AFTURELDINGU mistókst að komast upp úr efra fallsæti 1. deildar karla í knattspyrnu þegar liðið gerði markalaust jafntefli við Víking R. í Fossvoginum í gærkvöldi.

AFTURELDINGU mistókst að komast upp úr efra fallsæti 1. deildar karla í knattspyrnu þegar liðið gerði markalaust jafntefli við Víking R. í Fossvoginum í gærkvöldi. Stigið gæti þó reynst dýrmætt en nýliðarnir úr Mosfellsbænum eru nú tveimur stigum á eftir Skagamönnum, sem eiga útileik við KA í dag til góða, og sex stigum á eftir Víkingum sem eru því enn með í fallbaráttunni þegar fjórar umferðir eru eftir.

Mikið reyndi á marksúlurnar

Þorvaldur Sveinn Sveinsson var hársbreidd frá því að koma heimamönnum yfir í leiknum strax á 2. mínútu þegar hann skaut í stöng úr frábæru færi og hann átti síðar einnig skalla í stöng. Á sama mark reyndi í seinni hálfleiknum þegar Paul Clapson var nálægt því að ná forystunni fyrir gestina með skoti af 25 metra færi en boltinn fór í þverslána.

Sveinar Leifs Garðarssonar í Víkingi hafa síður en svo staðið undir væntingum í sumar enda spáðu því margir að þeir kæmust alla leið upp í úrvalsdeild. Leikurinn í gær var aðeins annar af tveimur sem liðið hefur haldið marki sínu hreinu í og slíkt ekki vænlegt til árangurs. Þeir misstu með jafnteflinu í gær granna sína úr ÍR upp fyrir sig í 8. sætið og eru sem áður segir sex stigum frá fallsæti og fjórum stigum fyrir ofan Skagamenn. sindris@mbl.is