Hermann Einarsson
Hermann Einarsson
Frá Hermanni Einarssyni: "LESANDI góður. Ég vil óska þér og þínum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Flest okkar, ef ekki við öll sem þetta land byggjum, hafa ekki farið varhluta af þeim aðstæðum sem uppi eru í samfélaginu í dag."

LESANDI góður. Ég vil óska þér og þínum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Flest okkar, ef ekki við öll sem þetta land byggjum, hafa ekki farið varhluta af þeim aðstæðum sem uppi eru í samfélaginu í dag. Víða kreppir skórinn að í fjármálum fyrirtækja og sveitarfélaga. Sveitarfélagið Fjallabyggð býr við góðan fjárhag og staða þess er almennt traust, enda hefur þeirri sveitarstjórn sem nú situr tekist að forðast þá gryfju sem margir hafa fallið í, að taka óhagstæð lán til að greiða fyrir misjafnlega arðbærar framkvæmdir. Þvert á móti hafa verið greidd niður lán um 90 milljónir árlega auk þess sem framkæmdir hafa verið mjög miklar en á þessu kjörtímabili má reikna með að fjárfestingar verði um 850 milljónir. Nettó langtíma skuldir sveitarfélagsins eru um 900 milljónir. Miðað við endurskoðaða fjárhagsáætlun 2009 þá er rekstarniðurstaða A-hluta, sem er aðal- og eignarsjóður, jákvæð um 60 milljónir en rekstrarniðurstaða B-hluta, sem er hafnarsjóður, íbúðasjóður og veitustofnanir, er neikvæð um 114 milljónir. Endurskoðuð áætlun 2009 vegna A og B hluta gerir því ráð fyrir gjöldum umfram tekjur að upphæð 54 milljónir Það þýðir að gengið er á handbært fé sveitarfélagsins um sömu fjárhæð. Miðað við þær aðstæður sem nú eru uppi verður að telja þetta vel viðunandi niðurstöðu, skuldir hafa minnkað en ekki aukist í því óveðri sem nú geisar í efnahagslífinu. Nú er hafin fyrri umræða um gerð fjárhagsáætlunar 2010, segja má að fjárhagsáætlunin verði á svipuðum nótum og fyrir árið 2009. Mikið hefur verið unnið á vegum nefnda varðandi sameiningu skóla og þjónustumiðstöðva og langar mig að þakka sérstaklega því fólki sem þar hefur lagt á sig mikið starf. Við kosningu um sameiningu sveitarfélaganna lá fyrir að breytingar í rekstri sveitarfélagsins væru óhjákvæmilegar.

Þetta er ekki létt eða skemmtilegt verk en okkur kjörnum bæjarfulltrúum ber skylda til að ganga í þetta verk eins og önnur þrátt fyrir að líklegt megi telja að niðurstaðan muni ekki falla öllum vel. Ég hef lagt á það mikla áherslu að núverandi sveitarstjórn tali einni rödd í þessum viðkvæmu málum og þetta má alls ekki verða að pólitísku þrætuepli. Slíkt væri hvorki samfélaginu til gagns, né okkur kjörnum fulltrúum til sóma. Óhætt er að segja að miklar breytingar eru að verða í samfélaginu. Sumum líkar það vel en öðrum miður. Má þar nefna að tekin hefur verið upp flokkun á sorpi og er Fjallabyggð eitt af fáum sveitarfélögum sem hafa stigið það skref. Það er nú einu sinni svo að aldrei verður hægt að gera svo öllum líki og mér hefur oft á tíðum þótt skorta þolinmæði í samfélaginu gagnvart þeim breytingum sem verið er að innleiða. Nýjungar og þróun hafa bæði kosti og galla og breytingarnar eru ekki alltaf auðveldar eða þægilegar. Engu að síður verða þær með tímanum og þess vegna er svo mikilvægt að taka þeim af jákvæðni og gefa þeim möguleika áður en byrjað er að rífa þær niður og finna þeim allt til foráttu!

HERMANN EINARSSON, bæjarfulltrúi í Fjallabyggð.

Frá Hermanni Einarssyni