Guðmundur Magnússon byggingameistari fæddist í Reykjavík 3. mars 1927. Hann lést á Akranesi 31. júlí 2009. Foreldrar hans voru hjónin Magnús Ásbjörnsson bifvélavirki í Reykjavík, f. á Akranesi 1901, d. 1963, sonur hjónanna Ásbjörns Sigurðssonar og Sigríðar Helgadóttur, og Ingibjörg Guðmundsdóttir húsfreyja á Akranesi, síðar í Kaupmannahöfn, f. á Akranesi 1904, d. 1983, dóttir hjónanna Guðmundar Hanssonar trésmiðs á Akranesi og Marsibilar Þ. Gísladóttur. Systkini Guðmundar eru Garðar P. vélstj., f. 1924, d. 4. 1991, Ásbjörn bifreiðastj., f. 1925 og Esther R., húsfreyja í Þýskalandi, f. 1928. Þegar Guðmundur var 2ja ára var honum komið í fóstur til afasystur sinnar, Valgerðar Hansdóttur, en þar bjó fyrir móðursystir hans Hansína Guðmundsdóttir. Guðmundur ólst upp hjá Valgerði til 17 ára aldurs. Guðmundur kvæntist 8.4. 1950 Ástríði Þóreyju Þórðardóttur, f. á Akranesi 8.3. 1929. Foreldrar hennar eru hjónin Þórður Þ. Þórðarson, bifreiðastj. og framkv.stj. á Akranesi, f. á Leirá í Leirársveit 1899, d. 1989 og Sigríður Guðmundsdóttir, f. á Sólmundarhöfða í Innri Akraneshreppi 1910. Börn Guðmundar og Ástríðar eru: 1) Emil Þór, f. 28.4. 1956, maki Guðbjörg Kristjánsdóttir. Börn þeirra eru Telma Kristín, Viktor Orri og Sara Margrét. Fyrir átti Emil Þór: a) Guðmund, móðir Hjördís Símonardóttir, unnusta Þóra Sigríður Torfadóttir, dóttir þeirra er Sædís Heba, Guðmundur átti fyrir Emil Þór, b) Melissa Ástríður, móðir Auður Matthíasdóttir, unnusti Jónas Pétur Ólason, þeirra dóttir er Tinna Diljá, og c) uppeldissonur Símon. Áður átti Guðbjörg Kristján Örn. 2) Sigríður, f. 19.4. 1958, maki Gunnar Sigurðsson. Börn Sigríðar og Páls I. Pálssonar eru: a) Guðmundur Þór, unnusta Fanney Ýr, börn hans eru Andri Már og Embla Sól og fyrir á Fanney Ísabellu Ýr. b) Páll Indriði, unnusta Anna Kvaran. c) Maríanna, unnusti Kári Daníelsson, dóttir þeirra Karen. Fyrir átti Gunnar börnin Ellu Maríu og Örn. 3) Ingibjörg, f. 13.6. 1963, maki Jón B.G. Jónsson. Börn þeirra eru a) Ástríður Þórey, unnusti Sveinn Ómar Sveinsson, b) Unnur Tara, unnusti Roni Leimu, og c) Heiðrún Hödd. Sonur Ingibjargar og Óla Páls Engilbertssonar er Óli Ingi, unnusta Elsa Birgisdóttir, og fyrir á Jón Hlyn. 4) Þórey Guðmunda, f. 3.1.1969, maki Leifur Eiríksson. Börn þeirra eru Hildur María, Magdalena Sara, og Eiríkur Alexander. Fyrir átti Leifur Kristófer Júlíus. Samvist þeirra Guðmundar og Ástríðar náði yfir 64 ár. Guðmundur nam húsasmíði hjá Jóni Guðmundssyni frá Guðnabæ, og varð í framhaldi af því húsasmíðameistari. Hann teiknaði og byggði sér einbýlishús á lóð sem nú heitir Suðurgata 99. Guðmundur 23 ára og Ástríður 21 árs fluttu í nýtt húsið fullgert á brúðkaupsdaginn þeirra og bjuggu á þar í 45 ár. Hann var frumkvöðull á mörgum sviðum byggingatækni og mannvirkjagerðar á Akranesi. Byggði sér iðnaðarhús við Stillholt 21, og rak þar trésmíðaverkstæði og byggingastarfsemi, Trésmiðju Guðmundar Magnússonar í 44 ár, einnig Byggingavöruverslun Akraness, og Skagaplast, framleiddi steinsteypu og rak útgerð vinnuvéla og vörubifreiða. Guðmundur byggði á annað hundrað íbúða á Akranesi og útskrifaði 39 sveina í húsasmíði. Hann var einn af stofnendum Golfklúbbs Akraness síðar Golfklúbbsins Leynis, í Byggingarnefnd Akraneskaupsstaðar og félagi í Oddfellowstúkunni nr. 8 Egill. Guðmundur verður jarðsunginn frá Akranesskirkju í dag, föstudaginn 14. ágúst, og hefst athöfnin kl. 14.

