Elín Guðnadóttir fæddist í 14. október 1950 í Reykjavík. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Selfossi 8. apríl síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Guðni Jónsson prófessor frá Gamla-Hrauni í Stokkseyrarhreppi, f. 22. júlí 1901, d. 4. mars 1974, og kona hans Sigríður Hjördís Einarsdóttir húsmóðir frá Miðdal í Mosfellssveit, f. 28. ágúst 1910, d. 18. júlí 1979. Systkin Elínar eru Einar, f. 13. apríl 1939, d. 20. desember 2005, kvæntur Súsönnu Möller, f. 7. sept. 1943, þau skildu, Bergur, f. 29. sept. 1941, kvæntur Hjördísi Böðvarsdóttur, f. 22. júní 1944; og Jónína Margrét, f. 17. mars 1946, gift Sveini Snæland, f. 2. mars 1944. Systkin Elínar, samfeðra, og börn fyrri konu Guðna, Jónínu Margrétar Pálsdóttur, f. 4. apríl 1906, d. 2. okt. 1936, eru Gerður, f. 4. mars 1926, gift Halldóri Arinbjarnar, f. 4. sept. 1926, d. 4. júní 1982; Jón, f. 31. maí 1927, d. 25. janúar 2002, kvæntur Sigrúnu Guðmundsdóttur, f. 7. des. 1930; d. 25. sept. 2008, Bjarni, f. 3. sept. 1928, kvæntur Önnu Guðrúnu Tryggvadóttur, f. 14. júní 1927; Þóra, f. 17. feb. 1931, gift Baldri H. Aspar, f. 8. des. 1927; Margrét, f. 30. nóv. 1932, d. 13. maí 1952. Elín ólst upp í Hlíðunum í Reykjavík, yngsta barnið í stórum systkinahópi. Hún gekk í Hlíðaskóla og síðar landsprófdeild Gagnfræðaskólans við Vonarstræti. Þegar á unglingsárum fór að bera á þeim sjúkdómi sem hrjáði hana það sem eftir var ævinnar og gerði að verkum að hún dvaldi lengst af ævinnar á Kleppsspítala og öðrum stofnunum fyrir geðsjúka. Þar kynntist hún ástvini sínum og unnusta til margra ára, Brynjólfi Brynjólfssyni. Fyrir nokkrum árum fluttust þau saman að Kumbaravogi við Stokkseyri og áttu þar nokkur góð ár við gott atlæti og umönnun frábærs starfsfólks. Elín missti unnusta sinn fyrir þremur árum. Útför Elínar Guðnadóttur fór fram í kyrrþey frá Fossvogskapellu 21. apríl síðastliðinn.

Það er ekki jafnt gefið í lífinu!

Ég hélt það lengi að allir fæddust með jafna möguleika til að njóta gæða lífsins og þegar ég kynntist Ellu hélt ég að hún ætti góða ævi framundan. Þessi fallega unglingsstúlka, yngri systir Nínu unnustu minnar, var eins og allar stúlkur áttu að vera; glöð, bjartsýn og á allan hátt eðlileg í mínum augum.

Hún hafði fallega söngrödd og brast í söng við minnsta tækifæri. Allt virtist mér eins og þarna væri ung kona á venjulegri vegferð í lífinu.

Sú tálsýn átti því miður að falla því það kom í hlut minn og Nínu að keyra hana í sina fyrstu innlögn á Klepp, það hræðilega hótel þar sem nafnið eitt var svo gildishlaðið að þeir sem þangað fóru fengu stimpil, sem aldrei varð af þeim máður.

Ella, þessi yndislega, venjulega, fallega stúlka með alla sína drauma var að stíga sín fyrstu spor á þeirri vegferð sem varð hennar hlutskipti alla ævina þaðan í frá.

Ella var frá þessari stundu ófrjáls manneskja með stuttum hléum, með veikindi sem gáfu henni engin grið og dæmd til fjarvista frá þeim sem þótti vænst um hana, þó stundum yrðu stutt hlé á kvölinni.

