v. spilar það inn í að almenn keppni á meðal kvenna í frjálsíþróttum hófst seinna hér á landi en á meðal karla.