Elsku pabbi.

Þetta gerðist allt svo ótrúlega hratt. Ég er samt þakklátur fyrir að hafa verið þér við hlið með mömmu þegar þú kvaddir.

Það liðu aðeins sex vikur frá því þú greindist með illvígan sjúkdóm þar til þú varst dáinn. Þú sem varst svo heilbrigður bæði á sál og líkama.

Ég minnist iðjusemi þinnar sem var ótrúleg og okkur öllum sem þig þekktu og eftir stöndum til eftirbreytni. Þú varst stöðugt að dytta að, allt fram á það síðasta, breyta eða stækka. Síðast núna í júní varstu ósáttur við að ég hafði hug á að brytja niður í eldivið timbur sem þú áttir við sólpallinn í Stóra-Fjalli, þú sagðir mér að þú þyrftir að nota þetta efni í smíðar seinna í sumar. Nú þegar þú ert hinsvegar horfinn okkur af þessu jarðvistarstigi þá trúi ég því að hinumegin taki vel á móti þér þeir ástvinir sem á unda eru gengnir, amma Ingibjörg, afi Magnús, afi Þórður á Hvítanesi, Aage Emil og Þórður frændi. Mig grunar að þú sért þegar byrjaður að skoða þig um hinumegin, athuga að hverju megi dytta og hvort ekki megi laga eitthvað.

Ég minnist þín sem dugnaðarforksins og frumkvöðulsins, sem með eigin framtakssemi teiknaðir og reistir þér einbýlishús við Suðurgötuna og fluttir inn í það aðeins 23 ára gamall, á giftingardaginn ykkar mömmu þann 8. apríl árið 1950. Á Suðurgötunni bjugguð þið mamma síðan í 45 ár. Þú lést ekki þar við sitja heldur teiknaðir þú og byggðir þér stórt iðnaðarhús við Stillholt á Akranesi fljótlega eftir að þú kláraðir nám þitt í húsasmíði hjá Jóni í Guðnabæ. Þú minntist oft á að hjá Jóni hafir þú lært að hafa vandvirknina að leiðarljósi eins og þú varðst síðan sjálfur þekktur fyrir. Þú stofnaðir Trésmiðju Guðmundar Magnússonar í nýja iðnaðarhúsinu þínu, og síðan eftir að hafa tvöfaldað stærð þess húss nokkrum árum seinna þá stofnaðir þú Byggingavöruverslun Akraness, þaðan sem þú seldir byggingarefni um allt land og enn nokkrum árum seinna stofnaðir þú fyrirtækið Skagaplast sem framleiddi einangrunarplast til bygginga. Þessi fyrirtæki voru öll rekin undir sama þaki við Stillholtið í 44 ár.

