Soffía Bjarnadóttir
Soffía Bjarnadóttir
Eftir Soffíu Bjarnadóttur: "Nú er hins vegar svo komið að þessi góði og gamli skóli virðist vera að sökkva og hið vinalega umhverfi er orðið að óvinveittri óvissu."

SÍÐASTLIÐIÐ vor hafði ég hugsað mér að skrifa grein um Landakotsskóla og hrósa því merkilega og góða starfi sem þar hefur átt sér stað undanfarin misseri – ekkert varð úr greininni fyrr en nú. Hins vegar hefði ég aldrei trúað að aðeins einu sumri síðar myndi skoðun mín á skólanum kollvarpast svo gjörsamlega að ég gæti ekki lengur litið á skólann sem góðan kost fyrir barnið mitt.

Að velja skóla fyrir barnið sitt er mikilvægt val í lífi barns og foreldra. Fyrir rúmu einu ári stóðum við foreldrarnir frammi fyrir slíku vali. Eftir að hafa haft samband við marga skóla og heimsótt þó nokkra var legið yfir möguleikunum og að lokum varð Landakotsskóli fyrir valinu. Fríða Regína Höskuldsdóttir var þar skólastjóri, Ísar Logi Sigurþórsson kennari 8. og 9. bekkjar og Helga Þórey Eyþórsdóttir sérkennari. Þetta góða þríeyki tók einkar vel á móti dóttur minni og með framúrskarandi fagmennsku sýndu þau henni þann skilning sem hún þarfnaðist til að geta blómstrað og verið örugg.

Landakotsskóli á sér langa og blómlega sögu. Fyrir fjórum árum var rekstur skólans þó kominn í óefni meðal annars vegna deilna. Fríða Regína var þá fengin til starfa og hefur viðsnúningur átt sér stað í skólahaldi og rekstri. Lagt hefur verið áherslu á hið vinalega umhverfi, góða kennslu, og að einstaklingurinn fái að njóta sín. Smæð skólans hefur einmitt ýtt undir þessi atriði – kennslu þar sem einstaklingurinn nýtur sín í vinveittu umhverfi. Sjálf bygging skólans vinnur einnig með þessum atriðum því um verulega glæsilegan og virðulegan skóla er að ræða en á sama tíma heimilislegan. Þetta var mín tilfinning þetta eina ár sem dóttir mín var í þessum skóla.

Ég er ósköp þakklát fyrir það starf sem starfsfólk skólans vann með manngæsku að leiðarljósi. Nú er hins vegar svo komið að þessi góði og gamli skóli virðist vera að sökkva og hið vinalega umhverfi er orðið að óvinveittri óvissu. Stjórn skólans sagði upp skólastjóranum með lögfræðibréfi seint á sunnudagskvöldi og henni gert að skila lyklum og öllum gögnum 12 tímum síðar – þremur dögum fyrir skólasetningu. Ástæðan er sögð vera hagræðing í rekstri. Undarleg hagræðing það.

Fólki hefur blöskrað svo framkoma stjórnarinnar í garð starfsliðs skólans að bæði foreldrar með börn sín sem og kennarar eru farnir að flæmast undan og margur getur ekki hugsað sér annað en að kveðja þennan skóla sem áður var fremstur í flokki þeirra möguleika sem í boði var. Nú virðist skólinn vera fangi í eiginhagsmunaskák þar sem eitthvað annað en gæska og góðir kostir eru á ferð. Svo virðist sem ástæðan sé að fáeinir einstaklingar í stjórn skólans hafi ekki áhuga á að vera í tengslum við þann veruleika og það mikilvæga starf sem hefur átt sér stað síðast liðin ár innan veggja skólans þar sem skólinn gat státað af framúrskarandi kennslu fyrir öll börn með áherslu á þarfir hvers og eins.

Fyrir hvern er þá eiginlega Landakotsskóli núna? Það er ekki verið að hugsa um hag barna sem í honum eru. Fótunum hefur verið kippt undan dóttur minni í þessum skóla og stöðugleikinn er enginn þar. Nýr kennari, enginn sérkennari, enginn skólastjóri – eða hvað? Ætli þessi nýju og ómannúðlegu vinnubrögð séu hluti af nýrri stefnumótun skólans? Það er sorglegt og jafnvel hættulegt þegar fólk telur sig eiga rétt á að borga veruleikann í burtu – en sá hugsunarháttur virðist því miður enn við lýði hvort sem við tölum um gamalt eða nýtt Ísland.

Höfundur er móðir fyrrverandi nemanda í Landakotsskóla.

Höf.: Soffíu Bjarnadóttur