Það var aðstandendum hennar mikil raun að sjá og finna vanmátt sinn í að gera henni lífið léttara því veikindi hennar einöngruðu hana frá ástvinum hennar og dvalir hennar á stofnunum fjarri Reykjavík settu oft strik í reikninginn hvað heimsóknir varðaði.

Ella dvaldi á mörgum stofnunum þar sem hún naut ávallt góðrar aðhlynningar enda var hún góðhjörtuð og örlát manneskja í allri sinni neyð. Hún hugsaði mest um hve aðrir á viðkomandi stofnun áttu bágt. Hennar hugur var með þeim.

Í heimsóknartímum vildi hún strax deila sígarettum eða góðgæti með samferðarfólki sínu á viðkomandi stofnun því það fólk átti svo bágt. Hún var örlát á það litla sem hún átti.

Ella hefði eflaust gengið hefðbundinn menntaveg hefði hún hlotið þá frumgæfu að vera heilbrigð. Hún hafði góðar gáfur og allt til að bera til að geta orðið venjuleg, vel metin kona, eiginkona, móðir og amma. Hún fylgdist með afmælisdögum frændsystkina sinna, spurði hvernig gengi hjá börnum okkar og barnabörnum og gladdist með okkur, þegar vel gekk hjá börnum okkar.

Tvisvar á ævinni lenti hún í áföllum sem hefðu getað kostað hana lífið. Þessi áföll skertu hana mikið og lengi gat hún ekki tjáð sig en hún náði að vinna sig út úr þeim með dyggri hjálp lækna og starfsfólks og sínum eigin lífskrafti og seiglu.

Þrátt fyrir þessi áföll náði hún með tímanum nægilegri heilsu til að geta tjáð sig aftur og ná áttum í hvernig stórfjölskyldan hefði það og hver ætti afmæli hvenær.

Á þessari vegferð kynntist Ella honum Binna sínum, sem varð hennar kærasti og fylgdi henni í rúm tuttugu ár og voru þau lengst af saman á stofnunum. Binni var ljúflingur, sjúklingur eins og hún, en stytti henni stundir og elskaði hana allan þann tíma sem þau gátu notið samvista. Hann gladdi hana þegar hann færði henni rauðar rósir og gaf henni gjafir. Án hans hefði hennar líf verið miklu gleðisnauðara og víst er að þau nutu samvistanna.

Á síðasta verustað þeirra, Kumbaravogi á Stokkseyri, leið þeim best, fjarri hávaða og hraða Reykjavíkur og þar létu þau bæði vel af dvölinni og aðhlynningu allri.

Binni lést fyrir þremur árum og Ella saknaði hans mikið og orðaði það oft undir það síðasta að hún saknaði hans meir og Binni sækti á sig í draumum.

Ella veiktist illa í mars síðasliðnum af umgangspest, fékk lungnabólgu í kjölfarið og lést á Sjúkrahúsinu á Selfossi HInn 8. apríl sl.

Ella mágkona mín skipti mig miklu. Ég hafði fylgst með henni alla hennar sjúkdómstíð, fundið til með henni og blöskrað órættlæti lífsins og vonað að ástandið myndi kannski breytast til hins betra, en það gerðist ekki. Að henni látinni eru eftir minningar um góða konu, sem vildi öllum gott gera, hafði alltaf hugann við það sem allar venjulegar frænkur gera en var alltaf fjarri ástvinum sínum.

Þetta eru jarðnesk örlög sem ég trúi að verði að leiða til þess að henni séu betri kjör búin á nýjum og betri stað. Á kveðjustundum eftir heimsóknir kvaddi hún okkur Nínu oft með þessari lítillátu en tilfinningaþrungnu ósk: "Viljið þið biðja fyrir mér?"

Vertu blessuð, Ella mín, og Guð geymi þig.

Aðstandendur vilja koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem annast hafa Ellu með ástúð og umhyggju á hennar sjúkdómsárum. Þeirra framlag er ómetanlegt.

Sveinn Snæland (Nenni).