Á meðan þú varst að læra húsasmíðina þá keyrðir þú einnig leigubíl og það er ótrúlegt til þess að hugsa að þú hafir á sama tíma verið að byggja þér húsið ykkar við Suðurgötuna, en svona varstu, vinnan göfgaði þig svo sannarlega og enginn tími fór til ónýtis. Þú sagðir mér oft að draumurinn þinn á þessum árum hafi verið að fara til Danmerkur og læra arkitektúr eða tæknifræði en lést þó ekki verða af því, sennilega hefurðu bara ekki mátt vera að því. Árið 1955 keyptir þú þér Sótann, eins og þú kallaðir eftirlætisbílinn þinn alltaf, eða Desoto Fireflite eins og tegundin hét víst, bíll sem þótti ekki verri tegund en það að hin bifreiðin sömu tegundar sem var flutt inn á sama tíma var bíll borgarstjórans í Reykjavík. Þú minntist alltaf þessa tíma með blik í augum. Á þessum árum naustu þess að gefa framtaksseminni lausan tauminn og þú hlífðir þér hvergi í því að byggja upp þín fyrirtæki. Bílaáhuginn átti samt eftir að vera fastur við þig alla tíð og engan þekki ég mann sem hefur haft eins mikið yndi af fallegum bifreiðum eins og þú hafðir. Það voru ófáar ferðirnar okkar á bílasölur, og yfirleitt varstu búinn að kynna þér út í ystu æsar það sem þú ætlaðir síðan að skoða, því hraðskreiðari sem bíllinn var því betri var hann að þínu mati.

Eftir eldsvoða sem varð hjá þér á Stillholtinu árið 1966 þar sem allt brann til kaldra kola hefði maður kannski haldið að þér myndi fallast hendur í skaut, en svo varð aldeilis ekki heldur byggðir þú allt upp aftur og enn stækkaðir þú allt iðnaðarhúsið, nú í þriðja sinn. Á þessum árum var Golfklúbbur Akraness stofnaður sem síðar hlaut nafnið Golfklúbburinn Leynir þar sem þú varst einn af stofnfélögum. Ég man eftir því eitt sinn þegar timburskip kom til þín með timbur þá fylgdu með sex golfsett, eitt fyrir þig og hin handa klúbbnum.

Á þessum árum gerðist þú einnig félagi í Oddfellowreglunni, í stúku nr. 8 Egill.

Meðan þú rakst byggingafyrirtæki þitt þá tókstu að þér nema í húsasmíði eins og þá tíðkaðist og tíðkast enn og samtals urðu nemarnir hjá þér 39.

Þú teiknaðir og byggðir einnig fjölda bygginga og íbúða á Akranesi, nokkur húsanna sem þú byggðir eru kennileiti á Akranesi eins og Íþróttahúsið við Vesturgötu, Landsbankahúsið við Skuldartorg og fleiri ótalin hús sem bera þér vitni um þá vandvirkni sem þér hafði lærst.

Eftir að mesta annríkinu lauk og breytingar urðu hjá þér í rekstrinum þá byggðir þú ykkur mömmu sælureit uppí Stóra Fjalli, þar sem þið dvölduð oft, stundum langdvölum. Þar naustu þín í smíðinni og alltaf að dytta að einhverju, laga, breyta og stækka. Þú og mamma elskuðuð að eyða sumrinu saman uppí bústað. Jafnvel á veturna dvölduð þið þar, oft bara þið tvö á svæðinu, sitjandi fyrir framan arininn á köldum vetrarkvöldum, alltaf jafn ástfangin, rétt eins og þið hefðuð bara kynnst í gær.

Í huga okkar varstu ennþá svo mikill strákur í þér, við sjáum ennþá fyrir okkur stríðnisglampann í augum þínum. Þér fannst í anda þú ekki vera árinu eldri en fertugt. Þú varst stöðugt að bjóða fram aðstoð þína ef eitthvað var í gangi, stöðugt að finna uppá einhverju nýju. Allir litlu smáhlutirnir sem þú bjóst til og eru til staðar uppí bústað í Stóra-Fjalli bera merki manns sem aldrei sat auðum höndum. Vinnan var þér svo mikils virði og því var það svo mikið áfall fyrir þig þegar þú hafðir ekki lengur þrek til að taka til hendinni, að bæta við og breyta í bústaðnum í Stóra Fjalli, að saga niður eldivið, að smíða eitthvað eins og þú hafðir gert alla þína ævi.

Elsku pabbi. Þakka þér fyrir allt það mikla sem þú hefur gert fyrir okkur á þinn hógværa hátt.

Við munum passa uppá mömmu sem syrgir nú elskulegan maka sinn en stendur sig þó svo ótrúlega vel. Þú varst henni svo mikið, ekki bara elskulegur eiginmaður heldur nú síðustu árin varstu einnig augun hennar. Við munum alltaf minnast þín.

Bless elsku pabbi, elsku tengdapabbi og elsku afi.

Emil Þór, Bibbý, börn og barnabörn.