Hryðjuverk Eyðileggingin í sprengingunum á miðvikudag var gífurleg og manntjónið mikið.
Hryðjuverk Eyðileggingin í sprengingunum á miðvikudag var gífurleg og manntjónið mikið. — Reuters
Eftir Svein Sigurðsson svs@mbl.is SJÍTAR og súnnítar í Írak kenna hvorir öðrum um hryðjuverkin í Bagdad fyrr í vikunni en þau urðu um 100 manns að bana og særðu og örkumluðu mörg hundruð manns.

Eftir Svein Sigurðsson

svs@mbl.is

SJÍTAR og súnnítar í Írak kenna hvorir öðrum um hryðjuverkin í Bagdad fyrr í vikunni en þau urðu um 100 manns að bana og særðu og örkumluðu mörg hundruð manns. Óttast margir, að átök á milli trúarhópanna fari aftur vaxandi.

Nuri al-Maliki forsætisráðherra og sjíti sagði, að hryðjuverkin væru „örvæntingarfull tilraun til að að hafa áhrif á stjórnmálaþróunina og væntanlegar þingkosningar“ og Íslamska æðstaráðið, valdamikil stofnun meðal sjíta, sagði, að um væri að ræða „skipulegan hernað“ en ekki bara einstök sprengjutilræði. Kenndi það súnnítum um óöldina, einkanlega fyrrverandi stuðningsmönnum Saddams Husseins.

Íslamski herinn, helstu skæruliðasamtök súnníta, fullyrtu á móti, að hryðjuverkin í Bagdad hefðu verið runnin undan rifjum Íraksstjórnar, sem er að mestu skipuð sjítum, og Bandaríkjamanna.

Bandaríkjamenn hafa dregið allt herlið sitt út úr borgum og bæjum í Írak en um leið hefur óöldin og ofbeldið aftur farið að láta á sér kræla. Hafa margir miklar áhyggjur af ástandinu og óttast, að liðsmenn helstu trúflokkanna, sjíta og súnníta, fari aftur að berast á banaspjót.