Guðmundur Magnússon fæddist 1. júlí 1929. Hann lést 17. janúar síðastliðinn. Móðir hans var Hulda Long, f. 23. september 1909, d. 18. júní 2007. Faðir Guðmundar var Magnús Jónsson frá Ísafirði f. 5. janúar 1908, d. 1978. Tvíburasystir Guðmundar er Ingibjörg. Hálfsystkini þeirra, börn Magnúsar, eru Sjöfn, Jón, Sigurlaug, Margrét, Bragi og Hafdís. Sjöfn og Jón eru látin. Guðmundur veikist þegar hann var á þriðja ári í gagnfræðaskóla, þá sautján ára. Á Þorláksmessu 1947 var hann lagður inn á Klepp og fyrir um 30 árum fluttist hann í Fellsenda í Dalabyggð og bjó þar æ síðan. Útför Guðmundar var gerð í kyrrþey.

Guðmundur, Gummi, eins og hann var kallaður, kom á hjúkrunarheimilið Fellsenda frá Kleppsspítala, fimmtugur að aldri. Hann var því heimilismaður á Fellsenda í 30 ár. Hann veiktist aðeins 17 ára gamall og var þá lagður inn á Kleppsspítala. Þá voru læknis- og hjúkrunarúrræði öðruvísi en nú er og fordómar miklir. Hann hefur því gengið í gegnum miklar breytingar varðandi meðferð og ný og manneskjulegri úrræði.

Hjúkrunarheimilið Fellsendi hefur átt því láni að fagna að hafa farsælt og traust starfsfólk með langan starfsferil. Það er ómetanlegt fyrir sjúklinga með geðræna sjúkdóma að hafa fastan kjarna starfsfólks. Ég held að ég geti fullyrt að Guðmundur hafi búið við skilning og hlýju og að honum hafi liðið vel í sveitasælu undir dalanna sól. Ef við ætlum að hjálpa öðru fólki verðum við að setja okkur í spor þess og byrja þar. Skilningur og samkennd eru því mikilvæg tæki til að þekkja þarfir annarra. Þann skilning og samkennd tel ég að hann hafi fengið á Fellsenda.

Fellsendi er í fallegri sveit Dalasýslu. Kostir sveitarinnar eru ótvíræðir. Sjúklingar og starfsfólk eru í lifandi tenglsum við búfé sem er allt um kring, berjamó í túnfætinum, réttir og möguleika til útivistar og næðis í fögrum og friðsælum Dölunum. Heimilið hefur lagt sig fram um að hafa hjúkrun og aðhlynningu sem besta og reynt hefur verið að mæta hverjum og einum með viðeigandi meðferðarúrræðum og dægradvöl. Gummi tók virkan þátt í því starfi sem heimilið bauð. Ferðir til Reykjavíkur og aðrar dagsferðir voru honum til mikillar ánægju og veittu lífi hans inntak og merkingu.
Gummi var tvíburi. Ingibjörg systir hans syrgir nú bróður sinn, en góð og náin tengsl voru milli þeirra. Stuttu fyrir andlátið var hann í sambandi við systur sína og leið honum vel og daginn sem hann andaðist fékk hún undarlegt hugboð þar sem hún sat við tölvuna sína, nákvæmlega á þem tíma sem hann dó. Svona getur lífið komið okkur að óvörum og margt er erfitt að skýra í henni veröld.

Guðmundur var afburða námsmaður og hagleiksmaður á mörgum sviðum, hafði til dæmis áhuga á ljósmyndun svo eitthvað sé nefnt. Í gerðinni var hann ljúfur og næmur maður og allra manna hugljúfi. Hann talaði ekki nema á hann væri yrt en hann hugsaði sitt og gat stundum verið skemmtilega stríðinn. Hann var mjög gefinn fyrir tónlist og söng mikið á árum áður. Hann fylgdist einnig með málefnum líðandi stundar í útvarpi og sjónvarpi. Hann var kurteis og alltaf stóð hann upp fyrir fólki og heilsaði með handabandi. Hann var mjög samvinnuþýður. Stuttu fyrir andlátið skipti hann um herbergi við sjúkling sem þurfti annan dvalarstað. Þarna komu kostir hans svo skýrt í ljós, að vera lipur í samskiptum og sýna samstarfsvilja öðrum til hagsbótar. Guðmundur var seigur og til merkis um það var þegar hann brotnaði illa og ekki var útlit fyrir að hann gæti gengið á ný. Með góðri hjúkrun og aðhlynningu og seiglu og þolinmæði hans sjálfs tókst honum að ganga á ný. Hann sleppti því göngugrindinni fyrr en við hefði mátt búast. Sem ungur maður var hann fríður og beinvaxinn og systir hans minnist hans með hlýju og stolti.

Starfsfólk og heimilismenn senda samúðarkveðjur til Ingibjargar og annarra ættingja og þakka góða samfylgd um árin mörgu með Gumma. Hann hvíli í friði.


F.h. starfsliðs og heimilisfólks að Fellsenda í Dölum,

Anna Margrét Guðmundsdóttir.